24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

67. mál, mannanöfn

Bjarni Jónsson:

Menn eru stundum bjartsýnni en ástæða er til, og svo hefir mjer farið að þessu sinni. Það er þó eigi svo, að jeg hafi vænst annars af háttv. sessunaut mínum (JakM) en hann yrði á móti frv. Hann er einn þeirra fáu manna hjer á landi, sem bera gamalt nafn, og jeg get vel skilið, þótt þeir menn, sem svo stendur á um, hafi tekið ástfóstri við ættarnafn sitt og vilji leggja rækt við það og láta börn sín gera hið sama. Hitt kalla jeg þó ekki minni rækt, að kalla sig son föður síns. Því mest á ræktin að vera við föðurinn, þá við afann og svo koll af kolli, að hún fer minkandi eftir því, sem lengra dregur. Þannig er þessu farið um hinn forna nafnasið vorn. Þó dettur mjer ekki í hug að lá háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) og þeim, sem eins er ástatt um, þótt þeir vilji halda nafni ættar sinnar. Og ekki er það til hans mælt, er jeg hefi talið það vott megns þjóðræktarleysis að vilja kasta þannig burt siðum og venjum forfeðranna. Öðru máli er að gegna um þá menn, sem taka upp ný nöfn, strax og þeir komast á legg, og strika út nöfn feðra sinna. Menn, sem taka upp heiti grasa og bergtegunda og önnur fáránleg nöfn og þykir þetta hin mesta prýði af því, að þeir kenna þar erlends keims. En það er svo um flest slík mál, að það er ekki unt að koma þeim fram, án þess að einhverjir fái ómaklega að kenna til. Var það einmitt með tilliti til þeirra manna, sem bera gömul ættarnöfn, að jeg samdi 3. gr., en ekki hinna, sem frá fæðingu hafa borið nafn föður síns, en fleygt því síðan, til þess að geta tekið upp erlendan sið. Það verður ekki komist hjá því, þótt einhverjum falli miður. Vil jeg og ekki deila við hv. sessunaut minn (JakM.) um þetta. Lít jeg svo á, að hann og aðrir, sem eins stendur á um, verði að meta hjer meira hag þjóðarinnar og beygja sig, til þess að þessi siður festist ekki í landinu. Orð hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) lýstu ekki neinum illum hug á frv., og var það sem vænta mátti, þar sem hann er þó enn sonur föður síns. En jeg lít svo á sem það sje heldur misskilin hjálpfýsi við málið að vilja vísa því til hv. mentmn., því svo virðist, sem málum gerist heldur svefnhöfugt í höndum hennar. Á öndverðu þingi kom jeg fram með frv. um mentaskólann, sem mörgum háttv. þm. kemur saman um, að gæti leitt til hins mesta sparnaðar, ef það næði fram að ganga. Myndi það meðal annars leiða til þess, ,að spöruð yrðu laun 12 kennara við skólann. En þrátt fyrir sparnaðarhug þingsins, sem nú nýlega lýsti sjer í frv. til laga um að sálga einum ævagömlum síldarmatsmanni, hefir hv. mentmn. ekki þótt liggja mjög á að afgreiða þetta frv., því hún er ekki búin enn að skila því frá sjer. Býst jeg við, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafi ekki gætt þess, hve seint öll mál ganga í hv. mentmn., og veit jeg því, að hann mun taka till. sína aftur, er jeg hefi bent honum á þetta.

Þá sný jeg mjer að háttv. 1. þm. S,- M. (SvÓ), sem er, eins og menn vita, einn af stjórnmálaspekingum þessarar háttv. deildar.

Hann vildi telja mönnum trú um, að honum væri ant um málið, og hneigðist því að því að vísa því til nefndar. En jeg leyfi mjer að draga það í efa, að þetta stafi af einskærri umhyggju fyrir þessu frv., heldur því, að hann vilji umsnúa því og koma fram einhverju, sem honum líkar. Annars er svo langt síðan þetta mál kom fyrst fram, að bæði þessi hv. þm. (SvÓ) og aðrir hefðu haft nægan tíma til að koma fram með brtt. við það. Myndi hann og sjálfsagt hafa gert þetta, ef honum væri svo ant um málið sem hann lætur. Hann kvartaði undan 4. gr. frv. Kvað hann viðurnefni þar eiga að staðfestast með nafnfesti að fornum sið, en kvartaði svo jafnframt undan því, að alveg vantaði ákvæði um það, hvernig með þá nafnfesti skuli farið, því hvergi sje neitt að finna um það í núgildandi lögum. Þetta sætir undrun um svo mikinn lagasmið, að hann skuli ekki skilja það, að greinin sjálf kveður á um þetta, og það með orðunum, sem hann hafði sjálfur yfir. Um nafnfestina skal fara að fornum sið. Háttv. þm. (SvÓ) á að gefa digra gullhringa í nafnfesti, en ekki hitt og þetta rusl af hvalveiðastöðinni í Mjóafirði. Getur hv. þm. annars hlotið nægar leiðbeiningar í þessu efni, ef hann sest niður við að lesa hin gömlu gullaldarrit vor.

Þá gerði hv. þm. (SvÓ) nokkrar athugasemdir við 8. gr. frv. Vildi hann láta gera útlendingum hærra undir höfði en landsins þegnum. Hann getur fallist á, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og aðrir landsmenn, sem eins stendur á um, beygi sig undir þennan þjóðarsið vorn. En ef Kínverji kemur og vill setjast hjer að, þá má aldrei ætlast til að hann hagi nafni sínu eftir íslenskum sið. Það þarf endilega að fara betur með hann. Dálítið undarleg umhyggjusemi. Eins og það megi ekki koma við þessa náunga, af því að þeir eru fæddir í öðru landi. Hv. þm. (SvÓ) ætti að setja sjálfan sig í nefnd til að laga sjálfan sig, svo að hann geti starfað að löggjöfinni af dálítið meira viti.

Þá vill hv. þm. (SvÓ) laga sektarákvæði 10. gr. og hefla greinina. Er auðsætt af orðum hans, að hann vill hafa sektarákvæðin á þann hátt, að þau ginni menn til að brjóta lögin. Jeg vil aftur á móti hafa sektarákvæðin svo, að þau aftri mönnum algerlega frá að brjóta þau. Háttv. þm. (SvÓ) vill með sektarákvæðum laganna segja við menn: Þú mátt nú eiginlega ekki gera þetta, góðurinn minn, nema þú borgir peninga fyrir. Því er um að gera að hafa sektirnar ekki hærri en svo, að þær fæli menn ekki frá að brjóta lögin. Með öðrum orðum, hv. þm. (SvÓ) hefir hugsað sem svo, að ekki væri úr vegi að græða nokkrar krónur í ríkissjóðinn á lögunum. Skal jeg játa, að slíkt getur verið mjög eðlilegt af þeim, sem er ant um málið á sama hátt og honum. Annas er flest á sömu bókina lært hjá þessum hv. þm. (SvÓ). Það er sá sami maður, sem jeg boðaði á fund í gærdag í vatnamálanefndinni. Gat hann þá ekki komið sökum anna. En þó hefir hann haft tíma til að kljúfa nefndina og unga út nál. Þetta mun sjálfsagt vera af því, að þar er mál, sem honum er ant um. (SvÓ: Nú eru nöfnin að gleymast). Nei, en jeg vildi aðeins benda á það, hversu umönnun þessa hv. þm. (SvÓ) kemur fram á margvíslegan hátt, ef svo er sem hann segir um hana. Og jeg vildi segja honum það, að hvað sem öðru líður, þá mun hann hvorki telja mjer nje öðrum trú um, að honum sje mjög ant um þetta mál, úr því hann gaf sjer ekki tíma til að koma fram með brtt. um það, sem honum finst breyta þurfa. Það fer hjer eins og oftar, að hann þorir ekki að halda því fram, sem hans betri vitund vildi vera láta, og tekur svo það ráð að vefja málið og reyna að draga það á langinn.