30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í C-deild Alþingistíðinda. (2839)

141. mál, skoðun á síld

Þorsteinn Jónsson:

Jeg þarf fáu að svara að þessu sinni, og get því verið stuttorður.

Hv. þm. Borgf. (PO) tókst ekki, sem vonlegt var, að hrekja það, að jeg og hv. þm. Dala (BJ) hefðum einmitt oftast staðið á öndverðum meiði í þeim svonefndu sparnaðarmálum. Að vísu stóðum við saman í því að taka ekki embætti af manni, með þeim eina árangri að spara starf hans en ekki launin. En þar með mun líka samleið okkar í þeim málum hafa verið á enda talin. — Mig myndi annars ekki furða á því, þótt hv. þm. Borgf. (PO) væri á móti svo að segja hverju máli, sem til menta horfir. En á hinu furðar mig, að hann skuli berjast svona á móti atvinnumáli, sem þetta er. Er tæpast hægt að segja, að hjer sje um sparnaðarmál að ræða, heldur yfirgang við nokkra atvinnurekendur í landinu.