16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Eitt atriði er það í þessu máli, sem jeg hefi ekki fengið upplýsingar um enn þá. enda þótt jeg hafi spurst fyrir um það, en það er, hvort undanþágan um innflutning vína nái einungis til náttúrlegra vína, eða hvort einnig megi flytja inn vín, sem eingöngu eru búin til úr spírítus. Í rauninni er þetta ekki merkilegt atriði í mínum augum, en þó vildi jeg gjarnan fá upplýsingar um þetta. Hæstv. forsætisráðherra tók sjer frest til að svara þessari spurningu minni, en svar er ókomið enn þá.

Það mun hafa verið tilætlunin á síðasta þingi. þegar undanþágan var samþykt, að einungis yrðu flutt inn vínberjavín. Jeg gerði athugasemd um þetta á síðasta þingi, og hv. frsm. allsherjarnefndar (MJ) svaraði því, og eru ummæli hans á þessa leið“

„Vín þýðir í hinni rjettu, þröngu merkingu orðsins aðeins náttúrleg vín, vínberjavín, og það merkir það hjer.“

Þessi ummæli taka af allan vafa um það, hvernig þingið ætlaðist til, að orðið „vín“ yrði skilið í þessu sambandi, en um hitt vildi jeg fá upplýsingar, hvernig sá skilningur hefir orðið í framkvæmdinni. Ræðu háttv. þm. Dala. (BJ) hefir þegar verið svarað, og þarf jeg þar ekki við að bæta, en þynnast þykir mjer nú farið blóðið í sjálfstæðishetjunni, og gefur framkoma hans nú ástæðu til að ætla, að hann sje einungis sjálfstæðismaður gagnvart Dönum, svo auðmjúkur sem hann er fyrir þeirri árás á sjálfstæði þjóðarinnar, sem felst í kröfu Spánverja um afnám bannlaganna.

Hv. þm. Dala. (BJ) kvað kynlegt að heyra mest mótmæli frá fulltrúa þeirra manna, er mest mundi bitna á. ef vjer ljetum eigi undan kröfum Spánverja. En jeg býst við, að verstu afleiðingar víndrykkjunnar bitni mest á verkalýð landsins og fátækasta hluta þjóðarinnar. Eða hví skyldu hjeraðs- og sveitarstjórnir jafnan hafa amast við og bannað vínsölustaði? Og hvers vegna skyldu þær hafa mótmælt kröftuglega ráðstöfunum stjórnarinnar um vínsölu og veitingaleyfi? Auðvitað vegna þess, að þær álitu, að það mundi verða til mikils fjárhagslegs hnekkis fyrir almenning.

Jeg skal annars ekki blanda mjer frekar inn í umræðurnar, en vænti þess, að jeg fái svar við fyrirspurninni.