22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í C-deild Alþingistíðinda. (2785)

39. mál, vörutollur

Jón Þorláksson:

Jeg ætla að gera örstutta athugasemd við ræðu háttv. 2. þm. Ám. (ÞorlG). Jeg tel mjer óþarft að gera alla þá útreikninga, er hann kvað þurfa að gera; tel jeg hann sjálfan einfæran um það. En jeg ætla að benda háttv. þm. á það ósamræmi, sem er í því, að vilja setja hindrunartoll á erlent hey, sem óneitanlega er þó það hráefni, sem mjólk er framleidd af, en vilja ekki tolla aðflutta mjólk sökum mjólkurskorts í kaupstöðunum. Er það illa viðeigandi, að meina þeim mönnum, er nú kaupa erlenda dósamjólk, að flytja inn hey, ef þeir vilja gerast svo framtakssamir að framleiða mjólkina handa sjer sjálfir. Ef það næði fram að ganga, að hindrunartollur yrði settur á hey, mundi það verða sama sem verndartollur fyrir erlendan kúabúskap.