02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal ekki lengja umræður um þetta mál mikið. Jeg leyfi mjer að þakka hv. þm. Mýra. (PÞ) og hv. þm. V.-Sk. (LH) fyrir hinn góða stuðning, sem þeir hafa veitt málinu. Það er langt frá því, að þessir hv. þm. hafi mælt á móti frv., eins og hv. þm. Dala. (BJ) fleygði fram, heldur mæltu þeir eindregið með því, eins og þeirra var von og vísa. Hv. þm. Dala. (BJ) virtist telja frv. ýfingar við landsmenn, en það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Ef það væri lagt fyrir kjósendur í dag, mundi sá dómur hv. þm. ekki standa á morgun. Hann sagði, að með því að bæta þessum störfum á hreppstjórana þyrftu þeir að fá aukin laun, en svo er ekki. Hið aukna erfiði, sem á hreppstjórana kemur, er sama og ekki neitt, því þeir sameina manntalsþingin við hin árlegu þing, sem þeir halda nú. Og eins og sakir standa nú, geta sýslumenn falið þeim innheimtu manntalsbókargjaldanna að þinginu loknu, enda gera margir þeirra það.

Jeg vissi, hvert hv. þm. Dala. (BJ) vildi stefna, þegar talið barst að sýslumanninum í Skaftafellssýslu. En hv. þm. (BJ) má vera þess fullviss, að við mig var ekki átt, því þó jeg notaði aðstoð skrifara míns, þá gekk jeg sjálfur frá öllum mínum reikningum, og var varla nokkurn tíma nokkuð við þá athugað, enda gæti háttv. þm. fengið upplýsingar um það í stjórnarráðinu, og mundu þær síst vera mjer í óhag. Annars tel jeg ekki vert að ræða meira um þetta mál, og er best, að atkvæði þingmanna sjeu látin skera úr sem fyrst.