22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Mjer þykir eigi þurfa að halda langa ræðu um mál þetta. Háttv. deild hefir við 2. umræðu skorið úr því með nafnakalli. Er því fyrirsjáanlegt, hvernig um málið muni fara nú. Er það vitað, að með samþykt þessara laga eru allir þm. nema 2, sem hafa svo litla ábyrðartilfinningu fyrir sjávarútvegi landsins og velferð hans, að þeir eru reiðubúnir til að baka þjóðinni fjölda miljóna króna beint tap. En auðvitað yrði tapið miklu meira en þær 121/2 miljón, sem um hefir verið rætt, því að ef vilji þeirra yrði ofan á í máli þessu, þá er fyrirsjáanlegt fjárhagslegt hrun, og eigur sjávarútvegsmanna verða að litlu sem engu. En þótt ástæða sje til að beina athygli háttv. þm. að þessum tveim hjáróma röddum, tel jeg þó meiri ástæðu til þess að beina athygli háttv. þm. að því, að nálega allir þingmenn eru sammála um hvernig fram úr þessu máli verði að ráða. Þingmenn hafa líka allir átt kost á því að tala við kjósendur sína um þetta mál, og er það áþreifanleg bending um það, að það, sem þeir gera í þessu máli, sje vilji þjóðarinnar. Jeg held því fram, enda hefir verið bent á það hjer í þessari háttv. deild, að ekki sje hægt að gera bannhugmyndinni meira ógagn en að neita að samþykkja frv. það, er hjer liggur fyrir. Það er of vægt til orða tekið, að það mundi gera bannlögin óvinsæl, ef frv. yrði ekki samþykt: fyrirsjáanlega mundi það leiða til þess, að óhugsandi yrði, að nokkur bannlög gætu þrifist í landi þessu. En eins og jeg tók fram í öndverðu, álít jeg eigi þörf á því að rekja mál þetta í sundur. En nú eigum vjer von á því, samkvæmt gefnu loforði, að hlýða hjer á líkræðu yfir bannlögunum. Býst jeg við, að þar verði alt lesið aftur á bak að vanda, og faðirvorið líka. Þykir mjer ólíklegt, að jeg þurfi að halda langan kapítula út af þeirri ræðu.