24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

141. mál, skoðun á síld

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Hv. þm. Ak. (MK) lagði talsverða áherslu á, að jeg hefði annaðhvort snúið út úr eða misskilið orð sín, er hann talaði um nauðsyn á eftirliti með útflutningi síldar. Orð hv. þm. voru þau, að þar sem síld væri út flutt, þyrftu hæfir menn að vera viðstaddir til að meta hana. Hvernig á að skilja þessi orð öðruvísi en að hv. þm. (MK) eigi þar við yfirmatsmenn, þegar hann segir þetta um leið og hann er að deila á frv.? Annað væri hugsunarvilla. Því að það er vitanlegt, að á hverri þeirri höfn norðanlands eru undirmatsmenn, þar sem útflutningur síldar á sjer stað. Með þessu fyrirkomulagi er því sjáanlega engu siður auðvelt að hafa undirmatsmann á hverjum stað heldur en nú, þó sjerstakur yfirmatsmaður sje ekki á Austurlandi. Mjer kom ekki til hugar að misherma orð hv. þm. Ak. (MK), en jeg hygg, að jeg hafi skilið, þau rjett, eða eins og hv. þm. ætlaðist til, þegar hann varpaði þeim fram.

Þá taldi hv. þm. (MK) vafasamt, hvort yfirmatsmaðurinn á Akureyri mundi vilja bæta þessu svæði við sig endurgjaldslaust.

Jeg get ekki annað ímyndað mjer en að hann sje fús til þess, en ef svo væri ekki, hygg jeg, að stjórnin gæti skipað honum það, eður hann segi af sjer starfinu. Jeg hefi átt tal um þetta við lögfræðinga, og kemur þeim saman um, að þetta sje ekki embætti, sem menn geti setið í óáreittir eins lengi og þeir vilja. Ef eitthvað ber á milli þeirra og stjórnarinnar, geti hún vikið þeim frá og skipað aðra í þeirra stað. Það getur verið, að hv. þm. Ak. (MK) viti betur, en mjer varð á að trúa lögfróðum mönnum um þetta.