24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

67. mál, mannanöfn

Bjarni Jónsson:

Jeg get verið þakklátur háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) fyrir það, að hann segir hreint og beint sína skoðun og stendur við hana opinberlega. Mjer þykir því vænt um mótmæli hans, þó að skoðun hans sje þröng og jeg sje gersamlega ósamþykkur öllum ástæðum hans. Mjer geðjast betur að hreinni og beinni mótstöðu hans heldur en þegar menn sitja með hæverskusvip og vilja svæfa málin í nefndum. Mjer þykir verra, að farið sje í krókaleiðum, lævíslega aftan að mjer og frv. mínum, til þess að svæfa þau í nefndum; og heldur vil jeg láta fella þau en að svo verði með þau farið.

Ekki má skilja þetta svo, að jeg haldi því fram, að það sje sama sem að drepa frv. að setja það í nefnd. Jeg hefi ekkert á móti því að senda það til mentmn., ef hún vill afgreiða það fljótt og er fús á að taka það til meðferðar. Mjer er ekkert kappsmál, að frv. gangi fram óbreytt, en það er aðalstefnan, sem jeg legg áherslu á; og jeg vil ekki að þm. geti losað sig við að greiða atkv. um hana.

Skal jeg svo hverfa að rökfærslu háttv. 3. þm. Reykv. Hann taldi frv. þetta vera brot á almennum mannrjettindum. En ætli hann, og margir aðrir, fremji ekki stundum margskonar brot á þeim? Er ekki t. d. ákveðið með lögum, að mönnum skuli skylt að læra hitt og annað í öðrum löndum hafa oft verið sett lög um þessi efni; og stundum til afvegaleiðslu. Eins og t. d., þegar Þjóðverjar þröngvuðu ættarnöfnum upp á Gyðinga.

Hjer er það rjettara og eðlilegra að koma fram og viðhalda hinum fornu, germönsku nöfnum. En þá verður ekki hægt að komast hjá því að ganga hart að öðrum hvorum, frumnöfnum eða ættarnöfnum. Þetta hefir komið í ljós erlendis, en þar urðu ættarnöfnin ofan á; og það hefir sýnt sig að vera til ófarnaðar þjóðerninu.

Í frv. þessu eru ekki reistar frekari skorður en nauðsynlegar eru gegn því, að brotinn verði mörg þúsund ára gamall siður með því að apa eftir útlendri nafnatísku. Lítum á lögreglusamþykt bæjarfjelaga; þar er sett margskonar skerðing á almennum mannrjettindum, meiri og óþarfari en í þessu frv.; og þannig má telja margt fleira. Í Jónsbók er mönnum bannað að ganga í litklæðum. Þetta tel jeg verra; enda að líkindum frá útlöndum komið, að bannaður var slíkur þjóðarsiður.

Það hefir verið í lögum, að prestar mættu neita að skíra börn afkáralegum nöfnum, þó að því hafi verið slælega framfylgt og prestarnir hafi ekki gegnt skyldu sinni í þeim efnum. Og víða er í lögum samskonar eða meiri skerðing á rjettindum manna en hjer er ráð fyrir gert.

Hann hjelt, háttv. þm. (JÞ), að jeg væri ekki svo skyni skroppinn að halda, að menningin væri neitt verri eða ósannari, þó að hún fengi að sýna sig eins og hún er. Jeg hefi ekki fengið neinn mælikvarða á mína skynsemi, og veit ekki hvort hún er mikil eða lítil nema í samanburði við skynsemi annara þm., t. d. hans sjálfs (JÞ). Jeg er þó ekki skyni skroppnari um menninguna en svo, að jeg veit að venjur gefa fordæmi.

Nú hefir menningin aflagast í þessu efni. Við langdvöl mentamanna landsins erlendis á fyrri árum, hjá þjóð, sem búin var að týna sinni fornu venju, spratt upp þessi nafnaósiður; menn smituðust þar, og fanst það vera smekklegra t. d. að hnýta útlendum endingum aftan við nöfn sín og fóðurnöfn. Svo leið og beið til ársins 1913, og þá voru sett lög til verndar þessari menningarstefnu. Svona er það, þegar tískuöfgar menningarinnar ná yfirtökum og menn eru að sýnast, þá fer alt versnandi. Svo styrktust þær við það, að háttv. þm. þurftu að gera það fyrir kjósendur að halda fram ættarnöfnum. En þetta á ekki við háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), þó að á milli okkar sje mikill meiningarmunur.

Þetta frv. er menningarrjetting, og jeg er ekki svo skyni skroppinn, að jeg álíti það sje sama, hvernig menningin sýnir sig. Alt uppeldi á að kenna mönnum sitt eigið og miða við venjur, sem menn halda góðar og gildar. Svo að einstaklingarnir sjeu ekki eins og fokstrá, sem tilviljunin ein ræður um, hvort og á hvern hátt þeir festa rætur. Alt uppeldi er meira og minna þvingun, og mest er undir því komið, hvort það stefnir í rjetta eða ranga átt. Áður hefir komið fram nafnastefna í ranga átt; en þessi stefna horfir í rjetta átt.

Þegar háttv. þm. (JÞ) talaði um helgi skírnarinnar í þessu sambandi, gat jeg ekki varist brosi. Þetta gæti þá ekki snert aðra en börn innan 10 ára aldurs; og þó að ákvæðin væru einnig látin ná til þeirra, þá breytir það ekki aðalstefnu frv. Jeg sje ekki að það skaði neinn, þvert á móti mundi það leiða til góðs, að um nöfn barna, sem skírð verða hjer á eftir, verði farið eftir þessum lögum, ef þau ná samþykki.

Hins vegar er það broslegt að halda, að þetta særi skírnarhelgi á nöfnum manna, einstaklinga þeirrar kynslóðar, sem er að laumast upp í stjórnarráð, til þess að fleygja sínum skírnarheitum og taka upp ónefni.

Jeg get ekki fallist á neina af röksemdum háttv. þm. (JÞ), nema ef það væri um ákvæðin í 3. gr. Það felst jeg á, að þau eigi aðeins við óskírð börn. Annars gæti jeg búist við að menn færu, ef til vill, að skíra ófædd börn; en prestarnir mundu nú sennilega vilja fara varlega í það, sökum óvissunnar um kynferði o. s. frv.!

Annars er það siðurinn nú á dögum, að ættarnafnið festist við barnið í skírninni.

Til þess að greiða fyrir gangi málsins í þinginu, skal jeg ekki standa í vegi fyrir því, að það fari til mentmn. En um leið vil jeg skora á nefndina að koma fljótt fram með það aftur til 3. umr., til falls eða sigurs hjer í deildinni.