22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Magnússon:

Jeg hefi ekki fundið ástæðu til að tala mikið um þetta mál, því í raun og veru snertir það mig sjerstaklega fremur lítið, eins og það er nú komið. En þar sem reynt hefir verið að afflytja mig fyrir aðgerðir mínar í samningunum við Spán, skal jeg svara því nokkrum orðum, sem að mjer hefir verið beint. En mun þó ekki fylgja háttv. 5. landsk. þm. (JJ) út um alla heima og geima.

Jeg get þegar tekið það fram, að jeg var þeirrar skoðunar, er jeg átti að fara að semja við Spánverja um boð þeirra um lægsta toll á íslenskum saltfiski, gegn því, að gerð væri undanþága frá bannlögunum, að þessi lög yrðu fremur þýðingarlítil, ef gengið væri að þessu. Jeg segi boð Spánverja. því um kröfur af þeirra hendi var alls ekki að ræða, því að þeir hafa aldrei heimtað neitt, heldur einungis sagt, að ef bannað sje að flytja spönsk vín til Íslands, þá verði íslenskur saltfiskur undir hæsta tolli á Spáni. Og þeir ljetu það alveg ótvírætt í ljósi, að þeirra væri ekki þægðin. Er því alveg rangt að vera að tala um kúgun af þeirra hendi. Og jeg segi ykkur það fyrir satt, ef Norðmenn hefðu talið, að um kúgun væri að ræða, þá hefðu þeir aldrei látið undan síga, því að þeir eru svo næmir fyrir þess háttar. Heldur hafa þeir litið svo á, að hjer væri um verslunarsamning að ræða, þar er gildir reglan: do ut des. Hefðum vjer þá gert nokkuð rjettara, ef vjer hefðum leitað aðstoðar Norðmanna en hafnað aðstoð Danmerkur, sem var langsterkasta ríkið af þessum þremur og hafði besta aðstöðu ? í því hefði ekkert vit verið.

Jeg verð því að segja, að mjer finst það skrítið, þegar verið er að halda því fram, að við hefðum ekki átt að taka kostum Spánverja, heldur bjóða þeim birginn, þegar Norðmenn hafa orðið að láta undan síga í samningunum.

Þá skal jeg víkja að aðgerðum mínum í þessu máli, sem svo mikið veður hefir verið gert úr. Já, hvað gerði jeg? Því er fljótsvarað. Ekkert annað en fá frest, þangað til Alþingi kæmi saman, á því, að hinn hái tollur væri lagður á íslenskan saltfisk, gegn því að lofa að leggja fyrir þingið frumvarp um að veita undanþágu frá bannlögunum að því er snertir spönsk vín undir 21% styrkleika.

Annað gerði jeg ekki.

Það hefði vitanlega verið hægt að tala mannalega og segjast ekki ganga að þessum boðum. En það hefði kostað sjávarútveginn afarmikið fje. Jeg skal ekki segja, að sá útreikningur sje rjettur, að það hefði orðið um 12 milj. króna, því að altaf getur verið inn það að ræða, að eitthvað af tollinum lendi á neytanda. Hefði því verið alvara þjóðarinnar að mótmæla þessu, er enginn efi á, að farið hefði verið um landið til þess að vekja andróður gegn því. Og því bjóst jeg við, er jeg lofaði að leggja þetta fyrir þingið. En hvað skeður? Það heyrðist varla svo mikið sem goluþytur. Og eitt af mestu bannhjeruðum landsins sendi áskorun um að láta eftir atvikum undan síga, og hið sama var að heyra frá mörgum þingmálafundum, og var þó þingmönnum í fyrra fyllilega ljóst, áður en þeir fóru til þings, hvernig þetta mál lá fyrir. Þegar svo stjórnin fór frá í þingbyrjun, er ekki með neinum rjetti hægt að kenna henni um úrslit málsins. Eru því ræður eins og hv. 5. landsk. þm. flutti, einungis haldnar fyrir pallana, til þess, að reyna að kasta ljósi yfir sig, en skugga á aðra.

Jeg held, að það sje ekki rjett að vera að tala um, að bannið hafi verið dautt áður en samningarnir við Spánverja komu til sögunnar.

Það höfðu að sjálfsögðu verið misfellur á framkvæmd bannlaganna, en menn máttu vita það fyrir fram, að örðugt yrði að koma í veg fyrir það. Að framkvæmdirnar á eða eftirlitið með lögunum hafi ekki verið svo örugt sem þurft hefði, er að vísu satt. En til þess vantaði í landinu kröftugra framkvæmdarvald en vjer nokkurn tíma höfum haft, og hefði það kostað ærna fje. Samt höfðu bannlögin, að minni skoðun, gert afarmikið gagn þann tíma, er þau stóðu óskert, og jeg hafði ekki haldið, að til þess mundi koma, að þau yrðu afnumin, enda sagt það ofl. Enginn bjóst við því, að það mundi fram koma, sem nú er raun á orðin vegna samninga við Spán.

Það er ekki rjett hjá hv. 5. landsk. þm. (JJ) að lasta kennara mentaskólans, þótt þeir hafi látið álit sitt í ljós um bannlögin. Þeir gerðu ekki annað en það, sem þeim hlaut að vera heimilt. Enn leyfist mönnum hjer á landi, sem betur fer, að hafa ákveðnar skoðanir um þjóðmál og láta þær í ljósi; þingið hefir ekki enn þá vald til að binda þær. Það getur vel verið, að heyrst hafi raddir um, að lögin væru þannig, að rjett væri að brjóta þau. En það eru bara undantekningar, og eins og menn vita, eru samskonar lög, t. d. tolllög, mikið brotin, án þess að það sje talið neitt sjerstakt ódáðaverk. Sumir leika sjer að því að brjóta þau, hafa það fyrir eins konar „sport“. Það er öllum ljóst, að bannlögin voru mikið brotin í fyrstum en við því mátti hver maður búast.

Jeg man ekki vel, en held þó, að það sje rangt, að skipabrennivín hafi fyrst verið leyft, heldur svo nefnt konsúlabrennivín; jeg átti lítinn þátt í því öllu, en hefi ávalt talið það efasamt, að læknar hafi nokkurn tíma átt að fá svo víðtæka heimild til að láta áfengi í tje.

Það er ekki rjett af hv. 5. landsk. þm. (JJ) að kasta skarni á dómarastjett þessa lands. Það er ósæmilegt. Allir góðir menn ættu að vera samtaka í því að halda uppi dómarastjettinni og dómstarfinu. Dómarar hafa aðeins gert það, sem þeir töldu rjett vera: meira er ekki hægt að krefjast af þeim. Og eftir því sem mjer er kunnugt, standa íslenskir dómarar fullkomlega jafnfætis dómurum annara landa hvað snertir rjettlætistilfinningu, hvort sem maður tekur til dæmis yfirdóm, hjeraðsdóma eða undirdóma. Svo að jeg víki að Blöndahlsmálinu, þá átti jeg ekki von á að tala um það nú. Jeg man ekki til, að hafa fengið nein sjerstök tilmæli frá Templurum. Það getur þó vel verið: jeg þori ekki að segja um það. Jeg held, að spurningin hafi komið fram á þingi. Jeg hafði sagt við eitthvert tækifæri, að til mála gæti komið að bíða eftir hinum íslenska hæstarjetti, er þá var aðeins ókominn á fót, en þegar jeg fór að rannsaka málið í stjórnarskrifstofunni, þá kom það í ljós, að málið hafði verið sent til fullnustugerðar. Annar þeirra, er málið hafði verið höfðað gegn í upphafi, var dæmdur sekur, en Blöndahl sýknaður. Er svo var komið, þótti ekki rjett að áfrýja málinu, er það hafði verið sent til fullnustugerðar.

Mjer virtist eiginlega ekki mikið viðkomandi þessu máli það, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að dylgja með, að jeg hefði haft svo mikinn ábata á innflutningi áfengis fyrir 1912. Mig minnir, að jeg hafi heyrt um grein eina, er birtist í „Tímanum“ hjer í vetur og hjet eitthvað á þessa leið: „Illur fengur illa forgengur“. Rangminni mig eitthvað, verð jeg að biðja afsökunar á því. Í greininni stendur, að jeg hafi átt að hafa fengið mikla peninga fyrir áfengistolla og að þeim hafi jeg átt að verja til blaðs á Austurlandi, og þar hafi þeir tapast eða í því fyrirtæki muni þeir forganga.

Þessi mikla fjárfúlga, sem jeg á að hafa fengið af áfengistolli, ætti þá helst að hafa komið á árið 1912. Nú hefi jeg af tilviljun hjá mjer skýrslu um tekjur mínar frá árunum 1912–1916. Árið 1912 voru hreinar embættistekjur mínar alls rúmar 16000 kr. (að frádregnum kostnaði), en hreinar jafnaðartekjur mínar fyrir hvert umgetinna 5 ára um 15500 kr. Þetta ætti að sýna, að bannið hefir ekki haft mikil áhrif á tekjur mínar. Eyrir þessar auknu tekjur 1912 átti jeg að hafa bygt stórt hús og stofnað blað á Austurlandi. Það virðist augljóst, að munurinn á tekjunum 1912 og á hinum árunum er ekki svo mikill, að bygt verði fyrir hann stóreflis hús og stofnað blað, — sem jeg vissi ekki einu sinni hvað hjet, hvað þá meira, og lagði ekki einn eyri í. — og vera auk þess vel fjáður annars á eftir.

Jeg hefi altaf álitið þjóðhagslega heppilegt að hafa bann, en að mjer hafi þótt sjerstaklega vænt um bannið vegna hinna ákaflegu tekna fyrir sjálfan mig, það get jeg ekki fundið, hvernig ætti að geta átt sjer stað. En það kann að vera, að slíkt fyrnist hjá manni, er maður er búinn að njóta góðs af því. Hv. þm. fann að því, að einn stækasti andbanningurinn skyldi vera sendur suður á Spán til að semja. Jeg skil ekki, hvernig var hægt að komast hjá því að senda þann mann, sem var þá einmitt erindreki Íslands í Miðjarðarhafslöndunum. Um samningana annaðist danski sendiherrann aðallega. Þessi maður. Gunnar Egilson, er vitanlega heiðarlegur maður og hafði enga ástæðu til að taka málið öðruvísi en það lá fyrir. Nú, hvað var svo unnið við sendiför hans? Það var áreiðanlega engu spilt, en margir álíta, að það hafi verið meðfram fyrir skýrslur hans, að ársfrestur fjekst gegn því, að stjórnin legði málið fyrir þingið. Það hefði verið hægt að senda sendimenn hjeðan að heiman til Spánar, til að reyna að telja Spánverjum hughvarf, segja sumir. Jeg veit, að háttv. þm. (JJ) þekkir svo vel þessa dökkhærðu þjóð á Pyreneaskaganum, að honum er það ljóst, að það hefði verið þýðingarlaust þá, eins og það reyndist síðar, fyrir okkur að reyna að snúa þeim. Það eru bara látalæti, er menn tala um, að fortölur hafi nokkuð að segja móti kröfum þeirra.

Hv. þm. (JJ) talar um, að sendimaður Templara hafi ekki fengið umboð til að leita samninga við önnur ríki. Þó vita allir, að hann var sendur af hálfu stjórnarinnar á bindindisstefnu í Sviss. Hitt er satt, að jeg neitaði honum um að fara á fund stjórnarinnar í London til að leita liðsinnis af hálfu stjórnarinnar hjer. Það var búið að koma sjer saman við Spánverja til bráðabirgða. Stjórnin gat þá ekki farið að senda út um allan heim til að biðja um hjálp, svo að hún þyrfti ekki að efna gefið loforð. Hún var búin að binda sig og gat ekki úr því verið með nein undirmál við aðrar þjóðir.

Um hitt atriðið, sem kemur mjer minna við, hvort ekki hafi verið rjett að leita samvinnu með Norðmönnum, þá finst mjer alveg augljóst, að það hefði ekki orðið til mikils, enda játaði háttv. þm. það. Það hefði auðsjáanlega enga þýðingu haft, eftir því sem nú er fram komið. Þá að leita til Ameríku. Mjer finst ekkert vit að slá því fram, að það hefði þýðingu. Ef menn halda því fram, að það væru líkindi til, að Ameríka skifti sjer af slíku máli, þá hefi jeg ástæðu til að halda, að þeir tali á móti betri vitund. Eftir öll þau ósköp, sem hafa gengið á í heiminum, eftir að hver hryðjuverkin á fætur öðrum hafa verið drýgð, án þess að Ameríkumenn hafi gefið því gaum. ættu þeir að skifta sjer af þessu. Nei, og aftur nei. Þeir myndu ekki fara að senda „diplomata“ sína til að pressa að Spánverjum. Það er þýðingarlaust að tala um þetta. Menn sjá, að við getum ekki borgað háan toll, og það er það eina, sem um er að ræða.

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) talaði um goluþyt. Jeg skil ekki, við hvað hann á með því, nje hvers vegna hann er að staglast á því hvað eftir annað. Annars er það fullkominn óþarfi að hræðast goluþyt, sjerstaklega um þetta mál.