24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

97. mál, vaxtakjör

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að taka hjer fram fáein atriði. Jeg held, að hjer hafi verið töluð orð, sem hvorki eru bygð á þekkingu á frv. því, sem fyrir liggur, nje vaxtakjörum landbúnaðarins erlendis. Þetta frv. er borið fram vegna þess, að öllum hlýtur að vera ljóst, að vaxtahæðin í Íslandsbanka er miðuð við tap það, er stofnunin hefir beðið við það að hjálpa sjávarútveginum og kaupmönnum. Það er líka viðurkent frá alda öðli af öllum þeim, sem vit hafa á, að vextirnir fara eftir áhættunni. Því meiri áhætta, því meiri vextir, því minni áhætta, því lægri vextir. Hjer er um það að ræða, hvort meginstefna þessa frv. sje röng, en hún er sú, að minni áhætta sje að lána til atvinnurekstrar í sveitum en til sjávar. Það er hægt að sanna þessa skoðun með tilvitnun í ástandið sem nú er, og í raun og veru var hún sönnuð í umræðunum um Íslandsbanka, þar sem talað var um, að vextir þar væru hærri vegna taps á útgerðinni. Það má ekki blanda veðbanka saman við þetta mál. Veðbankinn bætir ekki nema að nokkru leyti úr lánsþörf sveitanna. Það er óhugsandi, að veðbanki verði notaður til að greiða verslunarskuldir eða hjálpa við verslun sveitamanna. Veðbankinn hjálpar viðvíkjandi fasteignum í sveitum og kaupstöðum, en ekki öðru, og því verða hinir bankarnir að taka lán til atvinnurekstrar. Hæstv. atvrh. (KIJ) skildi þetta vel, er hann vildi láta lægri vaxtakjörin ná til smábátaútvegsins, af því hann væri hættulítill fyrir lánveitanda. Nokkur hluti af veðfje bankanna, c. 10–15%, stendur í lánum hjá sveitamönnum, og vextir þessara manna miðast við hið óskaplega ástand, sem er í kaupstöðunum. En það þolir bændastjett landsins ekki. Meðferð þessa frv. sker úr því, hverjir skilja það, að vextirnir eiga að fara eftir áhættunni. Það er óhugsandi, að það verði til lengdar hægt að kúga bændur til að greiða jafnháa vexti eins og þá, sem fá fje lánað í einskonar fjárhættuspil. Það er ranglæti, sem bygt er á hlutdrægni eða vanþekkingu.

Þá hefir verið „kritiserað“ hjer fyrirkomulag hins fyrirhugaða veðbanka, og sagt, að hjer ætti betur við „kreditforeningssystemið“. En sá, sem undirbjó veðbankalögin, hafði betur vit á því máli en nokkur maður hjer í deildinni, og dómur hans var bygður á nákvæmri rannsókn. Og til skýringar hv. 2. þm. G.-K. (BK), sem talaði af lítilli þekkingu um þetta mál, skal jeg geta þess, að það er eitt, sem gerir það ómögulegt að útfæra „kreditforeningssystemið“ hjer, en það er, hvað landið er stórt og fólkið dreift. Í Danmörku eru 12 „Kreditforeninger“. Hvers vegna eru þær 12 í þessu litla landi? Af því, að lánsfjelagshugmyndin gerir ráð fyrir því, að fjelögin nái að eins yfir lítil svæði, til þess að hver þekki annan. Þess vegna hafa Danir sjerstök fjelög fyrir stærri bændur og sjerstök fjelög fyrir húsmenn og enn önnur fyrir kaupstaðina. Ef ætti að innfæra þetta fyrirkomulag hjer, þá yrði að hafa sjerstakt fjelag fyrir hverja sýslu. En þá yrði ekki mikill markaður fyrir brjefin; samkepnin yrði mikil innanlands og ómögulegt að selja þau á erlendum markaði. Alt þetta vissi sá, sem undirbjó veðbankann, miklu betur en hv. 2. þm. G.-K. (BK).