21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jónas Jónsson:

Jeg hefi beðið um að mega gera stutta athugasemd.

Viðvíkjandi ummælum hæstv. forsrh. (SE) get jeg þess, að það er ljóst, að hann er á móti þjóðaratkvæði. (Forsrh. SE: Og þingið er líka á móti því). Mjer finst eina skýring á því, hvaða afstöðu háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) hefir valið sjer í þessu máli, vera næsta sennileg, að hann gerir það af ást á banninu. Það er skiljanlegt frá hans sjónarmiði, að hann gat ekki hugsað sjer annað en að taka á sig krossinn sjálfur. Hann vill afnema bannið, svo að þjóðin þurfi ekki að saurga á því hendur sínar.

Jeg uppgötvaði nú, að háttv. þm. hafði með fyrri ræðu sinni leitt mig út á villispor. Hann virtist vera óánægður með, að veitingastaðir skyldu vera leyfðir. En sami háttv. þm. leggur til, í þjónustu bannhugsjónarinnar, að vín verði selt á enn fleiri veitingastöðum, til þess að spara mönnum ómakið að fara til smyglara. Að síðustu er það þessi mikla umhyggja fyrir þessum 12 miljónum, sem er svipuð þeirri, er hann virðist bera fyrir smyglurunum, Ef þjóðin er svo heimsk, að hún mundi greiða atkvæði sjer í óhag, hve lengi ætli þessi föðurlega umhyggja háttv. þm. gæti bjargað henni Það er lítil ástæða til að ætla, að þjóðin sjái ekki fótum sínum forráð, ef líf hennar er í veði.

Seinast er þessi pesetareikningur lagður á borðið, en það er ekki minst einu orði á tóbak, kaffi eða aðrar munaðarvörur, sem þjóðin eys út miljónum til að borga árlega. Meira að segja er ekki talað um þótt annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar sæti ókjörum af hendi annarar þjóðar. (Forseti: Athugasemdin fer að verða of löng). Já, jeg ætla aðeins að bæta við: Sú skömm að láta útlenda þjóð kúga okkur til að breyta löggjöf okkar er í mínum augum þungbærari en peningatjón. Og jeg þori að mæta háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) hve nær sem er í þessu máli og fyrir hvaða dómstóli, sem annars er bær um að dæma í siðferðis- og uppeldismálum.