10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

49. mál, sala og veitingar vína

Flm. (Magnús Jónsson):

Þó að hjer sje um langan lagabálk að ræða, hygg jeg, að ekki sje ástæða til að þreyta háttv. deild á langri ræðu, og þrátt fyrir það, að frv. þessu fylgi ekki löng greinargerð, vænti jeg, að háttv. þm. hafi getað áttað sig á því, hvað hjer er á ferðinni. Það er nefnilega gamall kunningi, sem hefir verið í útlegð í alllangan tíma og er að koma heim aftur. Það eru sem sje lögin frá 11. nóv. 1899, er fjellu úr gildi með bannlögunum, og voru því óþörf. En þar sem nú, því miður, hefir orðið að veita undanþágu frá bannlögunum, getur það verið álitamál, hvort sömu reglur um veitingar vína ættu eigi að gilda áfram. Þó er hjer sjerstaklega ástatt nú, er aðeins vín með 21% áfengis, og þar undir, eru heimil til innflutnings, og svo er í öðru lagi einkasala ríkisins á vínunum. Jeg ætla mjer ekki að hefja langar umræður um “þetta, en bið háttv. þm. að greina vel á milli aðal- og aukaatriða í þessu máli. Það eru ýms aukaatriði, er jeg skal játa að standa til bóta í frv. þessu og jeg vænti, að háttv. þm. þá taki til athugunar, ef með þarf.

En svo eru tvö aðalatriði í þessu máli, sem jeg mælist til, að háttv. þm. athugi vel og jeg legg mikla áherslu á. Hið fyrra er, að ríkið fari ekki með smásölu vínanna, eins og stjórnin ætlast til með reglugerðinni frá 18. júlí 1922. Það fyrirkomulag verður alt of þunglamalegt bákn í meðferðinni og sýnilega ljettara fyrir ríkið að fela einstökum mönnum rekstur smásölunnar. Fullmikið hefir verið gert af hálfu stjórnarinnar í því að ota fram vínunum, en það er gagnstætt reglugerðinni frá 1922, og takmarkanir þær á vínsölunni, sem þar eru heimilaðar, hafa reynst pappírsákvæði ein. Það er rjettara að hafa aðeins fáa menn við vínverslun ríkisins, en fela smásöluna heldur einstökum mönnum, er greiði ákveðið gjald í ríkissjóð fyrir söluleyfið.

Annað aðalatriðið er það, að ekki sje þröngvað vínsölu eða vínveitingum upp á sjerstök hjeruð eða bæi, og tilgangurinn með þessu frv. er sá, að sjálfsákvörðunarrjettur sveita og bæjarstjórna fái að njóta sín eins og áður var. Þetta er vitaskuld aðaltilgangur frv., og það fram komið beinlínis vegna hans.

Skal jeg nú ekki þreyta háttv. deild meira að sinni, en þó er eitt atriði enn, er jeg þarf að drepa á. Jeg fæ ekki sjeð, þó að frv. þetta verði að lögum, að það rekist á neinn hátt á samninga vora við Spánarstjórn eða geti staðið markaði vorum á Spáni fyrir þrifum. Þessi undanþága frá bannlögunum var veitt vegna samninga vorra við Spán, og það er sjálfsagt að halda gerða samninga, eins og hverjum manni er vitanlegt, en það er líka sjálfsagt að halda hinum aðiljanum að því að efna samninginn til fulls. Og af Spánverja hálfu var einskis krafist nema þess, að innanlands ráðstafanir gerðu ekki undanþáguna að engu. En það verður á engan hátt sagt, að þetta frv., þótt það verði að lögum, geri undanþágu þá, er vjer veittum Spánverjum, að engu. Það er og vitanlegt, að það var ekki aðalatriðið, að hjer yrði flutt inn mikið af spönskum vínum, þegar undanþágan var veitt — enda líklega minst af því víni frá Spáni, er hingað hefir flust — heldur hitt, að Spánarstjórn fengi viðurkenning á sínum grundvallarreglum og innflutningur vínanna yrði leyfður.

Fjölyrði jeg þetta ekki meir, en vænti þess, að frv. þetta fái góðar undirtektir hjer í deildinni, og geri það að tillögu minni, að því verði vísað til allshn. um leið og það verður samþykt til 2. umr.