21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Háttv. 5. landsk. þm. (J.J) reyndi að óvirða mig fyrir það, að jeg hafði leyft mjer að geta þess, að það væri nokkur ástæða til að íhuga, hvort útsölustaðir væru nógu margir. Jeg færði til þess tvær ástæður. Háttv. þm. hefir kanske ekki tekið nógu vel eftir, enda hefir hann ekki sagt neitt af viti um málið. Mjer finst það mjög mikilsvert atriði, hvað mikið er um smygl í landinu, og það er líka íhugunarvert, hvað löngunin til sterkra drykkja er mikil í landinu. Þetta er honum velkomið að nota mjer til óvirðingar, því að jeg kannast við, að jeg álít þetta tvent íhugunarvert, og ekki amast jeg við því, þótt hann reyni að teygja úr því langan lopa. Háttv. þm. dirfðist að gefa það í skyn, að jeg ynni fyrir smyglara; en þá mætti eins segja um hann, að hann væri hreinn og beinn smyglaraagent hjer á þingi, er hann fettir fingur út í það, sem gæti orðið til að minka smyglun. Það væri miklu rjettari hugsun. Hann sagði, að þetta tal um 12 miljónir væri fleipur andbanninga. Hann leyfir sjer án raka að vefengja, að það sje rjett. En það er reiknað út af mjög fjölmennri nefnd úr báðum deildum þingsins í fyrra, sem sje viðskiftamálanefndinni. Jeg hefi ekki athugað, hve margir af þeim voru bannmenn og hve margir andbanningar, en þótt sumir í nefndinni hafi verið andbanningar, þá verður þeim ekki um fleipur brugðið. Ummælin eru alveg ósamboðin og ósæmileg af þm., að fara slíkum orðum um störf nefndar á fyrra þingi. Út af því, er hv. þm. var að fleipra um kaffi, tóbak og annan „luxus.“ þá leyfi jeg mjer að spyrja: Hvað kemur það þessu máli við? Spánverjar hafa ekkert heimtað í því efni; kröfur þeirra ná ekki lengra en hvað snertir vín. Og það mátti háttv. þm. vita vel sjálfur. Tal hans viðvíkjandi þessu máli hefir verið fleipur frá upphafi til enda.