02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í C-deild Alþingistíðinda. (2512)

4. mál, embættaskipun

Lárus Helgason:

Jeg skal ekki segja margt. Það er ekki nauðsyn að bæta miklu við. Umræðurnar hafa ekki að neinu leyti breytt afstöðu minni í þessu máli. Jeg hefi frá byrjun verið fylgjandi frv. í aðalatriðunum. Jeg hafði það með á þingmálafundunum í vetur og varð hreint ekki var við óánægju með það. Þvert á móti. Menn til sveita fara nærri um það, að ef á að spara eitthvað fje við embættismannahaldið, þá hljóti embættismennirnir að verða strjálli við það. Jeg get með góðri samvisku greitt atkvæði mitt með þessu frv. og það mun jeg gera. Það hefir mikið verið talað hjer um þörfina fyrir sýslumenn, að hún væri mikil, vegna hinna þýðingarmiklu starfa, sem þeir hefðu á hendi. En jafnframt hefir verið sýnt fram á, að ýms embættisstörf þeirra mætti fela öðrum að gera fyrir minni borgun. Jeg veit til dæmis um það í Skaftafellssýslu, að þar hefir heil árin enginn lögfræðingur verið í sýslunni. Störfum hans gegndi þá annar maður í sambandi við fleiri störf. Og um nokkur ár hefir skrifari sýslumannsins annast um vandasömustu reikningana, t. d. tollreikninga; það gekk alt vel hjá honum. Mjer er fullkunnugt um það, að þegar til stjórnarráðsins kom, var lokið lofsorði á reikninga hans. Þetta get jeg sannað, ef krafist er. Jeg tek þetta sem dæmi upp á, að öllum störfum sýslumanna er ekki þannig háttað, að lögfræðiþekkingu þurfi til að inna þau af hendi. Jeg lofaði að vera stuttorður, enda ætla jeg aðeins að taka fram, að þótt frv. sje ekki gallalaust, þá getur það lagast í meðferðinni. Finn jeg það helst að, að það er gengið of skamt, að mínu áliti mætti fella niður ýms fleiri embætti, sjerstaklega þau nýrri, t. d. embætti við yfirullarmat, kjötmat og ýmislegt fleira, sem hjer er óþarft að telja upp.