02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

4. mál, embættaskipun

Lárus Helgason:

Jeg hafði haldið, að hv. þm. Dala. (BJ) skildi vel íslensku, en nú verð jeg að efast um það. Hann hjelt, að jeg og fleiri værum að mæla gegn frv., en jeg skil ekki, hvernig hann hefir getað dregið þá ályktun. Hann vildi vita nafn þessa sýslumanns, sem jeg mintist á. En jeg verð að segja honum, með fullri virðingu, að honum komi í raun og veru ekki við, hver það var. Hins vegar sje jeg ekki, hvaða vansi það ætti að vera fyrir ungan sýslumann, sem hefir enga verklega reynslu, að láta gamlan og æfðan skrifara vinna fyrir sig. Jeg skal þó taka fram, til að byggja fyrir allan misskilning, að þessi sýslumaður var ekki núverandi sýslumaður Skaftfellinga.