10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

50. mál, laun embættismanna

Flm. (Jón Magnússon):

Jeg hefi lítillega minst á þetta mál áður hjer í hv. deild. En skal nú gera nánar grein fyrir því.

Nokkrum dögum áður en ráðuneytisskiftin urðu hjer á þinginu í fyrra, hafði jeg frumvarp þetta altilbúið. Jeg mæltist því til þess við þann mann, sem mynda átti hina nýju stjórn, núverandi hæstv. forsætisráðherra, að koma frv. á framfæri. Hann vjekst vel undir það, en það fórst fyrir, að hann gerði það. Jeg hafði lofað einum kennara stýrimannaskólans, Einari Jónssyni, að frv. í þessa átt yrði lagt fyrir Alþingi í fyrra. Því fer frumvarp þetta aðeins fram á að bæta við einu kennaraembætti við stýrimannaskólann, að jeg hafði engu lofað neinum öðrum en Einari Jónssyni. En það stendur eins á um nokkra kennara við fleiri ríkisskóla.

Í mentaskólanum eru nú 3 kennaraembætti, eða öllu heldur 4, sem stofnuð hafa verið með samþykki þingsins, án þess þau sjeu enn ákveðin með lögum. Þetta er óheppilegt, bæði fyrir kennarana og fyrir ríkissjóð. Staða kennaranna verður óvissari og tregða á aldursuppbót. Fyrir ríkissjóð verður það dýrara, því að þeir leggja ekki í lífeyrissjóð Kemur það líklega til hans síðar að bæta það upp.

Stjórnin vildi láta þingið 1921 taka þetta til meðferðar og ákveða þessi embætti með lögum. Þingmenn viðurkendu líka, að þetta væri rjett, en vildu þó ekki auka við hin lögskipuðu embætti á pappírnum. Fórst þeim, að vísu, þar líkt og strútnum, sem felur höfuð sitt í sandinum, og heldur að hann sjáist þá ekki.

Um vjelstjóraskólann gildir og hið sama og um stýrimannaskólann. En mjer þótti það ekki koma til minna kasta nú að hafa frv. þetta víðtækara, — t. d. að taka upp líka mentaskólann með 4 slíka fasta kennara, með leikfimiskennaranum. En það var annað, sem jeg var í dálitlum vandræðum með, og það var launahæðin. Hjer er farið fram á, að launin sjeu ákveðin 2400 kr. og hækki á 3 ára fresti um 200 kr. upp í 3400 kr. og það aðeins af því, að þannig var það í frv. því, er jeg hafði borið fram 1921. Í raun og veru hefði lágmarkið átt að vera 3000 kr., svo sambærilegt væri við aðra skóla á sama reki. T. d. er ekki sanngjarnt, að kennarar við stýrimannaskólann hafi lægri laun en kennarar við kennaraskólann eða gagnfræðaskólann á Akureyri.

Að launin voru upphaflega ekki ákveðin hærri, var af því, að með þennan skóla, eins og ýmsa fleiri, var byrjað smátt. Sjerþekking ekki heimtuð svo afarmikil. En með meiri siglingum og skipastól hjer hafa kröfurnar vaxið, og ætti því að ákveða launin við þennan skóla ekki lægri en aðra sambærilega skóla hjer á landi.

Jeg veit ekki, hvernig deildin vill fara með frv., en jeg hefi nú gert það, sem jeg get. Jeg vil aðeins bæta því við, að sökum þess, að málið kemur fjvn. afarmikið við, er sjálfsagt, að málinu sje vísað til þeirrar nefndar.