22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í C-deild Alþingistíðinda. (2780)

39. mál, vörutollur

Magnús Pjetursson:

Jeg bjóst ekki við að þurfa að fara að skattyrðast að þessu sinni, en get ekki látið ræðu háttv. þm. Ak. (MK) hlutlausa, og skil jeg ekki, að nefndin standi hjer uppi berskjölduð, eftir því sem hann lýsti störfum nefndarmanna. Jeg þurfti engra upplýsinga með frá háttv. þm. (MK), eða öðrum, um að ávextir skemdust; jeg hefi ávalt vitað það, því það er alkunna, að ávextir geta skemst. En mjer finst ekki ástæða til að banna innflutning á þeim fyrir því. (MK: Það er alls ekki verið að banna það). Það er að minsta kosti verið að bægja öllum almenningi frá notkun þessarar fæðu, sem sparnaður gæti verið í, ef notaðir væru alment, og eru þetta því í sjálfu sjer þarfar vörur. Ætti fremur að byrja á vörum, sem skaðlegar eru heilsu manna, en ekki á því, sem öllum kemur saman um að sje gagnlegt. Þá var þm. (MK) að tala um, að vart mundu menn veslast upp fyrir það, þó ávextir flyttust eigi inn í landið. Þetta hefir enginn sagt og er alt annað en þó hinu hafi verið haldið fram, að þeir gæti verið nauðsynlegir. Því er ekki talað um að tolla innflutning á kartöflum? Þær er hægt að framleiða hjer, en alls eigi ávextina, og væri því frá þessu sjónarmiði nær að tolla þær, þó jeg auðvitað myndi ekki geta mælt með slíku, en það ætti að falla nefndinni vel í geð.