27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

16. mál, afnám landlæknisembættisins og stofnun heilbrigðisráðs

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. þm. Str. (MP) byrjaði á að tala um óskabörn stjórnarinnar, en svo nefndi hann embættafækkunarfrumvörp stjórnarinnar. Þau eru nú sum komin til nefndar, þrátt fyrir mótmæli tveggja prestvígðra manna hjer í deildinni, er reyndust með öllu gagnslaus.

Hjer er nú komið með nýtt frv. um nýtt embætti, sem niður á að leggjast. Þá stendur upp þeirrar stjettar maður, sem frv. þetta fjallar um, sem lífvörður hennar, til andmæla frumvarpinu; og svona mun taka við hvað af öðru, hver stjett, sem í hlut á.

Háttv. þm. (MP) bar mjer á brýn, að jeg, sem meðlimur í stjórn Jóns Magnússonar, bar fram annað frv. um þetta mál 1919. Þungamiðjan í því frv. var hin sama og í þessu, sem fyrir liggur, þ. e. stofnun heilbrigðisráðs. Háttv. þm. (MP) er svo mikill stjórnmálamaður, að hann veit, að ráðherrar í sömu stjórn gera ekki ágreining sín á milli út af atriðum í rökstuðningi mála hvor hjá öðrum. Annars hafa háttv. deildarmenn heyrt, hve mikil vinna fylgir landlæknisembættinu, samkvæmt hinni átakanlegu lýsingu háttv. þm. (MP) á því.

En jeg bið þá að taka eftir því, að stjórn Jóns Magnússonar setti til að gegna embættinu, ca. 12 mánaða tíma, prófessor einn við háskólann, sem auk þess bjó þó til 10 ára heilbrigðisskýrslur og leiðrjetti ýmsar misfellur í embættisrekstrinum. Þó að próf. Guðm. Hannesson sje viðurkendur starfsmaður, þá bendir þetta á, að störfin eru ekki eins afsalega mikil og háttv. þm. (MP) heldur fram, og mætti færa fleira fram því til sönnunar. Annars má nefna annað embætti, sem sje hjeraðslæknisembættið í Rvík, sem er vandasamt og eitt hið erfiðasta hjer á landi. Hjeraðslæknirinn, sem nú gegnir því, er vitanlega duglegur og vel lærður; hefir hann gegnt umsvifamiklum störfum við háskólann, enda þótt hann hafi afarmikinn „praxis“. Er þá ekki hugsanlegt, að sá maður, sem forstöðu heilbrigðisráðs hefði á hendi, gæti og gegnt störfum við háskólann; sannar og Guðm. Hannesson það, sem auk sinna embætta bætti úr syndum margra ára, er hann samdi heilbrigðisskýrslurnar.

Háttv. þm. (MP) sagði, af lítilli vinsemd til mín, að frumvarpi þessu væri klakið út á frumvarpsútungarstofnun stjórnarinnar úti í bæ. En hann veit vel, að jeg hefi sjálfur samið það, og skal jeg gefa honum þær upplýsingar, að sá eini maður, sem hefir unnið að því með mjer, er Guðm. Eggerz, fyrv. sýslumaður. Hefir sú vinna hans ekki kostað landið einn eyri, er hann auk þess gegnir öðrum störfum í stjórnarráðinu. Áður hefir það, eins og kunnugt er, viðgengist, að sjervinna við samningu frumvarpa hefir verið sótt út í bæ. Jeg veit, að háttv. þm. hefir nú ekki trúað þessum ummælum sínum, en hefir haldið, að það mundi hljóma vel í þingsalnum. Hann um það.

Það má lengi deila um, hvort betra sje að leggja mikilsverð þjóðfjelagsstörf á herðar eins eða fleiri manna. Þó er nú svo, að mest áriðandi málin eru vanalega lögð í fleiri manna hendur; má í því sambandi nefna, að hinir æðstu dómstólar, sem eiga að gera út um deilumál manna, eru vanalega skipaðir fleirum mönnum en einum.

Það má vel vera, að þörf sje á að laga ýmislegt í þessu frv., en aðalatriðið, sem fyrir stjórninni vakir, er að skapa með því meiri tryggingu í heilbrigðismálum. Þetta er þungamiðjan. Sparnaðurinn er hjer aukaatriði, og þó getur enginn neitað því, að sparnaður yrði að frv., ef prófessor við háskólann gæti haft formenskuna í þessu ráði sem aukastarf, sem jeg nú reyndar hygg. Undir öllum kringumstæðum mætti krefjast þess af formanninum, að hann hefði á hendi kenslu við háskólann, og yrði þá alt af í þessu einhver sparnaður. Sannleikurinn er sá, að störfin í þessu embætti eru ekki mikil, og líklega of lítil fyrir einn mann, en ábyrgðin er mikil og líklega of mikil fyrir einn mann.

Varla skil jeg í, hvernig hv. þm. (MP) getur haldið því fram, að niðurlagning embættisins mundi verða heilbrigðismálunum til niðurdreps. Núverandi landlæknir hefir að vísu verið mikill framkvæmdamaður um heilbrigðismál. Það sannar lítið, því að í embættið gætu líka komið liðljettingar. Nú eru ýmsar bætur á heilbrigðismálum á ferðinni, sem ekki koma frá landlækni, og svo mun verða í framtíðinni, því áhugi læknastjettarinnar á þessum málum er nú að verða meira vakandi en nokkru sinni áður.

Jeg vona, að háttv. deild athugi sjerstaklega, að aðalatriðið er tryggari forsjá heilbrigðismálanna en verið hefir, og vænti, að hún samþykki frv. til 2. umr. og vísi því til allsherjarnefndar.