21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

94. mál, friðun Þingvalla

Flm. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) og jeg höfum tekið að okkur að flytja þetta frv. Það er einskonar áframhald á eldri aðgerðum þingsins í þessu máli. Það var ekki fyr en 1919, að þingið byrjaði að skifta sjer af verndun Þingvalla. Síðan hefir umsjón verið höfð með Þingvöllum á hverju sumri, og ýmislegt annað, þótt smátt hafi verið, hefir verið gert til að undirbúa friðun þessa staðar. Aðalástæðan fyrir því, að frv. kemur nú fram, er sú, að 1000 ára hátíð Alþingis er 1930 og fer því óðum að nálgast. Það er óhugsandi annað en að þjóðin búi Þingvelli sæmilega undir atburð þann, sem að líkindum verður haldin hátíðlegur eftir föngum. Í hugum Íslendinga eru Þingvellir helgistaður og hljóta að vera það, meðan vjer höldum máli voru og meðvitundin um sögu vora er vakandi. Að hverjum helgistað þarf að hlúa, ef hann á að geta haldið helginni. En nú er það svo, að á síðari árum er vafasamt hvert stefnir með ásigkomulag Þingvalla.

Fyrir rás viðburðanna hafa þeir orðið að skemtistað og sumardvalastað Reykvíkinga. Það er ánægjulegt fyrir Reykvíkinga að eiga kost á að dvelja um tíma á fallegum stað eftir langa veru í þessum litla og fátæka bæ. En það er óhugsandi að láta það fara saman, að fjöldi manna dvelji þar eftirlitslaust og að staðurinn verði jafnframt varðveittur í sinni fornu mynd. Án eftirlits yrðu Þingvellir einskonar viðbót við Siglufjörð, að úthverfi Reykjavíkur, einskonar Klondyke-hjerað. Það er áreiðanlega ekki vilji þjóðarinnar, og það er óhjákvæmilegt að friða staðinn sem fyrst. Það hafa þegar orðið þar ýmsar skemdir, auðvitað óviljaverk, en það má ekki viðgangast lengur. Sagnfræðingar vorir eru eðlilega óánægðir með ýmislegt, sem búið er að gera til að breyta á Þingvöllum, t. d., að vegurinn skuli vera lagður eftir Almannagjá. Brú er bygð yfir ána við neðri fossinn og gestaskáli hefir verið reistur þar, sem þinghelgi var mest. Þetta eru skemdir, sem þyrftu að lagast sem fyrst. Þó ekki verði horfið að því ráði að breyta veginum eða brjóta steinbogann, þá verður sennilega áður langt um líður þjóðvegurinn fluttur, þannig, að umferðin verði meðfram vatninu og yfir brú við árósana.

Ein skemdin enn er hugsanleg á staðnum, og það er, að fossinn verði virkjaður. Þetta getur komið fyrir, ef þjóðin lætur sjer fátt um finnast fegurð og helgi Þingvalla. Og jeg vona, að menn sjeu mjer sammála um, að slíkt væru spjöll á helgi staðarins.

Það hafa margar stoðir runnið undir þá hugmynd að friða Þingvelli. Sú kenning hefir komið fram, að Þingvellir ættu að vera þjóðgarður Íslendinga. Það getur vel samrýmst, þó að fjöldi manna komi þar sjer til skemtunar, ef þeir læra að fara vel með staðinn og bera virðingu fyrir honum. En eins og nú er, virðist þetta ekki fara vel saman.

Hvernig á þá að gera við því? Jeg held, að flestir, sem um þetta hafa hugsað, sjeu sammála um, að friða þurfi alt skóglendið milli Almannagjár og Hrafnagjár, frá Ármannsfelli og Meyjarsæti og alt að vatninu. Láta þar engan búskap vera, sljetta vellina og flytja Valhöll burtu, en reisa í þess stað stórt og myndarlegt gistihús á einhverjum stað, þar sem það spillir ekki þinghelginni. En þó skiftir það mestu, að þau spjöll, sem þegar eru orðin og fyrirsjáanleg eru, verði bætt og hindruð. Og þetta verður að gerast nú þegar, því 1000 ára hátíð Alþingis fer í hönd og verður þá staðurinn að vera í sæmilegu standi.

Frv. gerir ráð fyrir, að byrjað verði á þann hátt, að það þurfi ekkert að kosta ríkissjóð, heldur fáist fje með því að láta þá gesti, sem til Þingvalla koma, greiða ákveðið gjald. Fyrir það fje, sem fæst, verður svo að girða hraunið, efla skógræktina og ef til vill verja einhverju í skaðabætur til Skógarkots, til þess að búskap verði þar hætt. Gjaldið er ekki hátt og ekki tilfinnanlegt. Það hverfur alveg móts við alt það fje, sem eytt er í Þingvallaferðir.

Formaður fyrir bifreiðastöð hjer í bænum hefir sagt mjer, að á einu sumri hafi verið eytt milli 120–150 þús. kr. í bifreiðar til Þingvalla, og þá kostuðu sæti fram og aftur 40–50 kr., og verður þá ekki mikið, þó gestum sje gert að greiða 1 kr. á dag fyrir að vera þar. Þeir, sem yrðu um lengri tíma, þyrftu ekki að greiða svo mikið.

Þá er lagt til í frv., að þriggja manna nefnd verði skipuð til þess að hafa yfirumsjón með staðnum til 1930. Þar eru sjálfsagðir fornmenjavörður, höfundur alþingissögunnar og sá, sem nú hefir umsjón staðarins. Enn fremur formaður Búnaðarfjelagsins, sem er einhver mesti skógræktarmaður, sem við eigum.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði, það, hvernig erlendir fræðimenn lita á Þingvelli, og ættum við helst ekki að vera eftirbátar þeirra um skilning á sögustöðunum. Professor Paasche, sem var hjer á ferð í sumar leið, hafði orð á því, að Norðmenn mundu sjálfsagt heiðra þúsund ára afmæli Alþingis með einhverri heiðursgjöf. Honum datt í hug, að þeir ljetu reisa stafakirkju á Þingvelli. Þetta sýnir, hve slíkir menn eru fúsir til að heiðra Þingvelli, og fegurri gjöf gætum við varla fengið en eina af þessum listabyggingum, sem voru svo algengar í Noregi, þegar Alþingi stóð í blóma. En úr því að útlendingar hugsa svo mikið um Þingvelli, þá má ekki minna vera en að við sjeum sjálfir fúsir til að láta eitthvað af mörkum til þess að staðurinn haldi áfram að samsvara þeim minningum, sem við hann eru tengdar.

Jeg hefi ekki hugsað um það, í hvaða nefnd málið á að fara, en vona, að hæstv. forseti geri till. um það.