28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

127. mál, tollalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg álít óþarfa að hafa langar umræður um þetta mál, því fyrirsjáanlegt er, að það nær ekki fram að ganga á þessu þingi.

Það er rjett, að sykurtollurinn kemur hart niður á fátæku fólki, einkum við sjávarsíðuna. En þar sem hv. flm. (JB) sagði, að telja mætti þetta dálítinn tekjustofn, og mætti því sennilega búast við mótmælum frá stjórninni gegn því, að tollurinn yrði afnuminn, þá upplýsti hann sjálfur, að þessi dálitli tekjustofn gæfi ríkissjóði 350 þús. kr. tekjur á ári hverju. Jeg ætla, að þetta muni fulllágt reiknað, og að tollurinn sje nær 1/2 miljón en 350 þús. Jeg get þó ekki fullyrt þetta, því að jeg hefi ekki athugað það sjerstaklega. Það hefir farið fyrir mjer, eins og sennilega sumum hv. þm., að jeg hafði gleymt þessu frv., þangað til það var tekið á dagskrá.

Ef það er rjett, sem stendur í greinargerð fyrir frv., að hingað til hafi ekki þótt fært að afnema þennan toll, sje jeg ekki, að nú sjeu betri ástæður til þess, nema siður sje. Að minsta kosti þyrfti þá að útvega nýja tekjustofna, annars yrði verulegur tekjuhalli á næsta ári. Ef mönum er það alvara að ljetta þessum tolli af, og að vísu væri full ástæða til að íhuga það mál, þyrftu að koma fram ákveðnar tillögur um, hvar ætti að taka þessa upphæð. Jeg tel sjálfsagt, að málið verði athugað í nefnd, en það ætti að bíða betri undirbúnings, og er ekki ósennilegt, að hv. flm. (JB) gæti í samráði við stjórnina, þó að það yrði ekki strax á næsta þingi, komið með tillögu um afnám tollsins í sambandi við önnur frv. um nýja tekjustofna. En eins og nú er þröngt um fjárhag landsins má þessi tollur ekki hverfa, og teldi jeg rjettast, að frv. færi ekki lengra en til nefndarinnar.