28.04.1923
Efri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

97. mál, vaxtakjör

Frsm. meiri hl. (Karl Einarsson):

Jeg skal ekki fara út í einstök atriði í ræðu hv. frsm. minni hl. (BK). Skal þó lítillega minnast á tvö atriði.

Hv. frsm. minni hl. (BK) sagði, að Landsbankinn myndi ófúsari á að lána eftir því, sem frv. þetta fer fram á, heldur en að lána gegnum veðdeildina og kaupa bankavaxtabrjefin. Við þrír, sem erum í meiri hl. í nefndinni og áttum tal við bankastjórnina, höfum alls ekki orðið varir við þetta. Enda, ef að kjörunum er gætt, þá verða vextirnir af veðdeildarlánunum, ef bankavaxtabrjefin eru keypt með 94% af nafnverði, fyrir neðan 6% í vöxtum. Ef brjefin eru reiknuð á 85%, þá svarar það til þess, að af þeim sjeu borgaðir nær 6%, eða nákvæmlega 55/6% í vexti pr. a.

Eins og jeg tók fram áður, þá kom það fram í viðtali, er við áttum við bankastjóra Landsbankans, að þó frv. þetta verði að lögum, þá myndu þau ekki snerta hann, þar sem hann hefir áður fylgt þeirri reglu að lána gegn lægri vöxtum út á fasteignaveð.

Þá sagði hv. frsm. minni hl. (BK), að bankanum væri betra að kaupa bankavaxtabrjef. Ef útlánsvextir lækka, þá get jeg skilið það, annars ekki, ef sæmilegt verð er gefið fyrir brjefin.