28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

97. mál, vaxtakjör

Frsm. meiri hl. (Karl Einarsson):

Meiri hluti fjhn. hefir leyft sjer að koma fram með brtt. við fyrri gr. frv. þessa, um það, að fastbinda það ekki, eins og frv. gerir ráð fyrir, með lægri vaxtakjörin til þessara lána. Auk þess bætist við greinina nýr málsliður um það, að sömu kjara skuli sveitar- og bæjarfjelög njóta. Meiri hl. hefir átt tal við stjórn Landsbankans um þetta, og hún hefir tjáð honum, að þetta hafi ávalt verið tekið til greina í þeim banka, er um fasteignalán er að ræða, hvort sem það hefir verið víxillán eða önnur lán. Ef t. d. víxillinn hefir verið trygður með fasteignarveði, þá hefir ekkert framlengingargjald verið tekið af honum. Við fengum ennfremur að vita, að bankinn tekur 6% í vexti, 1/2% lægri en Íslandsbanki. En innlánsvextir á innlánsskírteini eru 5%. Munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum er því svo lítill, að meira virðist tæplega heimtandi af bankanum í þessu efni. Með brtt. þykist meiri hl. hafa bætt úr þessu gagnvart Landsbankanum. Ákvæði frv. koma ekki til greina gagnvart honum, því að þeim er þegar fylgt. Jeg vil leyfa mjer að mæla með því, að frv. verði samþykt með þessari brtt.