28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

127. mál, tollalög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er búið að liggja lengi hjá hv. deild. Er nú komið á annan mánuð síðan það kom fram, og hefir það verið sex sinnum á dagskrá. Jeg skal ekki hafa langa ræðu um það, svo að það geti komist áfram án frekari tafar.

Jeg vil aðeins benda á það, að eins og ástatt er nú hjer á landi kemur sykurtollurinn mjög hart niður á nokkrum hluta þjóðarinnar, og það þeim hlutanum, sem síst skyldi, þeim fátækustu, nefnilega þurrabúðarmönnum í kaupstöðum og kauptúnum, sem altaf eru neyddir til að kaupa mikinn sykur.

Það mun láta nærri, að þessi skattur sje um 30 kr. á heimili, og sumstaðar miklu hærri. Hve hart þetta kemur niður á fátækari hluta fólksins, sjest af því, að þingið ætlast ekki til, að verkamenn greiði nema 1/3 af þessari upphæð í beinan skatt. Jeg þykist vita, að margir hv. þm. kveinki sjer við að fara að breyta þessu nú, enda þótt þeir álitu rjettmætt að gera það, sökum þess, að þetta er tekjustofn fyrir ríkissjóðinn. það er að vísu rjett, að það er nokkur tekjustofn, en þó ekki svo hár, að ekki sje hægt að fylla það skarð í þessum miljónafjárlögum. Sykurinnflutningur hefir verið á árunum 1918–21, að báðum meðtöldum, um 9700 smálestir. Var flutt inn nokkuð misjafnt eftir árum, en gera má ráð fyrir, að meðaltalið af þessu, eða 2400 smálestir, megi leggja til grundvallar, sem ársinnflutning á sykri. Mundi því sykurtollur nema um 350000 krónum árlega. Sumir munu nú sjálfsagt telja, að ríkissjóður þoli ekki, áð þessum skatti sje ljett af, en í því sambandi vil jeg minna á það, að komið hefir til orða að afnema útflutningsgjald, sem er þó miklu meiri tekjustofn, og kemur auk þess ekki nærri eins illa niður og sykurtollurinn.

Jeg vænti þess, að hv. deild leyfi þessu máli að fara til nefndar. Er nú orðið áliðið þingtímans, og þarf því að hraða málum, sem nú eru við 1. umr., ef þau eiga að komast í gegn. En þó svo fari, að frv. verði felt nú, þá kemur það aftur og aftur, þar til það kemst í gegn.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að menn fari að telja sykurtollinn verndunartoll meðan ekki er sykurrófnarækt í landinu. En til þess að útvega ríkinu tekjur eru margar leiðir betri en þessi og rjettlátari.

Jeg ætla ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni. Heyri jeg, að hæstv. atvrh. (KIJ) hefir kvatt sjer hljóðs, og vona jeg, að hann veiti málinu góðar undirtektir. Geri jeg að tillögu minni, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og til fjhn.