16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2753)

39. mál, vörutollur

Jakob Möller:

Jeg hefði getað greitt atkvæði með sumu í frv. þessu, en mörgu er svo varið, að jeg get ekki greitt því atkv., og vegna þess, að ekki mun hægt að aðgreina þetta, verð jeg að greiða atkvæði móti frv. í heild.

Frv. þetta er fram borið til verndar innlendri framleiðslu. Hefi jeg samhygð með því að ýmsu leyti, en vil þó ekki kaupa það svo dýru verði, að auka með því dýrtíð í landinu, sem það bersýnilega gerir. Er um flestar þessar vörurtegundir svo, að framleiðslan er ekki næg í landinu. Að vísu gildir þetta ekki um kjöt og fisk, og þar gæti jeg fallist á till. frv., en hins vegar er víst, að mikið vantar á, að framleiðsla af mjólk, smjöri og eggjum sje nægileg. Er mjólk og smjör flutt inn í stórum stíl, en sem ekkert út. Markaður er því nægur í landinu fyrir það, sem framleitt er, og því engin þörf tollverndar. Um heyið er það að segja, að þótt framleiðsla þess í landinu sje mikil, þá er samt svo, að á flestum árum verður heyskortur.

Er dálítið einkennilegt, að þm. Borgf. (PO) skuli flytja frv. þetta, þar sem hann hefir manna mest barist á móti því, að íbúum bæjanna verði gert mögulegt að afla sjer heys úr sveitum. En hvernig eiga þeir þá að afla sjer þess, er þeir mega ekki heldur kaupa það frá útlöndum.

Anars held jeg, að afkoma bænda með hey mundi ekki verða góð sum árin, ef þeir ætla að birgja bæina upp með hey, því að kunnugt er, að iðulega hefir þurft að kaupa mikla matbjörg til að forða fjenaði frá horfelli. Þetta innflutningsgjald er því í meira lagi hjákátlegt.

Þá hefir nefndin bætt vefnaðarvörunni við. Er þó vitanlegt, að langt er frá því, að svo mikið sje unnið af ull í landinu, að nægi vefnaðarvöruþörf; landsmanna. Er því hjer um augljósa tollhækkun að ræða, en ekki tollvernd.

Hv. frsm. (MG) sagði, að tolli þessum ætti að verja til lækkunar útflutningsgjaldinu. Það er út af fyrir sig gott, en það gagnar lítið að afnema ilt með því að láta annað ekki betra koma í staðinn.

Útflutningsgjaldið kemur niður á framleiðendum, en þetta kemur niður á öllum almenningi. Jeg er þeirrar skoðunar, að útflutningsgjaldið eigi að falla burt, en beinn skattur að koma í staðinn, ef nokkuð þarf að koma í staðinn. Sje jeg ekki, að frv. þetta eigi rjett á sjer í þessari mynd, sem verndartollsfrv. En eigi að skoða það sem nýjan aðflutningsskatt, þá er jeg einnig á móti því.