19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

70. mál, einkasala á útfluttri síld

Flm. (Jón Baldvinsson):

Síldarútvegurinn er af mörgum talinn mjög stopull atvinnuvegur. Ekki sjerstaklega fyrir þá sök, að veiðin bregðist, heldur fyrir hitt, að of mikið veiðist til þess að hægt sje að koma því út fyrir viðunandi verð. Liggur þetta í því, að það er nú að langmestu leyti ein þjóð, og hún ekki mjög stór, sem kaupir íslensku síldina. Þegar þar við bætist skipulagsleysi meðal þeirra, er flytja út síldina, þá er skiljanlegt, að þessi atvinnuvegur lendi í því öngþveiti, sem reynsla síðustu ára ber vott um. Þessu frv. er ætlað að vinna tvent: fyrst að koma góðu skipulagi á sölu síldarinnar, og annað, að útvega nýjan markað fyrir síld. Um fyrra atriðið er það að segja, að síldarútvegsmenn hafa sjálfir fundið í hvert óefni væri komið. Fyrir þinginu 1921 lá beiðni frá þeim, er þennan atvinnuveg reka, að löggjafarvaldið skærist í leikinn með það að lögbjóða fjelagsskap meðal síldarútgerðarmanna, svo að þeir gætu komið á skipulagi, sem gerði þennan atvinnuveg tryggari. Var þá samþykt allítarlegt frumvarp um þetta efni í Nd., en það visnaði upp í Ed., og svo skilaði þingið þessu frá sjer sem vanburða heimildarlögum, sem aldrei voru notuð.

En nú kann einhver að segja, að það erindi hafi sjerstaklega miðað að því, að útiloka útlendinga frá síldarsölunni, en síðan sjeu komin lög, er tryggi landsmenn í þessu efni. En vel má að því gæta, að danskir ríkisborgarar hafa sama rjett til að veiða í landhelgi. Jeg er nú ekki mjög smeikur um það, að Danir fari á eigin spýtur að stunda hjer síldarútveg í stórum stíl, en frá Dönum er stutt yfir sundið til Svíanna, sem kaupa mestalla íslensku síldina. Og mikið má vera, ef ekki er hægt að finna einhvern, sem vill lána nafnið sitt til þess, að unt sje í skjóli þess að reka síldveiðar hjer. Og þær sagnir berast nú hingað, að sænskir síldargrósserar sjeu að undirbúa með dönskum mönnum stórfeldan síldarútveg hjer við land, og þá fer að verða minna gagn að rjettinum, sem ætlað er að veita íslenskum mönnum með fiskiveiðalöggjöfinni. Og svo gæti einhverjum dottið í hug, að til kynnu að vera þeir landar, sem væru tilleiðanlegir til þess að vera fyrir framan, ef góð borgun væri í aðra hönd.

En einkasala ríkisins — og um einkasölu handa öðrum getur naumast verið að tala — kemur í veg fyrir þær illu afleiðingar, sem af þessu gæti hlotist fyrir landsmenn, að veiðin, sem aflað væri með slíkri leppmensku, væri notuð til þess að þrykkja niður síldarverðinu hjá íslenskum síldarútvegsmönnum, þar sem slík veiði myndi falla undir einkasölu ríkisins.

Í frv. er gert ráð fyrir, að 2% af söluverðinu renni í ríkissjóð, en að helmingi þessa fjár megi verja til að leita uppi nýja markaði. Það fje, sem ríkisstjórnin hefði þá til umráða í þessu skyni, yrði varla minna en 50–60 þús. kr. árlega. Fyrir það fje má mikið gera. Með slíkt fje handa á milli má gera sölutilraunir, sem einstaklingarnir alls ekki vilja gera nú eða geta hætt á að gera. En vegna þess, hve markaðurinn nú er takmarkaður, er bráðnauðsynlegt, að þegar sje hafist handa, til þess að vinna nýja markaði fyrir íslensku síldina, reyna að fá þjóðir, sem nú kaupa lítið eða alls ekkert af síld frá okkur, til þess að nota hana. Fá vitneskju um kröfur hinna ýmsu þjóða um það, hversu hún skuli tilreidd, og ótalmargt annað fleira. En alt þetta verður að gerast með fullkonmu skipulagi. Og einkasöluskipulagið, sem frv. gerir ráð fyrir, er að mínu áliti hið eina, sem gerir það mögulegt að koma skipulagi á söluna og til að vinna nýja markaði.

Þetta hvorttveggja er til þess að tryggja þennan atvinnuveg og gera hann arðsamari og áhættuminni en nú hefir verið um nokkurt skeið og útlit er fyrir að verði, ef ekki er að gert.

Silfurhjörðin fer fram hjá landinu okkar á hverju sumri. Okkur stendur til boða að taka af þessum náttúrunnar gæðum eftir vild, en við verðum líka að hafa forsjá til að geta farið með og hagnýtt þessi auðæfi. Við höfum ekki kunnað það til þessa, því að ef svo hefði verið, myndum við ekki hafa þurft að taka neitt enskt lán, og þyrftum heldur ekki nú að tala um að taka gjaldeyrislán, nje vera að tala um að gera ráðstafanir til að stöðva og hækka gengi íslenskrar krónu.

En nú er komið sem komið er. Og þá er að gera við því, sem fram undan er. Og í frv., sem fyrir liggur, er bent á leið til að tryggja einn atvinnuveg okkar í framtíðinni. Vænti jeg, að málinu verði vel tekið, og því verði, að lokinni 1. umr., vísað til sjávarútvegsnefndar.