22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

39. mál, vörutollur

Jakob Möller:

Jeg verð að vekja athygli hæstv. forseta á því, að jeg er minni hluti nefndarinnar og þarf því ekki að binda mig við neina stutta athugasemd. (Forseti BSv: Jeg geri heldur ekki ráð fyrir því). Þó ætla jeg að vera mjög fáorður.

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) skildi ekki í því, að jeg gæti ekki fallist á svona óverulega hækkun á tollinum. Jeg skil þar ekki hugsunarhátt þingmannsins. Jeg vil helst enga tolla hafa, því jeg hefi haldið fram, að allir tollar væru að meira eða minna leyti ranglátir, og þess vegna vil jeg heldur enga tollhækkun; tollarnir verða auðvitað því tilfinnanlegri, sem þeir eru hærri. Hann mintist á tóbakið, og að þegar það mál var á döfinni, hafi jeg ekki verið hræddur við verðhækkunina, nje heldur þá hugsað svo mjög um að vernda smásalana. Þá er því þar til að svara, að af tvennu illu velur maður jafnan það skárra, og þegar um einokun eða einkasölu var að ræða annars vegar, áleit jeg það skárra að hækka tollinn. Hins vegar er þar um svokallaða munaðarvöru að ræða, sem alment er fallist á, að leggja megi á tolla. Hjer er því ekki um neitt ósamræmi að ræða í fari mínu.

Hvað viðvíkur ræðu háttv. þm. Ak. (MK), veit jeg ekki, hvort hann meinti það til mín, að jeg færi með blekkingar í því efni, að tollhækkunin væri of þungbær; þá kemur þetta í berhögg við það, sem jeg hefi sagt um málið. Jeg lagði aðaláhersluna á grundvallarregluna — „principið“ — að jeg er á móti öllum tollum. Þetta er alt saman nokkuð skrítið hjá hv. þm. (MK), því samkvæmt áliti hans sjálfs ætti ekki að leggja skatta á þá, sem hafa tekjur undir ca. 5 þús. kr., en þessi tollur getur þó orðið nokkur skattur á fátækari fjölskyldum, og tekjuskatturinn því orðið þeim tilfinnanlegri fyrir bragðið.

Hvað snertir grisjusokkana Borgfirðingaþingmannsins, kemur þessi tollur þar að engu haldi; á slíku hismi eins og silki, eða jafnvel bómullargrisju, verður tollurinn auðvitað sama og ekkert, er það er svo ljett efni í sjer. Á mörgum nauðsynjavörum verður hann aftur á móti alltilfinnanlegur.

Háttv. þm. Ak. (MK) talaði um, að það ætti að vernda baðmullariðnað þann, sem hjer væri hafinn; þar hygg jeg, að alt sje í svo smáum stíl, að varla taki að hafa orð á slíku, enda nær eingöngu um heimilisiðnað að ræða.

Hins vegar fer því fjarri, að hjer sje um slíka vernd að ræða, því að efni til þeirrar iðju er jafnt tollað og það, sem úr því er unnið. En bómull vex ekki hjer á landi, svo jeg viti. Þá eru ummæli sama háttv. þm., um það, að hvar sem er á hnettinum megi framleiða það, sem menn þarfnast; slíkt má að vísu altaf segja, en lifnaðarhættir og venjur manna eru nú orðnar svo breyttar frá því, sem áður var, að vart mun auðvelt að koma þeim í það horf, sem þm. (MK) hugsar sjer, og síst verður það gert með lögum.