22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Það var einkar eðlilegt, að þess væri krafist áður en gefin væri undanþága frá bannlögunum, að alt væri gert, sem unt væri, til að komast fram hjá þessu skeri. Núverandi stjórn gerði það, sem í hennar valdi stóð, til þess að þessi kaleikur gæti vikið frá þjóðinni.

Þó að deildinni sje þetta fullkunnugt, ætla jeg að rifja það upp, vegna mumæla háttv. 5. landsk. (JJ), að sendir voru 3 menn til Spánar til að semja, sem sje sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Sveinn Björnsson, Einar H. Kvaran, sem lengst af hefir notið hins mesta trausts meðal bannmanna, og Gunnar Egilson. Þessum mönnum var falið að halda áfram samningunum í samvinnu við sendiherra Dana. Jeg veit, að Gunnar Egilson hefir unnið í fullu samræmi við hina, og skýrslur hans bera vott um, að hann hefir gert alt, sem hann gat. Mönnum er kunnugt, hvernig sendiförin tókst. Jeg er alveg sammála háttv. 4 landsk. (JM) um, að hjer var engu hægt um að þoka.

Á þessari skoðun var bygð sú niðurstaða, sem kunn er frá síðasta þingi. Og þessi niðurstaða þingsins hefir verið staðfest af ýmsu, sem gerst hefir í heiminum síðan. Það nægir að benda á svipað lagafrv., sem norska Stórþingið mun nýlega hafa samþykt. Þar stóð þó öflugur flokkur, er barðist á móti því að slaka til á bannlöggjöfinni, en niðurstaðan hefir orðið þar sú sama og hjer. Sannleikurinn er, að jeg hefi fylgt þeirri reglu að tala lítið um málið; mjer hefir fundist það óþarfi; jeg hefi verið viss um. hver niðurstaðan yrði, viss um, hvernig atkvæði þingmanna mundu falla.

Menn vita líka, að það er fleiri en ein hugsjón, fleiri hugsjónir en bindindishugsjónin, sem menn verða að bera fyrir brjósti. Ein þeirra er stærst. — sjálfstæðishugsjónin, og sterkasti þáttur hennar er hið fjárhagslega sjálfstæði. Það þing, sem ætlar að kippa fótunum undan því, má sannarlega hugsa sig um tvisvar. Það er ekki nóg að mæna hjer á bannhugsjónina, heldur er hjer að ræða um valið á milli hennar og hins fjárhagslega sjálfstæðis.

Þá er spurningin, hvernig velja skuli.

Jeg vil benda háttv. 5. landsk. þm. (JJ) á það, að sumir, sem nú greiða atkvæði með frv., hafa áður greitt atkvæði gegn öllum undanþágum frá bannlögunum. Í tölu þessara manna er jeg. En nú er svo mikið í húfi, að jeg sje mjer ekki fært annað en vera með þessari undanþágu.

Jeg sje ekki þörfina á því að ræða þetta frekar. Það er sama. Hvort greidd eru atkvæði í dag eða á morgun. Þau falla eins. En það er nauðsynlegt, að málinu sje heldur hraðað, til þess að hægt verði að ljúka sem fyrst samningum við Spánverja.

Áður en jeg sest niður vil jeg að það heyrist úr þessu sæti, að jeg ber fult traust til dómara landsins og verð að mótmæla þeim ummælum, sem háttv. 5. landsk. þm. (JJ) hafði um þá.