18.04.1923
Efri deild: 43. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

14. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem stendur í nál. á þskj. 343, um sögu þessa máls, en hins vegar hefir nefndin komið fram með nokkrar brtt.

Hvað viðvíkur stefnu þessa frv., þá er hún að mestu leyti hin sama sem í vatnalagafrv., og hv. 4. landsk. (JM) talaði þá um, er það var til umr. Nefndin hefir gert dálítið í þá átt, að samræma þetta frv. betur en áður vatnalögunum, og hefir þar af leiðandi komið fram með nokkrar brtt., að efni til. Það er þá 1. brtt. a, við 2. gr. frv., þar sem tekið er fram, að eigi megi án leyfis ríksstjórnarinnar virkja til orkunýtingar fallvatn (foss eða hávaða), ef um meiri orkunýting er að ræða en 500 eðlishestöfl. Hefir nefndin bætt inn í á eftir „fallvatn“ „(foss eða hávaða) eða hluta úr þeim“, og er það gert til þess að samræma frv. vatnalögunum. 2. málsgrein 2. gr. frv. þótti nefndinni óþörf, og leggur því til, að hún falli burt. Brtt. 1, c er rýmkun á ákvæðum 2. greinar.

Nefndin hefir bætt nýjum lið við 4. gr., er verður 18. liður gr., um það, að ríkisstjórninni sje heimilt að veita umsækjanda undanþágu frá ákvæðum greinarinnar, ef þau mundu baka honum tiltölulega mikinn kostnað eða fyrirhöfn, ef hestöfl þau, sem leyft er að virkja, fara eigi fram úr 500. Áleit nefndin það og hart að gengið, að þeir, sem virkja minna en 500 hestöfl, þyrftu að ganga undir öll ákvæði greinarinnar.

Þá kem jeg að 6. brtt. nefndarinnar við 12. gr. frv. Er hún líka rýmkun í þá átt, að eigi sje gengið eins strangt eftir gjaldi af sjerleyfum og í frv. Er í frv. gert ráð fyrir 50 aura minsta gjaldi af hverju hestafli, en nefndin leggur til, að því verði slept af hestöflum, er nema eigi meiru en 200 eðlishestöflum, en að ríkisstjórnin megi setja árgjaldið lægra af hestöflum milli 200 og 500.

Aðalbrtt. nefndarinnar er við 11. gr. frv., um, að í staðinn fyrir 65 komi 75. Hefir hún þannig lengt sjerleyfistímann um 10 ár. Um þennan sjerleyfistíma hefir verið töluvert deilt, og í fossanefndinni voru menn á mismunandi skoðun. Ákvæði stjfrv. eru tekin eftir minni hl. fossanefndarinnar. Nefndin telur eigi rjett að leggja of miklar hömlur á þá, sem virkja vilja fallvötn, þó að nefndin hins vegar álíti eigi, að miklar horfur sjeu á því, að hafist verði handa á virkjun fossa í stærri stíl nú sem stendur. Enda mun ríkinu eigi stafa mikil hætta af því að veita sjerleyfið til svo langs tíma, því það getur dregið til sín virkjunina eftir ákveðinn tíma (40 ár), og virkið fellur endurgjaldslaust til ríkisins að sjerleyfistímanum loknum.

Hinar brtt. nefndarinnar eru flestar orðabreytingar og þarf jeg eigi að skýra þær. Legg jeg svo til, að málinu verði vísað til 3. umr.