28.02.1923
Efri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

34. mál, íþróttasjóður í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg get búist við því, að sumum hv. þm. muni finnast sem svo, að hjer sje ekki um neitt stórmál að ræða En jeg lít nú svo á, að þótt kostnaðarhlið þessa máls sje ekki mikil, þá sje hugsjónin, sem liggur á bak við þetta frv., stór. Þetta er eitt þeirra mála, sem ekki ætti að vera erfitt fyrir þetta þing að samþykkja, því að hjer er ekki um neinar kröfur um fjárframlag úr ríkissjóði að ræða. Hjer er aðeins farið fram á það, að skattur sá, sem að undanförnu hefir runnið í bæjarsjóð Reykjavíkur, verði hjer eftir lagður í sjerstakan sjóð, sem síðan sje varið til eflingar íþróttum um land alt. Jeg veit ekki, hvort jeg má fara hjer lítinn krók, en mjer hefir virst sem hjer á landi hafi verið talað meira um fullveldi hin síðustu ár en í nokkru öðru landi í heiminum, sem jeg þekki til. Það er aldrei minst svo á Ísland af vissum mönnum hjer, að þess sje ekki jafnframt getið, að það sje fullvalda ríki. Þetta virðist benda á, áð Íslendingar sjeu hræddir um, að fullveldi þeirra sje ekki fullkomlega viðurkent og aðrar þjóðir viti ekki um það, og því sje sjálfsagt að halda því á lofti. En þetta sífelda fullveldisskraf verður fáránlegt til lengdar, vegna þess, að þetta gera engar „fullvalda“ þjóðir og gæti bent á það, að fullveldi vort sje í raun og veru ekki mikið. En á bak við þetta liggur þó sú hugsun, að við eigum að reyna að vera menn og byggja landið. En þá er þess að gæta, að það verður ekki gert með orðum tómum, gífuryrðum og glamri um land og þjóð og forna sögufrægð, heldur verðum við að sýna dáð í verkinu. Og þetta frv., sem jeg flyt nú hjer, er einmitt litill þáttur í þjóðlegu viðreisnarstarfi. Hjer í Reykjavík er 1/5 hluti allra Íslendinga, og fyrir utan þá menn, sem hjer eru búsettir, er stöðugur straumur hingað hvaðanæfa af landinu. Reykjavík er því ekki aðeins andlegur höfuðstaður, heldur og allsherjar uppeldisstöð landsmanna, fyrir áhrif þau, sem hún hefir á hina ungu gesti. Dvölin hjer verður þeim altaf til náms, þótt fólkið komi ekki beint í þeim tilgangi. Fyrir ungu stúlkurnar, sem koma hingað í vist, og þær eru margar, verður Reykjavík skóli til ills eða góðs. Því er það æskilegt frá sjónarmiði allra landsmanná, að Reykjavík sje heilbrigður bær og hollur, ódýr og áhrifagóður. Því er hver stofnun, sem eykur menningu í Reykjavík, landsmál.

Ef við virðum fyrir okkur það tímabil, sem við lítum upp og aftur til, söguöldina, þá sjáum vjer, að eitt af því, sem einkendi hana, var óvenjulega fullkomin líkamsmenning. Hún hefir óvíða átt sinn líka, nema suður í Miðjarðarhafslöndum fyrir ca. 2000 árum. En með andlegri og fjárhagslegri hnignun landsins hnignaði og líkamsmenningunni. En síðan hafa verið gerðar tilraunir af æskulýð þessa lands að reisa hana við. það er samband milli líkamsmenningar og annarar menningar í hverju landi, og þarf ekki að líta lengra en til Englendinga, sem hafa sett markið dýpst á andlega menningu, og eru ein af hinum mestu íþróttaþjóðum heimsins. Jeg vona, að menn þurfi nú ekki að deila um það, að æskilegt er að geta gert sem mest fyrir líkamsmenninguna.

Í þessu frv. er farið fram á það, að stofnaður verði sjóður af skatti á opinberar íþróttasýningar, og þessum sjóði sje svo síðar meir varið til að byggja sundhöll og íþróttaskála. Það er tvent, sem hefir gert það auðveldara að framkvæma þetta nú en það var fyrir nokkrum árum. Annað er það að Sigurjón Pjetursson, sem er áhugamaður hinn mesti og einn af fremstu íþróttamönnum þessa lands, hefir fundið upp auðvelda aðferð til að leiða heitt vatn langar leiðir án þess að það kólni að nokkrum mun. En hitt er, að nú er komið hjer rafmagn. Það er sjálfsagt að geta þess, sem vel er gert, og skal jeg því fara nokkrum orðum um, hvernig Sigurjón uppgötvaði þessa aðferð. Hann rekur, sem kunnugt er, ullarverksmiðju á Álafossi. Inn í verksmiðjuna leiðir hann heitt vatn og hitar með því verksmiðjuna og íbúðina og ljettir alla starfrækslu. En hann fjekk eigi nóg af heitu vatni hjá Álafossi og var því að hugsa um að kaupa hver ofar í dalnum. Hann fór til þekts verkfræðings til að spyrja hann ráða um þetta, en verkfræðingurinn rjeð honum frá því, vegna þess, að vatnið mundi kólna á leiðinni. En Sigurjón er orku- og framkvæmdamaður og rjeðst í þetta eigi að síður og gerði þá þessa uppgötvun. Hann hlóð torfgarð undir leiðsluna í stað þess að grafa hana í jörðu, og losnaði með því við að vatn kæmist eins að leiðslunni. Á þennan hátt tókst honum að leiða vatnið 1% kílómetra án þess að það kólnaði meir en um 2 stig. Þessi uppgötvun hefir varanlega þýðingu og kemur þessu máli mikið við, og gerir kleift að hagnýta heita vatnið meir en gert hefir verið að undanförnu.

En fyrst jeg mintist á Álafoss, þá ætla jeg að geta þess, að nú starfar, eftir ósk í þingsins, nefnd, til að rannsaka ullariðnað hjer á landi. Að hennar tilstilli kom verkfræðingur að Álafossi. Þar vinna milli 40–50 manns, og vinnan er ekki góð eða heilsusamleg. En þessi verkfræðingur veitti því eftirtekt, hversu fólkið var hraustlegt og vel útlítandi og spurði, hverju slíkt sætti. Hann fjekk þá skýringu á því, að rjett hjá verksmiðjunni var sundlaug og verkafólkið synti í henni á degi hverjum, og sundið gerði verkafólkið svona hraustlegt útlits. þetta þótti verkfræðingnum frábærlega merkilegt. Þetta er röksemd fyrir frv. mínu. Það er ný sönnun fyrir því, að líkamlegt hreinlæti er nauðsynlegt við dagleg störf.

Það, sem ætlast er til hjer, er, að í framtíðinni verði alt heita vatnið úr Laugunum leitt heim að bænum. Jeg gæti hugsað mjer, að sundhöllin yrði t. d. hjá gasstöðinni, því þangað er skemst leiðsla. Mikils virði væri, ef hægt yrði að dæla sjö þangað í eina sundþróna, svo menn gætu ýmist baðað sig í heitum laugum eða hressandi saltvatni. Aðalatriðið er, að alt verði sem fullkomast og komi að sem bestum notum. Það þyrftu sennilega að vera 4–5 sundlaugar, svo karlar, konur og börn geti synt samtímis, svo sem venja er til á slíkum stöðum erlendis. Hjer yrði þetta tiltölulega ódýrt. Seinna þyrfti að byggja við sundhöllina stórt leikfimishús. Sundhöllin og íþróttaskálinn verða þá höfuðsetur allra íþrótta í Reykjavík.

Jeg mætti í morgun einum íþróttamanni hjer, sem var óánægður með að þurfa að borga þennan skatt. En jeg sagði honum, að ef íþróttamenn yrðu mjög skammsýnir, þá liti ekki vel út með framfarir í íþrótt þeirra. Það er ekki svo að skilja, að þetta fje sje tekið af íþróttamönnunum sjálfum, það er tekið af bæjarbúum öllum og gestum í bænum. Hinar stóru íþróttasýningar mundu veita miklu fje í þennan sjóð. Þetta er skattur á skemtanafýsn fólksins, tekinn úr vasa almennings. Og allur almenningur mun njóta góðs af ávöxtum sjóðsins, ef þessi breyting verður gerð. Ef þannig löguð sundlaug kæmi rjett við jaðar bæjarins, mundi í fyrsta lagi vera auðvelt að láta hvert einasta skólabarn í Reykjavík synda þar einu sinni á dag. Í öðru lagi mundi námsfólk við aðra skóla hjer vera tíðir gestir þar, og í þriðja lagi geri jeg ráð fyrir því, að íþróttamenn og konur mundu iðka meira sund þá en nú er kostur á. Og að lokum má búast við því, að mjög margir eldri menn hjer mundu nota þetta sjer til heilsubótar. Það er ekki auðvelt hjer, vegna veðráttu, að lifa heilsusamlegu lífi í Reykjavík, eins og víða í næstu löndum. Jeg veit ekki, hvert menn hafa veitt því eftirtekt, að margir andans menn þessarar þjóðar, þingskörungar, ráðherrar o. s. frv., hafa dáið fyrir tíniann. Ef menn minnast þess, að Gladstone var í fullu fjöri um áttrætt, en okkar afburðamenn falla oft í valinn 55–60 ára, þá er sýnilegt, að þetta stendur í sambandi við okkar ytri lífskjör. Hjer er ekki nema að litlu leyti hægt að stunda útiíþróttir sjer til heilsubótar, og mundi því leikfimi, og einkum dagleg iðkun sundíþróttarinnar, koma að góðum notum og lengja mannsaldurinn. Skammlífi nær til allra, bæði til þeirra, sem eiga að búa við svokölluð fáguð lífskjör, og hinna, sem við þrengri kost búa. Því verður að taka tillit til veðráttunnar og reyna að leiða þjóðina inn á heilsusamlegar brautir.

Jeg hefi nú farið um þetta fleiri orðum en venja er til. Geri jeg það af því, að í þessu frv. er fólgin ný stefna. Hjer er gerð tilraun til þess að rækta fólkið, og bæta að dálitlu leyti úr því, hvað við erum orðnir á eftir tímanum. Hjer er leynt að láta það lægra og minna skapa það hærra og meira. Miklu af því fje, sem hjer er eytt í skemtanir, er illa eytt í lítilfjörlegar skemtanir. Hjer er leitast við að nota þetta eyðslufje á þann hátt, að láta skemtunarfýsn fólksins skapa framtíðarheill alþjóðar.

Jeg vil að síðustu leggja það til, að máli þessu verði vísað til mentmn.