08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í C-deild Alþingistíðinda. (2651)

48. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Frv. þetta er samið af bæjarstjórn Siglufjarðar og flutt samkvæmt tilmælum hennar.

Ástæðurnar fyrir frv. eru teknar að mestu leyti fram í greinargerðinni fyrir því, og sje jeg þess vegna ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það að sinni. Jeg skal þó aðeins drepa á þær helstu þeirra, í örfáum orðum.

Eins og sjá má af frv., fer það fram á, að heimilt verði að leggja útsvar á þá menn á Siglufirði, sem reka þar arðsöm fyrirtæki, þótt ekki sje um lengri tíma en 1 vikur samfleytt. Í núgildandi bæjarstjórnarlögum er tímatakmarkið á dvöl aðkomandi manna til útsvarsskyldu sett 8 vikur. Þetta hefir orðið til þess, að menn, sem stundað hafa þar atvinnurekstur, svo sem verslun eða útgerð, í lítið eitt skemri tíma, hafa farið þaðan með allverulegan gróða, án þess að bæjarfjelaginu hafi að nokkru skinið gott af því. Þetta kemur sjer því ver, sem hjer er um ungt bæjarfjelag að ræða, sem á erfitt uppdráttar að ýmsu leyti. Þar þarf mikið að leggja í kostnað, sem stafar að miklu leyti af aðstreymi fólksins úr öðrum hjeruðum, sumarmánuðina, og skal jeg sem dæmi þess nefna, að nú er í ráði að reisa þar sjúkraskýli, sem verður að vera talsvert stærra en ella, sökum þessa mikla fjölda aðkomumanna; sömuleiðis verður bærinn að kosta dýra lögreglu þessa vegna, og svo mætti fleira telja. Því er ekki nema eðlilegt, þótt þessir menn leggi nokkuð af mörkum til bæjarfjelagsins, sem veitir þeim bæði þessi og önnur hlunnindi.

Annað meginatriði frv. lýtur að því að koma í veg fyrir að útlendingar eða aðrir, sem eiga mjög verðmætar eignir við höfnina eða í nánd við hana, selji þær erlendum mönnum án þess að bæjarfjelaginu eða innlendum mönnum gefist kostur á að kaupa þær fyrir sama verð og útlendingum eru þær seldar. Þess eru dæmi, að slíkar eignir hafa verið seldar útlendum mönnum án þess, bæjarstjórnin hafi nokkuð vitað fyr en kaupin voru gengin um garð. Frv. gerir þær breytingar á þessu, að eftirleiðis skuli þessum mönnum skylt að láta bæjarfjelagið eða innlenda menn sitja fyrir kaupunum. Með þessu er það trygt, eins og hægt er, að slíkar eignir verði eign innlendra manna eða bæjarins, og er þess full nauðsyn, en ekki sjáanlegt, að þessu geti verið neitt til fyrirstöðu, þar sem ekki er ætlast til, að bærinn sitji fyrir kaupum, nema því að eins, að hann borgi með sama verði og aðrir bjóða eða ætla að greiða.

Þá er enn fremur ákvæði, sem lýtur að því, að heilbrigðisnefnd bæjarins sje veitt nauðsynleg aðstaða til þess, að fyrirmælum hennar verði hlýtt. Landi er þannig hagað, að á eyrinni eru smátjarnir og síki, sem valda óheilnæmi á sumrum og eru til hins mesta óþrifnaðar. Heilbrigðisnefndin hefir þráfaldlega mælt svo fyrir, við lóðareigendur, að þeir fylli eða þurki upp þessar tjarnir og síki, en því ekki verið framfylgt. En þessi vanræksla er þeim mun tilfinnanlegri, sem bein ákvæði eru um þetta í lögreglusamþykt bæjarins og nefndin því framkvæmir sínar fyrirskipanir í fullu samræmi við hana. Það er því fylsta ástæða til að trygt verði, að heilbrigðisnefndin geti sjeð um, að fyrirmælum hennar verði fylgt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en geri það að till. minni, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn.