21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

67. mál, mannanöfn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Sagan sýnir það hverjum heilskygnum manni, að engin þjóð hefir verið nokkru nýt, sú er eigi sýndi fortíð sinni og forfeðrum ræktarsemi, sú er eigi sýndi fulla trygð við tungu og siði sjálfrar sín, sú er eigi varði þjóðerni sitt með oddi og egg. Tvær öndvegisþjóðir má nefna til dæmis úr fornum sið, þær er oft hafa verið nefndar saman og nú síðast í mjög merkilegri grein eftir Neckel háskólakennara í Berlinni, er hann birti í riti Íslandsvinanna. Þessar tvær þjóðir eru Hellenar og hinir fornu Íslendingar.

Jeg veit, að öllum þingheimi er það ljóst, að andleg afrek hinna fornu Hellena rísa sem bjartur eldstólpi upp úr rökkri samtíðarinnar, og að við þann eld hafa verið kveikt öll þekkingarblys allra alda, þeirra er síðan eru liðnar, og að svo er enn. En hitt er mönnum síður kunnugt, að í engri annari tungu er svo lítið um aðfengin orð sem í fornhellenskri tungu. Og flestir vita, að þeir skiftu íbúum jarðarinnar í tvent, í Hellena (þ. e. þá, er mæla á hellenska tungu) og Óhellena (?´? ????a???? eða ?´? b?????ó???? = þeir sem tala ómál, þ. e. ekki grísku). Ást og virðing á öllu þjóðlegu var einkenni þessarar höfuðmentaþjóðar, svo og trygð við tungu og siði forfeðranna. Sömu stoðir renna undir herfrægð þeirra, því að frægastir urðu þeir fyrir landvörn sína. Hinn bjarti eldstólpi þeirra Hellenanna, er jeg nefndi fyr, kviknaði af hinum helga arineldi, sem Hestia varðveitti bæði á arni þeirra og í hug þeirra.

Jeg þykist og vita, að hv. þm. sje það eigi síður kunnugt en mjer, að andleg afrek hinna fornu Íslendinga eru og hafa öldum saman verið gullnáma allra Norðurlanda og geirmenskra þjóða, hafa verið lýsigull, er sló birtu yfir fortíð þessara þjóða, hafa verið það lýsigull og eru enn, sem leiða mun í ljós margt það um ágæti þeirra sjálfra og menning vora og frændþjóða vorra, er nú dylst. Enda er oss sjálfum og háskóla vorum ætlað þetta ljós til þess að vinna við það gullnámu þá, er jeg nefndi.

Og úr því jeg nefndi ræktarsemi Hellena við móðurmál sitt, þá er og rjett að nefna einnig samstætt dæmi frá forfeðrum vorum. Þeir hleyptu að vísu fleiri erlendum orðum inn í tunguna en Hellenar, en þó unnu þeir eigi að siður meira þrekvirki um varðveislu hennar. Hinn alt sigrandi kristindómur fór þá um öll lönd með bagal og mitur og latneska tungu sem eldur í sínu. En Íslendingar tóku að vísu trúna og bagal og mitur, en þeir ljetu eigi svo mjög undan þessu mikla heimsveldi, að þeir ljetu latneska tungu sitja í fyrirrúmi fyrir sinni eigin tungu. Hitt var heldur, að þeir mótuðu og festu gullaldarmál vort á sama tíma sem aðrar þjóðir, þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar, leiddu latneskuna til hásætis og afræktu sína eigin tungu og týndu henni síðan.

Einn hluti tungunnar eru eiginnöfnin. Meðferð beggja þessara fyrnefndu öndvegisþjóða var hin sama. Hver maður hjet sínu nafni og var kendur við föður sinn og kölluðust karlmenn synir feðra sinna en konur dætur þeirra. Og þennan sið höfðu báðar þjóðir haft með sjer úr landi, þaðan er allir Herjar bjuggu, áður en þjóðagreining og þjóðaflutningur hófst. En það hefir sennilega eigi verið síðar en þrem þúsundum ára fyrir Krists fæðing. Hjá oss er því siður þessi meira en fimm þúsund ára gamall, og ætti því að þurfa meira en litlar orsakir til breytingar.

Mjer er sem jeg heyri menn koma fram með þá mótbáru, að það sje eigi mikils virði um nöfnin. En hjer er þó alt annað í efni. Nöfn, þ. e. nafnorð, eru sá þáttur tungunnar, sem er einna langminnugastur á sögu þjóðarinnar. Má þar minna á orðið brullaup (brúðhlaup), er sýnir, að í fyrndinni var það siður að nema konur á brott í alvöru, en síðar í leik, er var þá leifar af hinu eldra. Síðar kemur upp sá siður, að mey skal mundi kaupa, og er orðið brúðkaup lifandi vottur þess. Mætti telja slík nöfn í hundruðum. En eiginnöfnin eru þó einna merkilegust að þessu leyti. Sýna þau á margvíslegan hátt ævikjör og hugsunarhátt þjóðarinnar örófi vetra áður væri saga rituð. Allur sá aragrúi af nöfnum, sem dregin eru af nafni Þórs, sýnir ljóslega, hversu mikil helgi hefir verið á guði afls og eldinga. Auðvitað má sjá þetta á fleiri hlutum, svo sem því, að sumar byrjar á Þórsdag, en ljósast verður mönnum þó hugarfar þjóðarinnar, er foreldrar kunna eigi að velja börnum sínum heillavænlegra nafn en að kenna þau til Þórs. — Þá sýna og nöfnin, að forfeður vorir hafa verið menn gunnreifir, svo sem Sigfús, Gunnrún (Guðrún), Vigfús, Brandr. Og enn sýna þau, að þeir bjuggu í köldum löndum, þar sem birnir voru og úlfar, svo sem Jökull, Bersi, Úlfr, Bera. Mætti lengi telja slík dæmi, en hjer er þó eigi staður nje stund til þess. Jeg hefi nefnt þessi dæmi til þess að vekja þá menn til umhugsunar um málið, sem hafa, ef til vill, eigi gert sjer það ljóst áður. Geta hv. þm. ef til vill gert sjer nokkru ljósara en ella, hvað orðið væri úr þeirri hlekkjafesti frá kyni til kyns, sem gerð er úr endurminningum tungunnar, ef hinn nýi nafnasiður hefði verið kominn á á landnámsöld. Hefði Þórvarðr Þórarinsson verið kallaður Th. Önfer og Þórgerður Egilsdóttir verið nefnd Th. Brundebjalvesen, eða Ingólfr Arnarson kallaður I. Sunnfer, eða Ólafr feilan nefnst O. Breiðfer eða O. Hvammon eða þá O. Thorstensen, eða hefði bræður Unnar djúpúðgu verið menn eignarfallsins og heitið Flatnefs. þá hefðu landar vorir eigi þurft að fyrirverða sig fyrir nöfn sin. Þá bæri þeir að líkindum Kleppskinnunöfn, sumir með endingunni -an, t. d. Þvaran Kveran, Skeifan, Skemman, Skaran, sumir með endingunni -on, t. d. Skolpon, Gvendarbrunnon, Þvælon, Útverkon, sumir á -fer, t. d. Hrútfer, Önfer, Breiðfer, Faxfer, Flófer og Lucifer. Enn aðrir mundu heita jurtanöfnum, t. d. Skollafingur, Geitnaskóf, Lokasjóður, Pjetursbudda. „Þó mundum vjer forgöngumenn nýja tímans,“ sagði einn af forkólfum hinnar nýju nafnamenningar, „velja oss veglegri heiti en þessi, sem að vísu eru nógu góð handa almenningi. Og víst veit jeg, hvað oss mundi best sama, en það er að vera menn eignarfallsins.“ Hefði nú sá maður verið uppi fyr á öldum, þá er sennilegt að vjer hefðum nú nöfn sem: Snerils, Húns, Svæfils, Kodda, Potts, Skotts, Dalls, Kjaralds, Faralds, Erils, Jálks, Skálks, Álku o. s. frv.

En staðanöfn eru eigi síður langminnug en mannanöfn. Renni menn aðeins huganum til bæjarnafnanna í Holti. Á þeim má gerla sjá, hvar skógur var, þá er land bygðist, og hvar ryðja þurfti mörkina áður reistur yrði bærinn. Örnefni sem Holtin sýnir, að allar hæðirnar þar voru skógi vaxnar (á latnesku saltus). Og við hvert bæjarnafn og hvert örnefni eru bundnar einhverjar minningar, og má að jafnaði sjá á nafninu, hverjar þær eru, t. d. Svalbarði, Veðramót, Akr, Akreyjar, Akranes, Gerði, Mannabani, Berufjörður, Svínavatn og ótalmörg fleiri.

Allar þessar minningar geta menn skafið út, ef þeir breyta nöfnunum. Og ekki fríkkar, ef þeir bæta gráu ofan á svart og klína helgum heitum á ómerkilega staði. Skessur kváðust á:

Systir, ljáðu mér pott.

Hvað vilt þú með hann?

Sjóða í honum mann.

Hver er hann?

Gissur á Botnum,

Gissur á Lækjarbotnum.

Nú verður að yrkja þessa vísu upp fyrir skessukindina og geta þess, að Gissur búi nú að Lögbergi!! Jeg læt þetta dæmi nægja, því að öllum munu kunn mörg dæmi slíkra skemdarverka.

Þá er annað höfuðatriði, sem gerir viðhald rjettra nafna mikils vert fyrir viðhald tungunnar. Þau eru allra orða geymnust á beygingar og rjettar orðmyndir, en í þeirra stað koma í hinum nýja nafnasið óbeyjanleg orð. Það verður endirinn á þessari ættarnafna og- gæsarlappa öld, að beygingar hverfa úr málinu, enda er góð byrjun þegar gerð: Herra Skramban á frú, sem heitir einnig Skramban, en ekki Skrambana, svo sem búast mætti við eftir lögum og eðli tungunnar. Í gæsarlappahríðinni er það algengt, að menn eigi hluti í „h.f. Kári“, ekki í Kára, menn koma „með e.s. Gullfoss,“ en ekki á Gullfossi o. s. frv. En nái sníkjumenningin beygingunum úr tungu vorri, þá er slitið sambandið milli vor og fortíðarinnar, þá er íslenskan orðin ill danska. En hún kve vera auðlærð.

Þriðja höfuðatriði þess mikla hlutverks, sem eiginnöfn hafa unnið í þjónustu íslensks þjóðernis og munu vinna, ef þeim er ekki brjálað, skal nú talið: Nafnasiður vor er skuggsjá hins mikla einstaklingsfrelsis og einstaklingssjálfstæðis, sem einkennir þjóðabálk vorn, og skuggsjá þeirrar virðingar, sem vjer og forfeður vorir hafa jafnan borið fyrir konum og rjetti þeirra, svo sem hinn rómverski nafnasiður var skuggsjá þess ófrelsis, er konur áttu þar við að búa.

Svo sem jeg sagði fyr, var nafnasiður Hellena nákvæmlega hinn sami sem vor, og svo gersamlega eins var hann, að þar tíðkuðust og auknefni sem hjá oss. En siður Rómverja var allur annar, þótt þeir væri af sama stofni runnir. Þar hjetu menn þrem nöfnum: fornafni (prænomen), ættarnafni (nomen gentilicium) og viðnafni (cognomen) og stundum auknefni (agnomen) hinu fjórða. Dæmi: Marcus Tullius Cicero, Publius Cornelius Scipio Africanus. Um kvennaheiti var nú sá siður, að dætur hjetu ættarnafni föður síns, meðan þær sátu í föðurgarði, og var þá greint svo á milli margra dætra, að þær voru kallaðar eldri og yngri eða 1., 2., 3. o. s. frv. Til að mynda hjet dóttir Ciceros Tullia, og hefði hann átt þrjár dætur, þá hefði þær heitið 1., 2. og 3. Tullia. En er heimasætan var manni gefin, þá skifti hún aðeins um ætt og hjet þá ættarnafni mannsins síns. Ef Tullia hefði átt mann, er hjet Publius Cornelius Scipio, þá hefði hún upp frá því heitið Cornelia. Þetta var eðlilegt þar, fyrir þá sök, að þar átti fyrst faðirinn og síðar maðurinn vald á lífi kvenmannsins, og því lýsir nafnasiðurinn með þeim hætti, að hún er aldrei sjálfstæður maður, heldur eignarhlutur, fyrst þessarar ættarinnar og síðan hinnar. Þetta verður enn þá ljósara, þegar borinn er saman við þær nafnasiður leysingja. Þeir tóku fornafn og ættarnafn húsbónda þess, er gaf þeim frelsi, en að viðnafni höfðu þeir hið gamla þrælsheiti sitt. T. d. í Lucius Cornelius Chrysogonus leysingi Sullu, en það er sama sem að heita: Chrysogonus, fyrrum þræll hjá Lucius Cornelius Sullu. En eftir rómverskri löggjöf voru þrælar „res“, þ. e. hlutur, sem húsbóndinn hafði jafnt vald yfir sem vjer yfir fjenaði vorum.

Telja menn það sæmandi íslenskum konum að taka upp nafnasið, sem svo er upp kominn og hvílir á slíkum endurminningum? Og telja menn það sama frjálsum mönnum að taka upp þann nafnasið, er á þann uppruna, sem nú mun sagt verða?

Rómverjar lögðu undir sig alla Gallíu, Spán og nokkurn hluta Þýskalands og settu nýlendur víðs vegar um þessi lönd og fleiri, sem jeg hirði eigi að nefna. Nú voru undirokararnir ríkari og betur settir um flest en landsmenn sjálfir, og leysingjar þeirra slíkt hið sama. Urðu því nokkrir til þess fyrstir í hverju landi að smeygja sjer inn í valdhafaflokkinn með því að taka sjer nöfn, er sambærileg væri þeirra nöfnum. Þetta smáágerðist svo eftir því, sem stundir liðu, og eftir margar aldir var nafnasiður þessi orðinn algengur um flest lönd álfunnar, nema Norðurlönd. En svo fór þó að lokum, að þessi ófagri skuggi gamals þrældóms skreið einnig yfir þau, og var þá að lokum engin þjóð eftir nema hinn tryggi útvörður norræns þjóðernis, tungu og siða, Ísland.

Vjer höfum verið trúir verðir þessara dýru hluta alt frá því, er Ísland bygðist. Þó hefir á orðið fyrir oss á margvíslegan hátt um vernd tungunnar, og var svo langt komið, að embættismenn vorir rituðu mjög skælt mál og úr lagi fært. En öll alþýða manna var geymnari á þann fjársjóð en lærðu mennirnir.

Þess vegna geymdist tungan og fjekk viðreisn sína fyrir forgöngu ágætismanna á fyrra hluta nítjándu aldar. Þó var ein meinsemd þá, er fjekk jafnvel vöxt og viðgang á sama tíma sem menn unnu að því að reisa tunguna við. Þetta var sú meinsemd, sem ættarnafnasýkillinn veldur. Jafnvel Jón Sigurðsson skrifaði sig um tíma „Sivertsen“, en hann hætti því fljótt. Þó smáfjölgaði „sen“-um, og var þó við hóf. Þetta var svipað vægri „influensu“ eða landfarsótt, sem berst hingað stundum frá Norðurlöndum. En er nítjánda öldin leið, elnaði sóttin, er nýir sýklar bárust úr Vesturheimi, svo sem fór um landfarsóttina miklu, er gerðist að drepsótt.

Austrænn og vestrænn uppskafningsháttur gerðu nú fjelag sín á milli og urðu þá nafnalögin ávöxtur af því sambandi. Hefir sá ávöxtur haft Draupniseðli, því að fyrst draup af honum Kleppskinna og síðan öll sú nafnaprýði, er við hefir bætst á síðustu árum.

Enginn efi er á því, að rjett er það, sem sagt var hjer að framan um þá spilling tungunnar af nafnafargani síðustu ára, og væri ekki minsta vit í því að láta slíkt afskiftalaust. Breytingar á bæjanöfnum og örnefnum þurfa eigi nauðsynlega að verða til málspillingar, nema þau sjeu rangt mynduð og smekklaus, nýju nöfnin, sem oft vill verða. En bæði er slíkt nafnahringl, og eigi siður útskit fornhelgra heita, sjúkdómseinkenni á þjóðerniskend vorri, og sá sjúkdómur dregur þjóðina til dauða, sje eigi við gert nú þegar. Trygðarleysi, ræktarleysi, skilningsleysi og vanþakklæti, samfara undirlægjuskap og uppskafningshætti, verður þessari þjóð tortíming, ef við gerum eigi við þegar. Mjer er það ljóst, að það mega heita óyndisúrræði að vernda þjóðerni með lögum fyrir sjálfri þjóðinni, en þó er nú sjálfsagt að reyna þann veg, í þeirri von, að komandi kynslóðir verði betri en þessir menn, er nú kallast: Eiriks-s(u) Arnar, Gormar, Fanndal, Lokasjóður, Skollafótur, Tungal, frk. Útverkon, frk. Reykjavík, Tunglon og Sólon, frú Utan og Útsunnan, herra Ofan og frk. Neðan o. s. frv.

Verður mikið til þess að vinna, að þær kynslóðir fái óskemt í sínar hendur mótað og ómótað gull fortíðarinnar, og þá einkum hinn dýrasta gimstein, sem vjer eigum, tunguna. Geymni vor á tunguna hefir gert þjóð vora mikils metna meðal þjóðanna, hefir gert oss að sjálfstæðri og frjálsri þjóð. Og þau gæði munu endast oss alla þá stund, sem vjer göngum í spor feðra vorra um ræktarsemi og trygð við tungu vora og þjóðerni. Nú er þess gætanda, að vjer verðum að gjalda miklu meiri varhuga við erlendum áhrifum en fyr, því að samgöngur hafa vaxið svo mjög sem allir vita, en hafið hefir reynst oss hin mesta verndarvættur á umliðnum öldum.

Jeg hefi heyrt það á ýmsum mönnum, að þeim þykir þetta allmikið harðræði, að banna mönnum að nefnast sem þeir vilja. Vil jeg í því sambandi benda á tvent. Fyrst er það alkunna, að lengi hefir verið í lögum hjer og er enn, að prestar mega neita að skíra ónefnum, og hefði nafnalögin frá 1913 aldrei komið út, þá hefði klerkastjettin getað kæft þennan ófögnuð allan í fæðingunni, en þeir fá við ekkert ráðið, ef ósóminn hefir lagavernd.

Í öðru lagi vil jeg geta þess, að helst má snúa þessu brigsli um harðneskju við. Örfáir menn vilja leyfa sjer að breyta siðum heillar þjóðar, 2% ætla að knjesetja 98%. Hafa menn heyrt slíkrar bíræfni getið? Hafa menn gert sjer ljóst, hvílík ósvífni felst í þessu?

Myndi eigi kominn tími til þess, að níutíu og átta menn sýndi þessum tveim í tvo heimana?

Enginn skyldi halda, að jeg sje hinn fyrsti eða hinn eini maður, sem vill setja lög um þetta efni. Mun jeg því til sönnunar lesa nokkur atriði úr þingtíðindum 1881, ef hæstv. forseti leyfir:

Þskj. 263 í þingtíðindum þess. árs, á bls. 609, er frumvarp til laga um nöfn manna. Þar stendur í 1. gr.:

„Í hvert sinn, sem kveðja skal mann til embættissýslanar, þingstarfa eða annars starfs, snertandi málefni almennings, skal nefna, auk nafns þess, er hann er skírður með, nafn föður hans eða móður. Sömuleiðis á í hvert sinn, er yfirvald eða prestur nefnir mann í rjetti eða frá prjedikunarstóli, að skýra frá því, hvers son eða dóttir hlutaðeigandi sje.“

Í 2. gr. segir svo:

„Ekki má skíra neitt meybarn karlmannsnafni og ekki má nefna eða skrifa neinn mann, sem hefir fast heimili á Íslandi, son annars manns en föður síns eða móður.“ Þá hljóðar 3. gr. svo:

„Eftirleiðis má ekki skíra neinn mann ættarnafni, nema konunglegt leyfi sje til þess. Ekkert ættarnafn má enda á „son“. Fyrir ættarnafnsleyfi skal borga 500 krónur, sem renna í landssjóð. — Hver sá, sem skrifar sig ættarnafni, skal þar að auki greiða árlegan nafnbótarskatt, 10 krónur fyrir hvert atkvæði, sem í nafninu er.“

Flutningsmenn voru þeir Jón Jónsson (landritari) og Jón Ólafsson, sem var þá í fylsta þroska og í blóma lífsins. Við 1. gr. gera þeir meðal annars þessa athugasemd:

„Í þingskapaþætti 25. kap. þess handrits hinnar fornu lögbókar Íslendinga, sem konungsbók nefnist, stendur meðal annars: „oc er goþinn skyldr at segja ryþiandanum, hvern hann nefnði í dóm, ef hann spyr, oc nefna dómandann oc svá foþur hans eða moþur, ef þau vorv íslendzk.“

Í athugasemdum við 2. gr. segja þeir svo:

„Að láta skíra meybörn karlmannsnöfnum, sjer í lagi nöfnum, er enda á son, virðist ótilhlýðilegt hjer á landi, þótt slíkt viðgangist í öðrum löndum. Það virðist ekki verra fyrir útlendinga, er setjast hjer að fyrir fult og alt, að þurfa að breyta nöfnum sínum, að svo miklu leyti sem þau koma í bága við þessi lög, en það er fyrir Íslendinga að breyta nöfnum sínum, þegar þeir setjast að í útlöndum.“

Og loks segja þeir í athugasemdum sínum við 3. gr.

„Ættarnöfn virðast hjer á landi eigi aðeins óþörf, heldur jafnvel skaðleg, þar sem þau geta komið til leiðar misskilningi og rjettaróvissu.“ Má sjá á þessari athugasemd þeirra, að þeir hafa eigi verið á sömu skoðun sem maðurinn, er ljet svo um mælt: „Enginn gengur heilt ár í sömu skyrtunni, og er hún þó minna brúkuð en nafnið.“

Þessir menn fóru að vísu skemra en jeg í tillögum sínum, en þess ber að gæta, að ónefnasýkillinn var þá ekki svo ægilegur sem nú er orðið. Og sammála mjer hafa þeir verið um það, að vel mætti skipa slíku með lögum og að slíkt sje ekki neitt harðræði. En oss verður ekki eins dæmi í þessu, sem nú verður sagt.

Dæmi eru og til frá öðrum þjóðum, að þær hafi sett lög um nöfn, sumar til hins verra og sumar til hins betra. „Socialdemokraten“ norski, 5. febr. 1923, segir frá því, að lögþingið norska hafi nú sett lög til þess að laga nöfn manna þar í landi.. Sögðu þingmenn, að eigi væri vanþörf á slíkum lögum, því að þar væri nöfn slík sem Appelsína, Rúsína, Polka, Mazurka — og einn kvenmann þektu þeir, er hjet Closetta. Eftir því mættum vjer og eiga von á ættarnöfnum sem Closettan, Aborton, Toiletton o. s. frv. Sá aðall yrði vafalaust meiri háttar en hinn forni landnámsaðall, sem ber hin fornu íslensku nöfn, að minsta kosti bæri þá nöfnin vott um það, hversu bjartur sjálfstæðislogi brynni þar hið innra.

Nú afhendi jeg fulltrúum þjóðarinnar þetta mál, og er vel, að kjósendur hafa nú bráðlega tækifæri til þess að sýna þeim, hvern veg undirtektir þeirra mælast fyrir.