28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

127. mál, tollalög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg veit ekki, á hverju hæstv. atvrh. (KIJ) byggir þá ætlun sína, að þetta frv. muni ekki ná að ganga fram. (Atvrh. KIJ: Mjer fanst það liggja í orðum hv. flm., að hann ætlaði þetta sjálfur). Fyrir þinginu liggja mörg stórmál, sem eru ekki komin lengra, svo sem frv. um nýjan banka, en flutningsmenn ætlast til, að afgreidd verði á þessu þingi. En þetta mál er ofureinfalt, og ætti meðferð þess ekki að þurfa að standa lengi.

Hæstv. atvrh. (KIJ) vefengdi, að jeg hefði farið rjett með tollhæðina. En taki menn skýrslur Hagtíðindanna frá árunum 1918–1921, eins og jeg gat um, kemur í ljós, að meðalinnflutningur þessi 4 ár hefir verið 2400 smálestir, og skilst mjer, að tollurinn af þeim fari ekki fram úr 350 þús. kr. Hæstv. atvrh. (KIJ) sagði, að þá þyrfti að benda á nýja tekjustofna; Það má hæglega gera, og ef málið kemst lengra, gæti jeg bent á ýmsar leiðir. Hæstv. ráðh. (KIJ) taldi rjettara að bíða betri tíma. Sumir hv. þm. eru þó bjartsýnir á hag ríkissjóðs, og það er jeg líka, en jeg skil vel, að sá ráðherra, sem fer með sjóð ríkisins, sje íheldinn. Það fer svo fyrir honum, eins og mörgum öðrum gjaldkerum, enda er það mælt, að sá sje ekki góður búmaður, sem kann ekki að berja sjer. Jeg tel fjárhaginn ekki svo þröngan, að ekki sje óhætt að sleppa þessum tekjum, en hins vegar eru þetta hlunnindi til handa þeim mönnum, sem harðast hafa orðið úti vegna atvinnuleysis, dýrtíðar og gengishruns, en það eru verkamenn í sjávarþorpum. En Alþingi hefir látið hag þeirra lítið til sín taka.