22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í C-deild Alþingistíðinda. (2778)

39. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson:

Jeg hafði fyrir nokkru kvatt mjer hljóðs til að víkja nokkrum aths. að hinum og þessum háttv. þm. En hjeðan af er ástæðulítið fyrir mig að taka til máls, því aðrir hafa tekið margt af því fram, sem jeg ætlaði að segja. Jeg vil þó bæta við nokkrum orðum. Það gerir hvorki til nje frá, því verði jeg ekki til þess að eyða tíma þingsins, þá gera aðrir það. Jeg kann ekki við, að örfáir menn hafi nokkurskonar forrjettindi til að eyða tíma þingsins með mælgi sinni. Jeg álít, að það kynni að geta orðið til lækningar á þessum leiða þingkvilla, ef allir tækju upp þann sið, um nokkurn tíma, að tala sig dauða í hverju máli. Þessi orð mín koma að vísu ekki málinu við, en eins og ástandið nú er, álít jeg þau ekki með öllu óþörf.

Háttv. 1., 2. og 3. þm. Reykv. (JakM, JB og JÞ) eru á móti þessu frv. Svo er og um háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), háttv. 2. þm. N.-M. (BH), háttv. þm. Str. (MP) og fleiri, sem jeg nenni ekki upp að telja. Jeg fæ ekki annað sjeð en að það, sem allir þessir háttv. þm. hafa haft fram að færa gegn frv., sje svo líkt hvað öðru, að jeg geti svarað þeim öllum í einu, og á þann hátt sparað mjer að nafngreina hvern út af fyrir sig.

Það kemur hálfundarlega fyrir, þegar menn, sem halda því fram, að skilyrðið fyrir fjárhagslegri velmegun þjóðarinnar sje það, að hún læri að bjargast sem mest við það, sem hún sjálf getur framleitt, að einmitt slíkir menn skuli taka svo í þetta mál sem raun er á orðin. Jeg hýst við því, að allir þessir háttv. þm. haft þessa skoðun, sem jeg mintist á. Að minsta kosti hefir hún komið fram hjá þeim flestum. En nú lítur út fyrir, að þeir ætli að verða á móti þessu máli, og þá fer að verða nokkuð torskilið samræmið milli orða þeirra og athafna.

Með frv. þessu er gerð tilraun til að minka innflutning á óþarfavörum, en nota fremur það, sem landið sjálft gefur af sjer. Jeg fæ ekki sjeð, að á nokkurn hátt sje hjer óhóflega að verið, hvað snertir hækkun innflutningsgjaldsins á þessum vörutegundum. Málið er ekki heldur óaðgengilegra eftir að nefndin hafði það til meðferðar. Það hefir að vísu verið hækkað aðflutningsgjald á ávöxtum, sem háttv. læknir deildarinnar hefir nýlega lagt svo mikið upp úr, vegna heilsu landsmanna. Jeg held nú, að sú kenning hans hafi fremur verið fram sett í því trausti, að enginn treystist til að andmæla hinum sjerfróða manni. Hann sagði, þessi háttv. heilbrigðisfulltrúi, að það gengi næst skrælingjahætti að fara að takmarka innflutning á þessari vöru. Jeg vil þó halda því fram, að það stappi nær skrælingjahætti ástandið, sem hjer hefir verið að undanförnu. Það hlýtur að vekja eftirtekt allra hugsandi manna að sjá alla glugga í hverri búðarholu þessa bæjar fulla af þessum varningi og börnin um allar götur með fullan gúlinn af þessum meira og minna skemdu ávöxtum. Í þessu liggur stórfje, og þetta er hreinasta tálbeita fyrir marga fáráðlinga, enda fjöldinn, sem bitur á hana. Verst er þó, að mikið af þessum vörum er flutt inn án allrar fyrirhyggju. Talsvert af andvirðinu er ógreitt og sumt greiðist aldrei. Bíða erlendir viðskiftamenn tjón við þetta, og er það siðspillandi og þjóðinni til minkunar. Hjer við bætist svo, að þessi varningur er undirorpinn miklum skemdum við geymsluna. Ekki má miða við það, þótt furðanlega hafi slarkast af í ár, þar sem nú er svo óvanalega góður vetur. En svo er ekki ávalt, og margur hefir hjer hlotið stórtjón af slíkum vöruskemdum. Þegar svo er komið, er þessum varningi, stórskemdum, otað að almenningi, sem svo glæpist til að kaupa hann, sjer til efnatjóns og heilsuspillis.

Eins og tímarnir eru nú, verða takmörkin einhversstaðar að vera á því, hvað menn geti veitt sjer af því, sem þeir óska helst. Alt tal um það, hversu þungbært þetta yrði almenningi, ef fram nær að ganga, er ekki annað en blekking þeirra manna, sem vilja láta lita svo út sem þeir sjeu að vernda hagsmuni þjóðarinnar með því að forða henni frá tollhækkun, en þess verður þá jafnframt að gæta, að hjer er aðeins um tollhækkun á ónauðsynlegum vörum að ræða. Mjer er sama, hvort þessi andróður gegn þessari umbótaviðleitni kemur fram í blöðunum eða því er haldið á lofti í þingsalnum, blekking ein er það og ekkert annað. Það er margbúið að sýna fram á það, að þessi tollhækkun á vefnaðarvöru nemur mjög litlu. Þessu máli til skýringar skal jeg geta þess, að þegar nefndin fjekk þetta frv. til meðferðar, gekk hún svo langt, að hún útvegaði vog, og nefndarmenn klæddu sig nálega úr hverri spjör, og vógu föt sín; sýnir þetta samviskusemi og áhuga nefndarmanna fyrir því að fá sem nákvæmastar upplýsingar og komast að sem rjettastri niðurstöðu í málinu. Niðurstaðan af þessum rannsóknum nefndarinnar varð sú, að skatturinn nemur sem svarar einni krónu á meðalkarlmannsfatnaði. Það er þessi skattur, sem enginn á að geta risið undir; hreinn og beinn barnaskapur, sem jeg á bágt með að trúa, að alþýða þessa lands sje svo skyni skroppin að gleypa við, svona alveg ómelt. Er því sýnt, að þessar mótbárur hafa við alls engin rök að styðjast, og að þessu er aðeins slegið fram, til að sýnast fyrir mönnum. Tel jeg því óþarft að fara lengra út í þessi atriði, og þori vel að taka á mig ábyrgð þá, sem af þessu leiðir, þótt öðrum kunni að vaxa hún í augum.

Þegar farið er að tala um það, að ýmskonar hluta verði ekki aflað í landinu sjálfu, t. d. vefnaðarvörur ýmsar o. fl., vil jeg benda mönnum á, að þessi tollhækkun stuðlar einmitt að því að styðja innlendan iðnað, því, sem allir þykjast vilja vinna að. Þá vil jeg og sýna fram á, að margskonar vefnaður er unninn hjer á landi, einnig úr öðrum efnum en ull, og stendur sá iðnaður, þótt heimilisiðnaður sje, alls ekki að baki útlendum iðnaði af því tagi, nema síður sje. Vil jeg því biðja háttv. þm. að athuga einmitt þetta, hvort hjer sje ekki einnig um stuðning fyrir íslenskan iðnað að ræða.

Jeg álít, að það sje sannanlegt, að mikill hluti af því, sem flutt er inn, bæði af vefnaðarvörum, ávöxtum, o. fl., sje í raun og veru óþarfi. Jeg vil og bæta því við, enda þótt sumum kunni að þykja fáránlegt, að svo mun víðast hvar haga til, hvar sem er á hnettinum, að framleiða megi það, sem þarf til lífsins viðurhalds. Og þótt hjer hagi alt öðruvísi til en t. d. á Suðurhafseyjum, þar sem menn geta nær eingöngu lifað á ávöxtum og öðrum jurtagróðri, þá held jeg, að þjóð vor veslist vart upp, eða dragi mjög úr þroska hennar, þó minna sje flutt inn af þessum hlutum. Læt jeg þess getið, þrátt fyrir það, að hinn eini læknir vor hjer í deildinni og einasti heilbrigðisráðunautur vor deildarmanna sje á gagnstæðri skoðun. Það þýðir heldur alls ekki að vera að halda því fram, að þetta sje sama og að banna innflutning þessara hluta, því það á sjer engan stað. En hitt teldi jeg skaðlaust, þótt hann kynni að minka eitthvað.

Jeg ætla svo ekki að fara lengra út í þetta að sinni, enda býst jeg við, að bráðum muni koma einhver demban yfir mig, til að reyna að hrekja þessar kenningar mínar, án þess að jeg búist við að það hafi mikil sannfærandi áhrif á mig. Það er ekki ómögulegt, að mjer gefist tækifæri til að taka aftur til máls um þetta efni, ef nauðsyn krefur.