25.04.1923
Efri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

150. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg vildi aðeins mælast til, að mál þetta fengi að ganga áfram til 2. umr., og er engin ástæða til að fjölyrða um það að svo komnu, þar sem í greinargerðinni er skýrt frá, af hverju það hefir komið fram. Það er bygt á útreikningum dr. Ólafs Daníelssonar. Jeg skal geta þess, að komið hefir til orða í nefndinni, hvort óhugsandi væri að taka bjargráðasjóðinn og leggja við ellistyrktarsjóðinn. Jeg hefi talað um það við ýmsa hv. þm., og framar vonum mínum hefir því verið vel tekið. Það er efasamt, hvort bjargráðastyrkur komi að tilætluðum notum sem slíkur, en á hinn bóginn væri tilgangurinn með honum ekki borinn fyrir borð, ef hann væri lagður við ellistyrktarsjóðinn, því ellistyrkur er líka bjargráð. Annars er rjett, að þetta sje síðar athugað; jeg vildi aðeins minnast á það, af því að það hafði komið til tals. Jeg vona að deildin leyfi málinu að svo komnu að ganga til 2. umr. Þá geri jeg líka ráð fyrir, að sá maður í nefndinni, háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), sem sjerstaklega er styrknum fylgjandi, skýri málið betur.