22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

22. mál, verðtollur

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil aðeins benda á það, í sambandi við síðustu ummæli hæstv. fjrh. (MagnJ), að þessi verðtollsleið hefir þegar verið reynd áður, eða það, að hafa bæði verðtoll og vörutoll samhliða. Þá gafst þetta illa og þótti erfið innheimtan, svo að lögreglustjórar kvörtuðu, þó minst væri um það hjer í Reykjavík, þar sem lögreglustjórinn getur svo að segja talað við alla gjaldendur heima hjá sjer. Og samt áleit hann, að hann þyrfti að fjölga mönnum á skrifstofu sinni, ef þessu fyrirkomulagi yrði haldið áfram. Þetta sýnir því, að það er ekki nægileg ástæða fyrir þessu frv., að ætla aðeins að reyna leiðina, því hún hefir þegar verið reynd og verið frá henni horfið aftur.