21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg geri ráð fyrir, að það sje í raun og veru óþarfi að hafa langa framsögu hjer. Málið hefir verið svo mikið rætt og haft svo mikil áhrif á hugi manna, að það er þingi og þjóð kunnara en flest mál önnur. Eins og kunnugt er, þá sögðu Spánverjar Íslendingum og Dönum upp verslunarsamningnum frá 1893, og áttu Íslendingar ekki kost á að endurnýja samninginn án bannlagabreytingar. Því var það, að fyrverandi stjórn lagði fyrir síðasta þing frv. til breytinga á bannlögunum. Stjórnin hafði færst undan því að gera þetta, en þá var ekkert undanfæri lengur ef hámarkstollur á íslenskum saltfiski á Spáni átti ekki að ganga í gildi. Þingið breytti frv. stjórnarinnar lítillega: það var gert að heimildarlögum til eins árs. Þetta frv. hjer er að mestu samhljóða þessum heimildarlögum, er jeg nefndi. Eðlilegra þóttu þetta mikil og ill tíðindi hjer á landi, að við skyldum ekki eiga kost á samningi nema með þessum kostum. Því var líka reynt það, sem hægt var, til þess að fá Spánverja til þess að falla frá þessum kröfum, en það tókst ekki. Að sjálfsögðu varð það því hlutverk þingsins í fyrra að athuga. hve mikið væri í húfi. ef ekki yrði gengið að kröfum Spánverja. Þá var gerður allábyggilegur reikningur um það, eftir því sem þá stóð, af viðskiftamálanefndum beggja deilda. Þá var lágmarkstollur 32 pesetar á hver 100 kg., en hámarkstollur 96 pesetar. En útflutningsmagn til Spánar áætlað um 17 þús. tonn. Þegar gengið var út frá því, að lágmarkstollurinn leggist á þá, sem vöruna kaupa, er hjer að ræða um mismun á lágmarks- og hámarkstolli, er nemur um 121/2 miljón króna. Hvernig sem menn líta nú á þessar tölur, sem jeg hygg að hafi verið eins ábyggilegar og kostur var á, þá er víst, að þær eru nú breyttar. Fyrst er þess að gæta, að pesetinn er nú lægri en í fyrra, og því ætti talan 121/2 miljón að lækka. En aftur er breyting orðin á lágmarkstollinum; hann er nú 24 pesetar, í stað 32 í fyrra, en af því leiðir, að talan hækkar. Ennfremur má ætla, að fiskmagnið hafi verið fremur of lágt reiknað en of hátt. Jeg hefi snúið mjer til Fiskifjelags Íslands, sem aftur leitaði til þeirra manna, er það taldi, að best vissu um þetta. Og eftir þeim upplýsingum, sem hægt var að fá um útflutninginn árin 1921–1922, hefir útflutningur til Spánar hjeðan af landi, beint og óbeint, verið mun meiri en 17 þúsund tonn. Miðað við þessi ár er því talan 121/2 miljón áreiðanlega ekki of há, en líklega til muna of lág. Jeg veit ekki, hvernig menn vilja hugsa sjer að halda áfram fiskframleiðslunni, ef þessu mikla fje er kastað á glæ. Jeg álít, að það væri rothögg á hana. Því er ærin ástæða til að samþykkja ekki neitt það, er spilt getur fyrir fisksölu vorri á Spáni. Því megum vjer ekki breyta lögum þessum, er hjer liggja fyrir, því að þau tryggja okkur framhald þess, að við fáum bestu kjör á Spáni. Sumir munu nú segja sem svo, að þetta sje ekki fengið fyrir ekki neitt, og er það vitanlega hverju orði sannara. Við verðum að gera ráð fyrir því, að landsmenn verji talsverðu fje til þess að kaupa áfengi, og meira en þeir hafa áður gert. Þó er þess að gæta, að þetta fje er ekki afskaplega mikið. Þegar litið er á rekstrarreikning áfengisverslunarinnar, verður fjárhæðin ekki talin ýkjahá. Nettóinnkaup af vörum áfengisverslunarinnar 1922 eru krónur 505807,89, en vörubirgðir taldar 31. des. 1922 kr. 321869,30. Mismunurinn er því um 200 þús. kr. En þó er ekki alveg rjett að álykta þannig, því að í þessum vöru birgðum mun vera það áfengi, sem upptækt var gert á árinu 1922, og var það eigi lítið. Jeg veit nú ekki, fyrir hve mikið var flutt inn árið þar á undan: um það vantar skýrslur, en árið 1919 var áfengi flutt inn fyrir yfir 300000 kr. En þótt tölur þær, er jeg hefi nefnt. bendi ekki til mikillar aukningar á því fje, sem farið hefir fyrir áfengi, verður þó ekki við öðru búist en að nokkru meira verði drukkið en áður og að nokkuð eyðist meira af tíma og fje til áfengisnautnar vegna þessara laga. En þrátt fyrir það nær engri átt að hafna þessum lögum nú: til þess er of mikið í húfi. Það voru 121/2 miljón kr. í fyrra, og sennilega meira nú.

Jeg álít þetta fullnægjandi greinargerð þess, að menn verði að aðhyllast þetta frv., hvort sem þeim er þaðlIjúft eða leitt. Þá er ekki úr vegi að minnast á það, hvað gerst hefir í málinu síðan á síðasta þingi. Það var sett reglugerð um sölu og veitingar áfengra drykkja. Jeg veit ekki til þess, að Spánverjar hafi gert neinar kröfur til þess, að vín verði veitt hjer opinberlega. En slíkt ákvæði var sett inn í reglugerðina og gert ráð fyrir, að opinberar veitingar yrðu í 4 kaupstöðum landsins. Þetta kom nokkuð flatt upp á marga. Nú vil jeg spyrja hæstv. forsrh. (SE). hvort þetta hafi verið gert eftir kröfu Spánverja. Sje svo, þá er ekkert við því að segja, en ef svo er ekki, þá sje jeg ekki ástæðu til að halda því. Þessar veitingar eru að vísu ekki nema á einum stað hjer í Reykjavík, og er einkennilegt að veita slíkt einkaleyfi, án þess að nokkurt fje sje greitt fyrir. Þá er annað atriði, inn útsölustaðina. Menn líta nokkuð misjafnlega á það. Sumir líta svo á, að því fleiri sem útsölustaðimir eru, því meira verði drukkið. En hjer kemur fleira til álita. Því fleiri sem útsölustaðirnir eru, því minna verður um leynisölu, en hjer í landi er hún víða mjög mikil. Er því óvíst að drvkkjuskapurinn yrði meiri, þótt sölustöðum yrði fjölgað. Svo er annað, sem vert er að athuga. Það er ekki hægt að neita því, að hjer er orðin afskaplega og óeðlilega rík tilhneiging til að neyta sterkra drykkja. Banninu hefir verið um það kent, og er það að nokkru leyti rjett. En ef sölustaðirnir væru fleiri, mundi það draga úr tilhneigingunni til að neyta sterkra drykkja, er vínhneigðir menn ættu þó kost á daufara áfengi. Jeg kasta þessu aðeins fram hjer til athugunar, en ekki af því, að það liggi fyrir hjer að greiða atkvæði um það.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Jeg býst ekki við því, að nokkur sá sje hjer inni, er vilji brugga fiskframleiðslu vorri slík banaráð að greiða atkvæði á móti þessu frv.