24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

97. mál, vaxtakjör

Frsm. meiri hl. (Karl Einarsson):

Þessu litla frv. fylgir eftir atvikum allítarleg greinargerð á þskj. 169. Skal jeg því ekki þreyta háttv. deildarmenn á því að skýra frá innihaldi þess, því jeg veit, að þeir hafa kynt sjer það sjálfir.

Fjhn. hefir ekki getað orðið sammála um frv. þetta. Leggur meiri hlutinn til að það nái fram að ganga með nokkrum breytingum. Því að hann lítur svo á, eins og segir í greinargerðinni fyrir frv., að bankamir geti vel lánað með lægri vöxtum gegn tryggu veði út á jarðir í sveit og aðrar fasteignir, til þess jafnframt að auka verðmæti aðalfasteigna landsins, sem eru jarðirnar, auk þess, sem þessi atvinnuvegur, landbúnaðurinn, er lífsnauðsynlegur fyrir þjóðina. Því jeg veit ekki hvar við stæðum, ef við hefðum aðeins fiskiveiðarnar og engan landbúnað. Vitanlega gefur hann engan uppgripaarð, en ef hann er forsjálega rekinn, þá er hann vís og farsæll atvinnuvegur.

Brtt. á þskj. 404 á að laga þann agnúa, sem virtist vera á frv. Fyrst og fremst að bæta inn í orðunum „gegn veði í fasteign“ og í öðru lagi, að vextirnir skuli alt af vera ákveðinni % lægri en aðrir vextir, til þess að sleppa brotinu, sem ákveðið var í frv., sem virtist vera óþægilegt.

Þá skal jeg snúa mjer að nál. háttv. minni hl., og skal jeg reyna að vera ekki langorður, þó að háttv. minni hl. sje það.

Háttv. minni hluti byggir fyrstu mótbáru sína á því, að til þess sje ætlast, að lán til landbúnaðarins sjeu alt af veitt með lægri vöxtum, án tillits til tryggingarinnar. Þetta var alls ekki meining flm., og fyrir því hafa þeir lagfært þetta með brtt. á þskj. 404.

Á vaxtamismuninn hefi jeg minst áður, að heppilegra myndi verða að hafa vextina ákveðinni % lægri, til þess að þurfa ekki að hafa brotið.

Þá fer háttv. minni hl. að tala um Íslandsbanka. Á hann hefir nú verið minst hjer, bæði í gær og á laugardaginn, og skal jeg ekki fara að blanda mjer inn í þær umræður nú. En jeg verð að taka það fram, að jeg tel það ekki koma neitt í bága við þann rjett, sem hluthöfum bankans er veittur með lögum hans og reglugerðum, þó hann veitti eitthvað af slíkum lánum. Því jeg veit ekki betur en í lögum hans standi, að starfssvið hans eigi að vera að efla atvinnuvegi landsins. Og er þau lög voru sett, lifðu um 2/3 landsmanna á landbúnaði, og þó að fiskiveiðar væru þá töluvert stundaðar, var þó aðalatvinnuvegurinn jarðrækt.

Annars mun jeg ekki fara að lesa kafla upp úr lögum bankans og reglugerðum, eins og nú er farið að tíðkast hjer, því menn eru vanir að segja það svart, sem er hvítt, og hvítt, sem er svart. En hins vegar verð jeg þó að telja það alveg rangt hjá hv. minni hl., að ákvæði þessa frv. geti ekki einnig náð til Íslandsbanka.

Þá er næsta viðbára háttv. minni hl., að örðugt mundi verða að sjá um, að þessum lánum yrði varið til þess, sem þau voru tekin til. Þetta hlýtur eflaust að vera skrifað í fljótræði, því annars væri það ekki skiljanlegt. Því að það er flestum kunnugt, að hjer eru tveir sjóðir, sem ekki má veita fje úr, nema í vissum tilgangi, en það eru Fiskiveiðasjóðurinn og Ræktunarsjóðurinn, og hefir ekki heyrst, að þeir væru misnotaðir. Menn, sem fá vilja lán úr þeim sjóðum, lýsa einungis yfir, í hvaða tilgangi þeir fái lánið, og hefir aldrei heyrst, að slík lán væru ekki notuð á rjettan hátt. Hvers vegna skyldi þá ekki mega nota alveg sömu aðferð hjer?

Þó að maður, sem fengi svona lán, væri svo efnum búinn, að hann gæti keypt hlutabrjef í útgerðarfjelagi, sje jeg ekki, að slíkt kæmi neitt í bága við lántöku hans, ef hann einungis notaði lán sitt til jarðræktar.

Þá segir hv. minni hl., að enga skipun sje hægt að gera um það, hve mikið bankarnir eigi að lána í þessu skyni. Það er alveg satt. Það er engin skipun gerð um það. Því það færi vitanlega eftir vilja og getu bankanna. Ætti það því út af fyrir sig ekki að gera frv. óhæft til að ganga fram.

Jeg mun ekki fara út í þau atriði nál. hv. minni hl., þar sem talað er um bankavaxtabrjefin, og að þau hafi verið óseljanleg nema með miklum afföllum, því jeg veit, að það stafaði af öðrum ástæðum en taldar eru í nál. hv. minni hl., að þau fjellu í verði sem raun varð á. Og hitt veit jeg, að veðdeildin veitti lán þessi umræddu ár ekki minna en áður.

Annars býst jeg við að fá tækifæri til að skýra þetta betur áður en umræðunni er lokið. En jeg held, að það sje ekki rjett, að hjer hafi orðið nein breyting, nema eftir eðlilegum ástæðum.

Þá er það sagt í nál. minni hl., að upp úr þessu hafi það ráð verið tekið, að stofna Ríkisveðbankann, en það hafi verið tilgangslaust, af því að ekkert fje var fyrir hendi. Þetta er ekki alls kostar rjett, því að banka þennan á að stofna af þrennum sjóðum: Viðlagasjóði, Ræktunarsjóði og Kirkjujarðasjóði. Hefir það því ekki hindrað stofnun hans, að fje var ekki fyrir hendi, heldur hitt, að ekki er búið að útvega markað fyrir brjef hans, sem stafar af hinum óeðlilega háu vöxtum.

Þá hefir verið minst á, að Landsbankinn ætti í sjóði 4 milj. kr., en þar hefir verið ruglað saman sjóði hans og því, sem hann á hjá Íslandsbanka. Og jeg veit ekki, hvort þeir menn gera Íslandsbanka nokkurn sjerstakan greiða, sem altaf eru að halda því á lofti, að hann hafi fengið þetta lán hjá Landsbankanum. Því jeg skoða þetta sem augnabliksráðstöfun, og hefði hún ekki verið gerð, hefðu seðlar Íslandsbanka runnið inn í Landsbankann, og þá um leið vaxið skuldin við útlönd.

Þá er það ekki rjett, sem stendur í niðurlagi nál., að Landsbankinn hefði meiri arð af fje sínu með því að lána það út en hafa það hjá Íslandsbanka. Því menn ganga hjer ekki með fulla vasana af seðlum, og einungis takmörkuð seðlafúlga getur hjer verið í umferð. Það, sem fram yfir það er, er lagt inn í bankana. Og nú eru í umferð 8 miljónir í seðlum. (BK: Ekki nema 7 milj.). Víst, 8 milj., með Landsbankaseðlunum, og hefir reynslan sýnt, að það er nóg. Það, sem fram yfir það væri, myndi þegar koma inn í bankana aftur, og ef þeir lenda hjá Landsbankanum, þá yrði hann að láta þá til Íslandsbanka, þó ekki væri til annars en þess, að hafa þó einhverja vexti af þeim.

Tel jeg svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál. En jeg vona, að frv. verði samþykt með brtt. á þskj. 404.