30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

141. mál, skoðun á síld

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Þegar jeg óskaði síðast, að mál þetta yrði tekið út af dagskrá, þá gat jeg þess, að jeg myndi skýra frá síðar, af hvaða ástæðum að jeg fór fram á þetta, en það var að miklu leyti vegna þess, að jeg hafði þá ekki talað um málið við þann mann, sem ætlast er til eftir frv. að við starfinu taki fyrir Austurland, sem sje yfirsíldarmatsmanninn á Akureyri. Þótti mjer betra að hafa hans umsögn um þetta atriði, þótt jeg hins vegar efaði ekki, að hann teldi þá breytingu mjög eðlilega, sem frv. leggur til að gert verði. En þetta hefir nú ekki getað orðið, af því að yfirsíldarmatsmaðurinn sigldi til útlanda með „Gullfossi“ síðast, og hefi jeg því ekki getað náð í hann, en við ritara Fiskifjelags Íslands hefi jeg átt tal um þetta efni, og taldi hann ekki minsta vafa á, að hann mundi fús á að taka að sjer yfirmatsstarfið.

En svo vil jeg loks taka það fram, að þegar yfirsíldarmatsmaðurinn á Siglufirði var hjer á ferð fyrir skömmu, átti hann tal við sjútvn. Mintist hann þá á að fyrra bragði, að þetta yfirmatsstarf á Austfjörðum væri með öllu óþarft. Er því ekki hægt að segja, að jeg sje einn um þetta álit.

Háttv. þm. Ak. (MK) hefir tekið að sjer að berjast gegn framgangi þessa máls, og fæ jeg satt að segja ekki skilið ástæðuna til þess. Það virðist vera ofureinfalt mál, og ætti að vera öllum ljóst, hvílíkur óþarfi það er að greiða þessum yfirmatsmanni 6 krónur af ríkisfje á hverja tunnu, sem útflutt er af Austfjörðum. Mjer dylst það ekki, hver alvara fylgir máli um sparnaðinn hjá þessari háttv. deild, verði frv. felt.

Viðvíkjandi þessum mótmælum að austan, sem háttv. þm. Ak. (MK) leggur svo mikið upp úr, skal jeg geta þess, að þau eru aðeins frá bæjarfógetanum á Seyðisfirði, en sanna ekki neitt, að menn eystra álíti alment nauðsyn á þessu embætti. Annars munu háttv. þdm. kannast við það, að hversu óþörf embætti sem leggja á niður, þá verða altaf einhverjir til þess að þjóta upp til handa og fóta til þess að mótmæla því. Er hjer eitt ljóst dæmi af mörgum slíkum.

Þessi rökstudda dagskrá, sem nú er fram komin, er einungis áframhald af mótstöðu hv. þm. Ak. (MK) gegn frv. Hann ætlar eðlilega, að mönnum verði ljúfara að greiða atkvæði með dagskránni heldur en beinlínis að fella frv. Þetta ætti öllum hv. deildarmönnum að vera auðskilið.