20.04.1923
Efri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

14. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg er sammála hv. 5. landsk. þm. (JJ) í því, að engin líkindi sjeu fyrir því, að frv. þetta nái að komast gegnum hv. Nd. á þessu þingi. Þrátt fyrir það, tel jeg samt heppilegast, að þessi háttv. deild gangi frá frv. sem best hún má, og verður þá hægt að leggja það fyrir hv. Nd. á næsta þingi. Eins og nú er, er frv. vel úr garði gert, en brtt. hv. 5 landsk. þm. (JJ) skemma það, að mínu áliti. Reyndar býst jeg ekki, fremur en hann, við því, að þær verði samþyktar, og teldi jeg sjerstaklega ver farið, ef svo yrði um síðari part 1. liðs og 2. lið. Að miða sjerleyfið við 55 ár, væri stórkostleg afturför frá því, sem bæði milliþinganefnd og vatnanefnd Ed. hafa lagt til. Það kann vel að vera, að erfitt sje fyrir fjelög, sem hafa viljað fá sjerleyfi til virkjunar, að taka þau nú; en engu að síður eru ummæli hv. 5. landsk. þm. (JJ) um þessi fjelög engan veginn rjettmæt. Ef vatnalöggjöf vor hefði verið tilbúin 1919, þá má telja alveg vist, að þegar væru orðnar talsverðar framkvæmdir á virkjun fossa vorra.

Þá er og víst, að við samningu sjerleyfislaganna verður að taka tillit til hinna erlendu fjelaga, og þau hafa látið uppi það álit, að ekki væri tiltækilegt að ákveða tímabilið skemmra en 65–75 ár, og væri það meira að segja full stutt.

Þá er ákvæðið um samþykki Alþingis, og sjerstaklega tveggja þinga, alveg óaðgengilegt. Eru altaf mikil vandkvæði á að hleypa slíku málum fyrir þingið, og hefir verið sýnt fram á það með rökum áður fyr. Verð jeg því að leggja til, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá 2. umr.