28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

127. mál, tollalög

Magnús Kristjánsson:

Jeg býst við, að öllum geti komið saman um að leyfa þessu máli að ganga til 2, umr. og nefndar, hvernig sem. afdrif þess verða síðar. Mjer þykir óviðfeldið að taka einstaka liði út úr og breyta tolllögum og vörutollslögum árlega með lítilfjörlegum kákbreytingum. Því er svo varið, að tollmál vor eru í mesta vandræðaástandi. Fyrir því er fengin full reynsla, að vörutollslögin eru svo í úr garði gerð, að ógerningur er að framkvæma þau, og auk þess valda þau miklu misrjetti á ýmsan hátt. Jeg hygg,

að ekki geti liðið á löngu áður en takaverði alla tolllöggjöfina í einu lagi til gagngerðrar breytingar, og væri æskilegt, ef stjórnin gæti undirbúið það mál fyrir næsta þing. Frá upphafi hefi jeg verið á þeirri skoðun, að rjettasta leið in væri að leggja verðtoll á allar vörur, sem flytjast til landsins, og því tel jeg best að vera sem mest laus við allar smávægilegar breytingar á þessu kerfi, hverjar sem eru. Þetta ástand getur ekki haldist til lengdar, og er því allra hluta vegna haganlegast að taka upp þá reglu að tolla eftir verðmæti varanna, er jeg tel handhægara í alla staði.

Það er ekki eins mikilsvert atriði, eins og sumir halda fram, hvort sykurtollurinn er látinn haldast óhaggaður ári lengur eða skemur, því að þessi tollur, sem talinn er svo óbærilegur, nemur þó ekki nema 3–4 kr. á hvert mannsbarn í landinu. það er fjarri mjer að halda því fram, að rjett sje að tolla þessa vöru, en ekki má gera of mikið úr þessari kvöð og mála of svart fyrir þeim, sem hafa ekki gert sjer fulla grein fyrir, hvað um er að ræða. Jeg vænti þess, að hæstv. stjórn taki til íhugunar, hvort ekki sje ástæða til að undirbúa gagngerða breytingu á þessu fyrirkomulagi á milli þinga, og hvort leið sú, sem jeg hefi bent á, mundi ekki geta talist heppileg.