24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

141. mál, skoðun á síld

Magnús Kristjánsson:

Mjer finst þetta mál í raun og veru fremur smávægilegt, og furðar mig eiginlega á því, að það skuli vera borið fram nú. Jeg efast ekki um, að upplýsingar þær, sem hv. frsm. (StSt) hefir gefið, sjeu rjettar í sjálfu sjer, frá hans sjónarmiði, en alt um það verða þær nokkuð villandi, þegar miðað er við hið óvenjulega ástand, sem verið hefir að undanförnu. Síðastliðið ár var dýrtíðaruppbótin alt að því eins há eins og stofnlaunin. Með því móti verða tölurnar nokkuð háar, en þetta breytist væntanlega með ári hverju. En þá verður þessi kostnaður ekki svo ægilegur, að nauðsyn sje á að gera breytingu eftir stuttan tíma á þeirri skipan, sem gerð hefir verið á síldarmatinu. Þegar þess er gætt, að enginn getur með vissu sagt, hvar síldin muni leggjast að það og það árið — hún gerir ekki boð á undan sjer — getur enginn dæmt um, hvar mest muni þörf á síldarmatsmönnum framvegis. Þess vegna er alveg ótækt að breyta lögunum af þessum smávægilegu ástæðum.

Þegar ræða er um sparnaðinn af þessari breytingu, tel jeg, að menn verði að reikna hann efir því, sem er á venjulegum tímum. Laun þessa manns eru í raun og veru 1600 kr. Getur verið, að ferðakostnaðarreikningar hans sjeu háir, eða ferðalög meiri en þörf væri á, en svo mikið ættu hv. þm. að treysta stjórninni, að hún greiði ekki reikninga, sem eitthvað er athugavert við.

Því víkur dálítið undarlega við, að þegar fært er í tal að fækka starfsmönnum á öðrum sviðum, svo sem sýslumönnum, er eins og mörgum verði þegar í stað ljóst, að það sje algerlega ófært. En þegar þess er gætt, að þeir eru 5 sinnum fleiri en yfirsíldarmatsmenn, finst mjer ósamræmi í að vilja nú fækka þeim. Enginn, sem þekkir þennan mann, mun efast um, að hann standi vel í stöðu sinni. Auk þess er hann maður gamall, sennilega um sjötugt. Þar sem hann er lítt fær til annara starfa, get jeg ekki skilið annað en að ríkissjóður yrði að greiða honum full laun til æfiloka. Fer þá þessi svokallaði spámaður að koma að litlu haldi.

Þá er aðalatriðið í þessu máli, er jeg vil biðja hv. þm. að íhuga vel. Svæði þau, sem yfirsíldarmatsmenn hafa nú til yfirferðar, eru of stór til þess að þeir geti haft nauðsynlegt eftirlit með undirmönnum sínum. Nú er það starf breytt til muna frá því, sem áður var, þegar þessi skipan var gerð, og er nú miklu umfangsmeira. Þá var einungis framkvæmd skoðun á nýrri síld, en nú er söltuð síld einnig skoðuð, og hæfir menn verða að skoða þá síld, sem flutt er til útlanda. Þeir þurfa að vera á hverjum útflutningsstað. Sjá því allir, að ekki verður komist af með minna en 4 yfirsíldarmatsmenn til að líta eftir þessu.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, aðeins endurtaka, að ekkert viðlit er að breyta lögunum fyrir jafnsmávægilegt atriði. Jeg álít, að stefnan ætti að vera sú, að eftirlit með vöruvöndun ætti að aukast og batna, en þingið ekki draga úr því að ástæðulausu. Hjer er reynt að draga úr þeirri lofsverðu viðleitni, sem verið hefir á framfarastigi, að auka vöruvöndun, því get jeg ekki greitt þessu frv. atkvæði, og þykist fullviss, að hv. deildarmenn muni sjá, þegar þeir íhuga málið, að rjett sje að láta það ekki fara lengra.