24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

98. mál, útsvarsskylda vatnsnotenda

Flm. (Jakob Möller):

Jeg skal ekki hefja langar umræður um þetta litla frv., og skal þá strax játa, að það er í flaustri samið. Jeg skal játa, að orðalagið, „þar sem orkan er hagnýtt“, getur misskilist. Það má ef til vill skilja það svo, að hagnýtingin fari fram í sjálfri raforkustöðinni, og eru það vinsamleg tilmæli mín til þeirrar nefndar, sem frv. verður væntanlega vísað til, að hún geri á því þær breytingar, að öll tvímæli verði tekin af um þetta.

Þá er og athugandi, hvort vert er að láta ákvæði frv. ná til annara fyrirtækja en þeirra, sem stofnuð eru og starfrækt til almenningsþarfa. Ef frv., þannig breytt, einungis lögskýring, því samkvæmt gildandi lögum er ekki heimilt að leggja útsvar á slík opinber fyrirtæki. Og þó það hafi átt sjer stað, eins og t. d. með rafmagnsveituna í Reykjavík, þá verður það útsvar auðvitað aldrei borgað, en hins vegar nauðsynlegt að fá skýlaus ákvæði um þetta, til að taka af allan vafa. Ef frv. er breytt á þennan hátt, verður ekkert fyrirtæki skattfrjálst, nema sem bygt er til almenningsþarfa, en slík fyrirtæki eru aldrei rekin sem gróðafyrirtæki. Rafmagnsveita Reykjavíkur er t. d. ekki fremur stofnuð í gróðaskyni en áveiturnar austanfjalls. Ef því annað á að vera skattfrjálst, þá er sjálfsagt að hitt sje það líka. En á hinn bóginn, ef útsvar á t. d. að leggja á rafmagnsveitu Reykjavíkur í Mosfellssveitinni, þá er hliðstætt, að lagt væri t. d. útsvar á Skeiðaáveituna, þar sem vatnið er til hennar tekið.