21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið viðvíkjandi fyrirspurninni um veitingastaði, og voru á þá leið, að um slíkt hafi engar kröfur komið fram af Spánverja hálfu. Þá finst mjer það óþarfa „nervösitet“ að láta setja ákvæði inn í reglugerðina um vínveitingar, og jeg legg áherslu á það, að hæstv. forsætisráðherra hefir lýst yfir því, að engin krafa hafi verið um það gerð. Jeg sje ekki nauðsyn á því að hafa hjer vínveitingar, hvorki vegna neinna laga nje heimilda, þegar Spánverjar heimta það ekki. Það er áreiðanlegt, að enginn átti von á opinberum veitingum í fyrra, er málið var rætt, enginn talaði þá um þörf á því og enginn bjóst við því.

Mjer finst engin ástæða til að svara mörgu hv. 5. landsk. þm. (JJ), þótt hann sje þegar búinn að halda langa ræðu. Hann kemur fram með þá fyrirspurn, hvers vegna ekki sje viðhöfð þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Jeg geri ráð fyrir, að því sje eigi gott að svara af hverjum einstökum þm.

Einn mundi svara á þennan veg, annar á hinn. Það er ekkert launungarmál, að menn líta misjafnlega á bannlögin, og myndu því svara þessu misjafnlega.

Það er ekki ólíklegt, að ástæðan til þess, að svo margir krefjast ekki atkvæðagreiðslu um málið, sje, að þeir sjeu sannfærðir um, að þjóðin mundi greiða atkvæði á móti því, ef það yrði borið undir úrslitadóm hennar. Þar sem ræðir um tvo aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, get jeg ekki trúað því, að meiri hluti hennar væri með að fella það. Mjer kom það, satt að segja, á óvart, er jeg heyrði það, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) ætlaði að greiða atkvæði á móti frv. Mjer datt ekki í hug að halda, að hann hefði ástæðu til þess, þar sem hann talaði um það fyr í ræðu sinni, að áður en þetta frv. kom til umræðu hafi mátt segja, að bannið væri dautt í landinu. Jeg á bágt með að skilja, ef bannið er dautt í landinu á annað borð, hvers vegna eigi þá að verja um 121/2 miljón króna til að halda uppi þessum dauða hlut. Það er ekki hægt að skoða það dautt, ef vert er að verja árlega mörgum miljónum króna til að halda því við. Þetta er aðalatriðið, sem jeg hirði um að svara, en það er gersamlega augljóst, að hjá hv. þm. er um óeðlilega fastheldni að ræða. Jeg veit ekki, ef ekki er hægt að hrekja þær tölur, sem hjer er um að ræða, hvernig beri að skilja þá dirfsku að greiða atkvæði sitt þannig, að landið bíði margra miljóna kr. skaða — segjum 10 miljóna. Jeg skil ekki, hvernig einn fulltrúi þjóðarinnar getur varið það á þessum tímum. Því bjóst jeg við, að enginn yrði á móti.