21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jónas Jónsson:

Í þessu máli má segja, að fyrir löngu sjeu sjeð fyrir forlög Kartagóborgar. Er því ekki ástæða til að fjölyrða um málið nú. En við síðustu umræðu þess getur skeð, að jeg fái tækifæri til að halda stutta líkræðu yfir bannlögunum.

Það, sem jeg vil vekja athygli á nú, er það, að þessi lög voru sett með þjóðaratkvæði. Er því skoðun margra, að ekki megi afnema þau á annan hátt. Þessu var hreyft í fyrra, en ekkert hefir þó verið gert í þá átt. Vil jeg því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (SE), hvers vegna ekkert hefir verið gert í því að undirbúa, að málið yrði lagt undir atkvæði þjóðarinnar og afgreitt á þann hátt. Þetta tel jeg svo stórt atriði, að jeg treysti mjer ekki til að greiða atkvæði með frv. fyr en jeg fæ fullkomnar upplýsingar um þetta.

Þá vil jeg í öðru lagi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hver árangurinn hafi orðið af ársfrestinum, sem tekinn var í fyrra, með að afgreiða þetta mál að fullu. Það kom fram í ræðu háttv. frsm. (SHK), að fresturinn átti að vera til þess að vita, hvort ekkert raknaði úr með markaðshorfur utan Spánar fyrir íslenskan saltfisk. Hefir maður verið sendur til Suður-Ameríku til þess að rannsaka þar markaðshorfur fyrir saltfisk. En skýrslu um ferð hans var útbýtt hjer fyrst í dag. Er það allóviðkunnanlegt, því að betur hefði átt við, að menn hefðu getað kynt sjer hana áður en til úrslita átti að ganga um þetta stórmál.

Þá hefir sennilega í öðru lagi verið tilætlunin að nota frestinn til að fá aðstoð annara þjóða í málinu. En jeg vil þá spyrja: Hefir nokkuð verið gert í þá átt Annars virðist mjer, að meðferð þessa máls bendi ótvírætt í þá átt, að enginn harmur sje hjá flestum fulltrúum þjóðarinnar, þó að bannlögin verði afnumin, því að mjög lítið sýnist hafa verið gert til þess að framfylgja kröfum þjóðarinnar og koma í veg fyrir, að hún þurfi að bíða þetta skipbrot í miklu siðferðismáli.

Það skiftir alls ekki miklu, frá mínu sjónarmiði, hvernig atkvæðagreiðsla fer hjer um þetta mál í dag, því að í raun og veru má segja, að bannlögin hafi verið afnumin áður með tilstilli þingfulltrúanna. Að þetta þing sje skipað bannmönnum, að undanteknum örfáum, virðist erfitt að sjá, eftir þeim viðtökum, sem frv. mitt um að herða á sektum fyrir launverslun með sterka drykki og opinbert ölæði fjekk hjer í háttv. deild í gær. Jeg sá þá, að hinir sömu menn, sem afnema bannið í feginshug, vilja ekki láta væsa um smyglarana og opinbera ofdrykkjumenn. Og þessir sömu menn berjast með hnúum og hnefum á móti því, að syndagjöldin, hinir „30 silfurpeningar“, sem svo hafa verið nefndir, verði notaðir til að efla menningu í landinu.

Það er því alls ekki sjáanlegt, að þessir menn vilji á nokkurn hátt styðja varnir móti áfengisbölinu. Og enga sorg er að sjá á þeim, þó að bannið sje afnumið og smygl og ölæði magnist í landinu.

Það, sem jeg legg hjer aðaláhersluna á, er, að jeg vil fá svar hjá hæstv. stjórn. Hvers vegna ótilhlýðilegt hafi þótt að leggja þetta mál undir atkvæði þjóðarinnar. Og í sambandi við orð háttv. frsm. (SHK), um að hann skyldi ekki í, að nokkur væri sá, er vildi brugga fiskframleiðslunni banaráð með því að vera á móti þessum kröfum Spánverja, vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort það hafi verið með í kröfum Spánverja, að enginn mætti mótmæla afnámi bannlaganna og að ekki dygði annað en að þær væru samþyktar einróma — annað væri ekki tekið gilt.

Jeg skal taka það fram, að mínir kjósendur, sem kusu mig í sumar, vissu vel afstöðu mína í þessu máli. Er það því ekkert brot á móti þeim, þótt jeg greiði atkv. gegn þessu frv. nú.

Þá var háttv. frsm. (SHK) að því er mjer skildist að finna að því, að útsölustaðir vínsins hefðu verið of margir. En sorgin yfir því var ekki dýpri en svo hjá háttv. þm., að hann stakk upp á því, að útsölustöðum væri fjölgað, til þess að minna yrði smyglað.

Jeg vil því spyrja: Hvaða samræmi er í þessu hjá háttv. þm. ? (SHK: Þetta er alt rangt skilið).

Annars finst mjer það mjög torskilið hjá þessum mikla bannvini, að vilja fjölga útsölustöðum, sem er margbúið að mótmæla af íbúum í flestum kauptúnunum, til þess að smyglun minki.

Sje jeg svo enga ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál nú.