20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

39. mál, vörutollur

Pjetur Ottesen:

Tíminn er raunar orðinn mjög takmarkaður, en mig langar þó til að fara nokkrum orðum um málið.

Jeg hefi komið fram með brtt. við brtt. nefndarinnar, þá, að sykraðir ávextir verði feldir í burtu. Jeg hefi fengið upplýsingar um, að þeir heyri undir 14. liðinn í 1. gr. tolllaganna, sem sje brjóstsykurs- og konfekttegundir. Aftur tók jeg hjer upp lakkris, sem þó er í sjálfu sjer lítið atriði.

Annars get jeg ekki stilt mig um að minnast á það, að mjer finst undrum sæta, hvað frv. þetta hefir mætt mikilli mótspyrnu. Það verður Þó að álítast að vera hyggindi, sem í hag koma, fyrir hverja þjóð, að reyna að búa sem mest að sínu og vera sjálfri sjer nóg, svo sem kostur er, um allar nauðsynjar. Þetta viðurkenna menn hjer líka, að minsta kosti í orði kveðnu.

Það sem við flm. frv., hv. 2. þm. Skagf. (JS) og jeg, höfum viljað vinna á með frv., er það að vernda innlenda framleiðslu og gera tilraun til þess að koma í veg fyrir, að menn haldi áfram að kaupa þær vörur frá útlöndum, sem framleitt er nóg af í landinu sjálfu, og heima fyrir fást, bæði betri og ódýrari. En í frv. okkar eru aðeins teknar þær vörur, sem svo er ástatt um.

Nefndin hefir nú yfirleitt tekið vel í þetta, en þó hefir hún felt niður tollhækkunina á niðursoðinni mjólk. Nú er það svo, að nóg er til í landinu sjálfu af mjólk, þó sumstaðar sje erfitt, vegna erfiðra samgangna, að fullnægja mjólkurþörfinni í hverjum stað. Tilgangur okkar var því sá, að þessi tollvernd mundi ýta undir, að meiri rekspölur kæmist á mjólkurniðursuðu hjer, og fullnægja þannig smátt og smátt þörfinni. Það, sem áynnist við það, er, að þá fengju menn góða, næringarmikla og ósvikna mjólk, í stað ljelegrar mjólkur og jafnvel mjólkurstælingar, eins og víst er um, að sumt af þeirri mjólk, sem hingað er flutt frá útlöndum, er, eins og líka best sjest á því, að hún yfirleitt er óhæf handa ungbörnum. En innflutt mjólk árið 1919 nam á 700 þús. kr. Það er því gleðilegur vottur, að á mjólkurniðursuðu hefir verið byrjað hjer á einum stað, í Borgarfirði, og þó það sje enn þá fyrirtæki í smáum stíl, þá mun það vera full alvara þeirra, sem að því standa, að færa út kvíarnar; hafa þeir leitað atbeina þingsins í því efni, sem jeg vænti, að vel verði tekið. Og austanfjalls munu menn einnig hafa hug á því sama.

Aftur á móti hefir nefndin gengið nokkru lengra en við flm., þar sem hún hefir hækkað nokkuð toll á vefnaðarvöru og svo ávöxtum og þessháttar. Um ávextina má fullkomlega taka undir það, sem hv. frsm. (MG) tók fram, að þeir eru í flestum tilfellum „luxus“-vörur, sem fjöldi manna smakkar aldrei og lifir þó engu verra nje óánægðara lífi fyrir. Hvað vefnaðarvörur snertir, þá framleiðum við meira en nóga ull til að klæða alla landsbúa. En okkur vantar það, að unnið sje úr þessari ull, þó kraftarnir sjeu nógir til þess í landinu. Það virðist annars vera orðinn nokkuð rótfastur hugsunarháttur, sem mest ber á í kaupstöðum, og þar á hann upptök sin, en sem svo hefir borist út um landið, að það sje svo miklu finna að nota efni, sem keypt er frá útlöndum, og klæðast erlendum fatnaði. Menn eru að tala um, að verksmiðjur vanti, en hvernig var það áður fyr? Þá gengu menn alment í heimaunnum fötum, vel unnum og vel gerðum, hlýjum og skjólgóðum, og þá voru þau ekki að minsta kosti síður hæf til að vernda heilbrigði manna og líkamsþol. Þá voru engar verksmiðjur. Nei. Sannleikurinn er þessi, að auk þess sem við höfum nóga ull í landinu, þá höfum við einnig nógan vinnukraft til að hagnýta hana. Og þó heimaunnin vaðmál þyki t. d. ekki svara til þeirra krafa, sem nú eru gerðar um fatnað eða efni til fatnaðar, þá höfum við verksmiðjur, sem vinna dúka, sem ekkert standa að baki erlendum dúkum, en það eitt, að þeir eru innlendir, unnir í landinu sjálfu, það eitt er nóg til þess, að gengið er á snið við þá og útlend efni tekin í staðinn.

En hugsunarhátturinn þarf að breytast, ekki síst. Hugsum okkur, hversu mikið gæti áunnist í þessu efni, ef t. d. alt það fólk, sem daglega drepur tímann hjer í Reykjavík, með kaffihúsasetum og bíóferðum og öðrum slæpingshætti, í stað þess notaði tímann til þess að vinna úr íslensku ullinni góðar og þarflegar flíkur. Og hugsum okkur, hvort væri þjóðnýtara.

Og menn þurfa ekki annað en að líta í heilbrigðisskýrslumar nýútkomnu til að sannfærast um það, að þessi ósiður er farinn að gripa um sig og festa rætur út á ystu annesjum, því jafnvel norður á Langanesi gengur kvenfólkið nú orðið í útlendum grisjusokkum, sem eru alveg eins og silunganet, það er nákvæm eftirstæling af því, sem nú er hæstmóðins hjer í höfuðstaðnum, jafnt hjá körlum og konum, og það er ef til vill af því, að sú tíska er mjög uppi hjá kvenfólkinu hjer í bænum að ganga í stuttpilsum, að geta á þann hátt auglýst sem best þessa þjóðrækni, og þess má fullkomlega vænta, að það liði ekki á löngu, að karlmennirnir sníði neðan af buxnaskálmunum sínum í sama tilgangi. Mjer virðist því, að að því leyti sem hækkun á vörutolli af vefnaðarvöru gæti orðið til þess, að fremur væri farið að leggja meiri rækt við að vinna flíkur og plögg úr ullinni okkar, þá sje tollhækkunin rjettmæt og ekki ófyrirsynju gerð.

Þá hefir verið ráðist á tollinn á aðfluttu heyi og honum andmælt allfreklega, svo sem slíkt væri hin mesta fjarstæða. Þóttist t. d. hv. 1. þm. Reykv. (JakM) undrast það mest, að slík tillaga væri frá mjer komin eða að jeg skyldi ljá henni fylgi mitt, og bygði hann það einkum og sjerstaklega á því, að jeg hefði á undanförnum þingum viljað íþyngja þeim kaupstaðabúum, sem heyskap stunda, með útsvarsálagningu. Þetta, að jeg hafi komið fram með tillögur um að íþyngja þessum mönnum nokkuð, er vitanlega fjarstæða einber og ekkert annað, eins og jeg hefi svo oft sýnt fram á áður. Það er ekkert annað en dreifing útsvarskyldunnar, án þess það þurfi eða eigi að valda neinni hækkun hins raunverulega útsvars. En úr því þm. (JakM) undrast þetta svo mjög, þá mun hann líklega ekki undra það síður, þegar jeg segi honum það, að þetta er flutt hjer í samráði við og eftir ábendingu og tillögum mjög merks manns hjer í Reykjavík, manns, sem er landskunnur að því, að vera glöggskygn á þau hyggindi, sem í hag koma fyrir þjóðarheildina. Þessi maður er Guðjón Guðlaugsson, fyrv. landskjörinn þingm.

Hann hefir árlega, síðan hann kom hingað til Reykjavíkur, fengist við heyskap, keypt slægjur, og er því einn af þessum, sem þingm. (JakM) segir að jeg hafi verið að íþyngja, og hefir hann haldið nákvæma reikninga yfir allan kostnað við heyskapinn.

Síðastl. sumar heyjaði hann bæði flæðiengjahey, venjulegt mýrarhey, og svo töðu af túni því, sem fylgir býli hans hjer suður við Öskjuhliðina, og kostaði hvert pd. af þessu heyi upp og niður, þegar allur kostnaður var reiknaður, 10 aura, en til samanburðar má geta þess, að það útlent hey, sem nú er nýkomið hingað, kostar 16 aura pd. Geta menn nokkuð sjeð af þessu, hvort ekki muni vera eins hyggilegt og gott að reyna að afla nauðsynlegra heyja innanlands, þó sjerstaklega, þegar þess er gætt, að mikið af slægjum verður úti á hverju ári, og það því fremur sem það má framleiða það svona miklu ódýrara hjer en hægt er að fá það frá útlöndum. Því það sem hv. 1. þm. Eyf. (StSt) sagði, að verið væri með heytollinum að meina kaupstaðarbúum að hafa eina eða tvær kýr, er svo mikil fjarstæða, að það er engan veginn svara vert, og svo var yfirleitt alt það, er hann hafði fram að færa til andmæla þessum heytolli. Og yfirleitt virðist mjer í öllum andmælunum gegn þessum tolli kenna alt of mikillar og beinlínis særandi vantrúar á landinu, og bið jeg guð að náða framtíð landbúnaðarins, ef það á að fara að framfleyta búpeningi á heyi frá útlöndum, sem þá vitanlega ekki byggist á öðru en því, að vanrækt er að nota þau gæði, sem landið hefir að bjóða í því efni. Þetta segi jeg af því, að það er engu líkara en að þeir, sem eru að andmæla þessum heytolli, líti svo á, að með því sjeu möguleikarnir til búfjárræktar í landinu svo ægilega skertir.

Hitt er vitanlega alveg rjett, sem einn hv. þm. (BH) tók fram, að ef á annað borð yrði fóðurskortur á einhverjum stað, svo að grípa yrði til aðflutts fóðurs, mundi heldur verða flutt inn kjarnfóður en hey, svo þetta ákvæði verður þessu ekkert að meini, enda eru ákvæði í vörutollslögunum, sem heimila að fella tollinn niður með öllu, ef svo stendur á.

Annars miðar öll starfsemi á sviði landbúnaðarins að því að tryggja búpeningi landsmanna nægt fóður, bæði með aukinni ræktun landsins og gætilegum ásetningi.

Andmælin gegn þessum tolli af heyinu eru því þess eðlis, að þau eru engan vegin þess verð að byggja á þeim andstöðu gegn þessum tolli. Jeg vænti þess, að háttv. deild taki því frv. þessu vel og greiði götu þess. Það miðar að því að draga úr innflutningi á þeim vörum, sem við erum okkur sjálfir nógir um og okkur eru hollastar og notadrýgstar, og getum við á þann hátt sparað okkur gjaldeyri, og auk þess styður það að því, að lögð sje meiri rækt en ella við það að auka og bæta framleiðsluna.