20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

141. mál, skoðun á síld

Flm. (Stefán Stefánsson):

Aðalástæðan fyrir því, að jeg hefi leyft mjer að flytja þetta frv., er tekin fram í greinargerðinni, svo að jeg þarf ekki að vera margorður. Það mundi aðallega vinnast á með frv., að ríkissjóður losnaði við allveruleg útgjöld, er hann hefir orðið að greiða nú um mörg ár fyrir mjög óverulegt starf. Hjer er með öðrum orðum farið fram á að afnema yfirsíldarmatsmannsstöðuna á Austfjörðum. Jeg fæ ekki sjeð, að þessi maður, eða starf hans, sje að neinu leyti nauðsynlegt, því að síðustu árin hefir mjög lítið af síld verið flutt út frá Austfjörðum, sem næst um 600 tunnur árlega. Virðist ekki þurfa yfirmatsmann til að meta þá síld, heldur mætti það verk vera unnið af undirmatsmanni, er stæði undir yfirmatsmanninum á Akureyri. Sá yfirmatsmaður gæti og ætti að hafa með höndum umsjón eða yfirumráð með starfi matsmannanna fyrir austan Langanes, öldungis eins og síldarmatsmaður á Siglufirði setur mann eða menn til að meta síld vestur á Ströndum. Þetta er aðalástæðan fyrir frv., og óska jeg, að það verði látið ganga til sjútvn., að lokinni umræðunni.