24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

141. mál, skoðun á síld

Frsm. (Stefán Stefánsson). Eins og skýrt er frá í nál., tók sjútvn. þessu frv. mjög vel og mælir með því, að háttv. deild samþykki það óbreytt. Aðeins einn maður úr nefndinni, hv. 2. þm. Reykv. (JB) fylgdist ekki með nefndinni, heldur áleit heppilegra að vísa frv. til stjórnarinnar. Annars mun honum ekki vera það mikið kappsmál. Hinir 4 úr nefndinni álitu málið þess vert, að það næði fram að ganga. Ástæður nefndarinnar eru þær sömu og jeg tók fram við 1. umr., nefnilega, að óþarft sje, að ríkið greiði jafnmikið fje sem þetta fyrir ekki meira verk. Því til sönnunar skal jeg geta þess, að útflutningur síldar frá Austurlandi hefir numið alls 3 síðustu árin 1892 tunnum, eða 631 tunnu á ári til jafnaðar. Fyrir þetta starf hefir verið greitt á sama tíma 11354,63 krónur, eða með öðrum orðum, yfirsíldarmatsmanninum hafa verið greiddar úr ríkissjóði 6 krónur fyrir hverja útflutta tunnu. Þótt maður fari lengra aftur í tímann, þá verður útkoman þó svipuð. Það virðist að minsta kosti alveg ástæðulaust að vera að halda uppi þessu yfirsíldarmatsstarfi, því að á Norðurlandi veit jeg ekki til þess, að nokkur undirmatsmaður hafi svo lítið að gera, að hann meti ekki meira en 600 tunnur á ári.

Þegar reynslan er þessi, þá virðist ekkert sjálfsagðara en að yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri, sem nú hefir aðeins Eyjafjörð og ströndina austur til Langaness, nefni til undirmatsmenn á Austurlandi.

Frv. gerir ráð fyrir, að umdæmum yfirmatsmanna skuli skift svo, að sá, sem aðsetur hefir á Akureyri, fái svæðið frá Ólafsfjarðarmúla til Lónsheiðar, en eins og hv. þdm. er kunnugt, aðskilur hún Suður-Múla- og Austur-Skaftafellssýslur. En svo hefir síldarmatsmaðurinn á Ísafirði svæðið frá Hornbjargi og suður um til Lónsheiðar. Er ekkert við það að athuga, því af Suðurlandi (frá Reykjanesi til Lónsheiðar) er aldrei flutt út síld.

Það, sem helst kynni að vera haft á móti frv., er það, að einhverntíma kynni að berast svo mikil síld á land á þessu svæði (Austfjörðum), að undirmatsmaður nægði ekki. En þótt svo væri, að yfirmatsmaðurinn á Akureyri þyrfti einhverntíma að skjótast austur til þess að setja undirmatsmenn inn í starfann, þá mundi það ekki nema meiru en ferðakostnaði þeim, sem yfirmatsmaðurinn á Seyðisfirði hefir tekið 1922, eða kr. 1373,75.

Af þessum orsökum, sem jeg hefi tilfært, lítur nefndin svo á, að hjer sje um sjálfsagða breytingu að ræða, og vænti jeg, að háttv. deild taki málinu vel.