18.04.1923
Efri deild: 43. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

14. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Eins og mörgum hv. þm. er kunnugt, hefi jeg undanfarin ár haft mjög mikinn áhuga á þessu máli, og því, að slíkt frv. gæti orðið að lögum í sæmilegum búningi. Jeg hefi því verið talsvert riðinn við slíka lagasetningu sem þessa, og vildi jeg af þeim ástæðum leyfa mjer að fara nokkrum orðum um málið.

Þegar frv. þetta var í undirbúningi fyrir þingið 1921, þá átti jeg tal um það við þáverandi atvinnumálaráðherra, og fjekk jeg að gera mínar athugasemdir við það, og voru flestar þeirra teknar til greina. En nú hefir hv. allshn. þessarar deildar gengið enn þá lengra í þessu efni. Eru það sjerstaklega tvö mikilsverð atriði, sem jeg benti á, sem hv. nefnd hefir tekið til greina, og er jeg henni þakklátur fyrir það. Held jeg, að frv. sje nú í aðalatriðunum — nema þá einu — vel við unandi, frá mínu sjónarmiði. En þó er nú svo, því miður, að málinu er nú svo farið, að það er eigi eins nauðsynlegt sem það var áður. Þó verður máske eigi langt að bíða, að til framkvæmda komi í þessu efni. En ef frv. þetta verður eigi afgreitt á þessu þingi, þá verður það eigi þessari hv. deild að kenna, því hún hefir gert alt til þess að greiða götu þess, en það yrði þá hv. Nd. að kenna, enda þótt hún hafi haft mál þetta til meðferðar árum saman.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. hv. nefndar.

Það er þá fyrst. brtt. við 11. gr. frv., að í staðinn fyrir 65 komi 75. Um þetta hefir verið mikill ágreningur undanfarið. Þeir, sem hugsuðu til virkjunar, fóru fram á það, að sjerleyfistíminn yrði sem lengstur, enda er það þýðingarlaust að hafa tímann svo stuttan, að eigi borgi sig fyrir fjelög þau, sem virkja vilja, að hefjast handa. Upprunalega var tíminn ákveðinn 55 ár, svo 65 ár, en nú 75 ár. Það hefir verið farið fram á 90 ár, en það tel jeg of hátt. En 75 ár tel jeg alveg nauðsynlegan tíma.

Þá er það brtt. við 12. gr., að í staðinn fyrir 25 ár komi 35 ár. Álít jeg mjög hæpið, að þeir menn, sem til virkjunar hugsa, sjeu ánægðir með þennan tíma, en auðvitað er mikil bót að till. nefndarinnar. Býst jeg þó við, að hættulaust sje að láta þennan tíma standa, því jeg býst eigi við, að nein landsstjórn verði svo harðdræg að nota heimildina til að hækka árgjaldið mjög mikið og íþyngja með því atvinnurekendunum svo að þeir neyddust til að hætta rekstrinum eða reka virkjunina með árlegu tapi. Jeg fyrir mitt leyti óttast eigi, þó að ákvæði þetta verði sett í frv., en á hinn bóginn býst jeg við, að raddir muni koma fram um það síðarmeir, að þetta sje viðsjárvert.

Þá brtt. nefndarinnar við 12. gr., að eigi skuli greiða neitt gjald af virkjun, er nemur minna en 200 hestöflum, tel jeg mjög góða, og eins það, að gefa landstjórninni heimild til að lækka gjöldin á virkjun milli 200–500 hestafla, eða fella þau burt eftir atvikum. Um aðrar brtt. nefndarinnar er í rauninni lítið að segja. Hefði jeg þó hugsað mjer ástæðu til að gera þá breytingu á 7. gr., að hækka hestaflatöluna úr 25 þús. upp í 40–50 þús., þannig, að þá fyrst þyrfti samþykki Alþingis. Var jeg að hugsa um það, er frv. var á döfinni í vetur, að koma með brtt. í þá átt, en jeg hætti við það, eins og getið er um í greinargerð frv., og jeg hefi eigi haft tækifæri til að bera mig saman við háttv. nefnd um það efni. En jeg leyfi mjer að skjóta því til hv. nefndar, hvort hún vilji eigi taka þetta atriði til athugunar undir 3. umr. málsins. Og enn fremur hafði jeg hugsað mjer þá breytingu við 5. gr., að skjóta inn í á eftir orðunum: „Ef hjeraðsstjórn“, í síðustu málsgrein, „vill“, þannig að málsgreinin verði: Ef hjeraðsstjórn vill og getur o. s. frv. Jeg hefi svo eigi fleira um þetta að segja að sinni, en jeg vona, að brtt. nefndarinnar verði samþyktar og málinu vísað til 3. umr.