10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í C-deild Alþingistíðinda. (2933)

51. mál, meðferð á því fé sem landssjóði áskotnaðist fyrir áfengi

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessu frv. hefir verið útbýtt fyrir nokkrum dögum, og hafa þingmenn því eflaust kynt sjer það. Meiri hluti þjóðarinnar hefir um mörg undanfarin ár óskað, að hjer yrði algert aðflutningsbann á áfengi. Það hefir ekki lánast sem skyldi. Mikið vín hefir verið flutt inn í landið, og í bráðabirgðalögunum frá síðasta þingi er leyfður innflutningur í stórum stíl. Allar líkur eru til, að þau lög muni verða framlengd um nokkur ár. Ef þær ytri kringumstæður, sem valda afnáminu, breytast, mundi þjóðin lögleiða bannið aftur. Það er ómögulegt að líta á afnám bannsins öðru vísi en sem verslunarmál. Þeir, sem mest hafa barist fyrir afnáminu, telja sig hafa gert það til að bjarga fiskmarkaðinum, en ekki til að afla landsjóði tekna af víni, og þó að landinu áskotnist einhver arður af vínversluninni, þá var það þó ekki tilgangurinn í fyrstu. Það vakir fyrir flestum að stemma stigu, svo sem unt er, fyrir ofdrykkjunni, og vjer bannmenn óskum einhverra ráðstafana, sem hindra slíkt, eins og líka kemur fram í þessu frv.

Fyrir 3 mánuðum fjekk jeg ástæðu til að tala um þetta mál á almennum kjósendafundi í Árnessýslu, þar sem jeg kom fram með þá hugmynd að nota gróðann af áfengisversluninni, sumpart til að vinna á móti vínbölinu og sumpart til að efla andlega og líkamlega menningu í landinu. Þótt meðal þeirra kjósenda, sem á mig heyrðu, hafi eflaust verið nokkuð skiftar skoðanir, þá tóku flestir vel undir þessa tillögu.

Í frv. eru tvö aðalatriði; 1 að búa svo um hnútana, að tekjurnar af vínversluninni verði ekki til að festa vínbölið í landinu, 2 að láta vínið svo sem unt er vinna á móti sjálfu sjer, þ. e. þeirri úrkynjun, vesaldómi og spillingu, sem hlýtur að fylgja í kjölfar þess. Jeg hygg, að það beri að dæma frv. út frá þessum atriðum. Þeir verða á móti því, sem vilja festa vínið í landinu, og sömuleiðis þeir, sem eru andvígir framförum í almennri mentun, íþróttum, listum og vísindum.

Jeg kem þá að einstökum greinum frv. Viðvíkjandi 1. gr., að alt það, sem kemur inn fyrir áfengisverslun, t. d. ágóði, sektir, tollar o. s. frv., renni í þennan sjóð, er það að segja, að það getur ekki komið til mála að gera þetta fje að almennum eyðslueyri. Mjer hefir nýlega verið bent á það af einum hv. þm., að ef þetta frv. nær fram að ganga, yrði það, að því er snertir tolltekjurnar, brot á lántökusamningum, sem gerðir hafa verið við aðra þjóð. Jeg ætla þá að taka það fram, að ef ekki stæði á öðru, myndi jeg sætta mig við, þótt tolltekjurnar gengju ekki í sjóðinn, meðan samningar um enska lánið eru óbreyttir.

það er gert ráð fyrir 3 manna stjórn til að ráðstafa arðinum, og verða þeir menn valdir úr aðalflokkum þingsins. Væri það ávinningur, þar sem af því mundi leiða til fastari stefnu í málinu heldur en ef landsstjórnunum, sem flestar verða skammlífar, yrði falið að ráðstafa fjenu.

Viðvíkjandi 1. liðnum er það að segja, að meðan sú ráðstöfun, sem nú er um vínverslun, stendur, eru aðeins tveir vegir, sem löggjafarvaldið getur farið til að halda ofdrykkjunni í skefjum. Hið fyrra er, að menn megi ekki vera ölvaðir á almannafæri og sæti annars sektum. Hitt ráðið er að fræða ungu kynslóðina um skaðsemi áfengisins, og lækna þá, sem fallnir eru. Áfengissjóðurinn á að vera einskonar landvarnarfyrirtæki. Fje hans á að verja til að auka þekkingu á skaðsemi áfengis og efla bindindi, og að hinu leytinu til að styrkja eftirlit í áfengismálum, bæði gagnvart smyglurum og drykkjumönnum. Þess er mikil þörf. Það er sorglegur sannleiki, að Íslendingar eru drykkfeld þjóð að eðlisfari, svo að bæði má telja skömm og skaða að.

Þá kem jeg að hinum fjórum liðunum. Þeir eru meira nýmæli. Þeir eru annars eðlis. Áfengissjóðurinn á að glíma við áfengissýkina sjálfa. Hinir síðari þættir eru beinlínis til að auka andlega og líkamlega menningu landsins. Hafið brýtur niður ströndina á sumum stöðum, en myndar aftur lönd annarsstaðar, þar sem fyr var sjór. Meðan áfengið spillir heilsu og manndómi Íslendinga, vegna fisksölunnar á Spáni, má ekki minna vera en að þetta dýrkeypta fje myndi aftur land, sem bætur fyrir spjöll þau, sem niðurbrjótandi áhrif áfengisins valda í þjóðlífinu. Hugmyndin er sú, að nota þetta tilviljunarfje, sem ríkissjóði áskotnast á þennan hátt, til þess að auka alþýðumentun í landinu og hærri menningu á ýmsum sviðum. Fyrir nokkrum árum var stofnaður hjer sjóður, sem ber nafn Eggerts Ólafssonar, sem var fyrsti brautryðjandi íslenskrar náttúrufræði. Sjóður þessi hefir stöðugt vaxið undir vernd okkar helstu náttúrufræðinga, svo sem Þorvalds Thoroddsen, Stefáns Stefánssonar, Bjarna Sæmundssonar og Helga Jónssonar. Sjerstaklega hefir hinn síðastnefndi lagt mikið á sig fyrir sjóð þennan. Tilgangur sjóðs þessa er að styðja íslenskar náttúrufræðisrannsóknir, svo sem Carlsbergssjóðurinn gerir í Danmörku. Ef þessi sjóður fær styrk af fje því, sem hjer um ræðir, þá losnar ríkissjóður við fjárframlög til hans, en annars verður ekki hjá því komist að styrkja hann af opinberu fje í framtíðinni.

Þá kem jeg að öðrum liðnum, að veita Þjóðvinafjelaginu nokkurn styrk af fje þessu til að gefa út á íslensku úrvals fræði- og skemtanabækur í ódýrum útgáfum. Jeg get verið fáorður um hugmynd þessa, því að áður hefir alkunnur gáfu- og lærdómsmaður, prófessor Sigurður Nordal, skýrt hana. Við erum, sem kunnugt er, lítil þjóð með einangrað mál, og getum því ekki fylgst með í bókmentastraumum umheimsins, því að við skiljum ekki kenslulaust mál annara þjóða. Ef við værum fæddir í enskumælandi löndum, gætum við fengið svo að segja hvaða klassískt ritverk sem er fyrir 1 krónu í „Every Man’s Library.“ En okkar gáfufólki er nálega bönnuð önnur fræðsla en sú, er okkar fáskrúðugu bókmentir veita. Jeg veit, að forseti Þjóðvinafjelagsins, dr. Páll E. Ólason, er mjög hugsandi um þetta efni. Hann hefir skrifað Alþingi beiðni um, að það veitti Þjóðvinafjelaginu styrk til að gefa út nokkrar bækur á ári. Mundi þá vera valið til útgáfu ágætustu bókmentaverk heimsins, svo sem bækur eftir Tolstoj, Selmu Lagerlöf, Björnson o. fl. Að sama skapi yrðu gefnar út fræðibækur, sem einstakir forleggjarar þyrðu ekki að gefa út vegna kostnaðar. Jeg veit, að þessi hugmynd er í fullu samræmi við vilja stjórnar Þjóðvinafjelagsins og einnig í samræmi við vilja meginþorra allra kjósenda, því að ef nokkurt sameiginlegt einkenni er á hinni íslensku þjóð, þá er það hungur eftir að lesa góðar bækur. Og jeg fullyrði, að þessi liður yrði til þess að tendra ljós þekkingarinnar, svo að segja á hverju heimili í landinu.

Þá er þriðji liðurinn, um það að verja nokkrum hluta þessa fjár til þess að kaupa listaverk af ýmsum listamönnum. Um þennan lið vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum. Jeg skal þá fyrst geta þess, að það er merkilegt, hvað við eigum nú marga og góða listamenn. Það er merkilegt, að þjóð, sem ekki telur nema 100 þús. manns, skuli eiga á sama mannsaldrinum tvo menn eins og Einar Jónsson og Ásgrím Jónsson. Og í nánd við þá standa allmargir aðrir listamenn, þótt ekki sjeu þeir jafnsnjallir. En það er spá mín og trú, að þetta standi ekki lengi. Tökum t. d. Hollendinga. Á endurreisnartímabili þeirrar þjóðar áttu þeir hvern snillinginn öðrum meiri, og þá voru gerð í Hollandi mörg þúsund ágætra málverka, sem nú fylla listasöfn allra stærri menningarborga í Evrópu og Bandaríkjunum. En síðustu tvær aldirnar finst þar nálega ekkert af góðri list. Jeg býst við því, að það fari eins fyrir okkur og Hollendingum, ef við misskiljum okkar vitjunartíma og gerum listamönnum vorum ókleift að njóta sín hjer, með því að svelta þá.

Jeg veit af í einu húsi hjer 6 eða 7 málverkum, sem kostuðu um 4–5 þúsund frá málarans hendi, Ásgríms Jónssonar. Þessi málverk fara burtu úr landinu eftir nokkra mánuði, og koma ef til vill aldrei aftur. Þetta er ómetanlegt tjón fyrir landið. Erlendis lifa listamennirnir á því að selja einstökum mönnum verk sín. Hjer er sá markaður of þröngur. Menn eru hjer ekki svo efnum búnir, að þeir geti keypt mikið af listaverkum, því verður landið sjálft að kaupa, eða engin list getur þrifist hjer.

Þá kem jeg að síðasta liðnum, um að verja hálfum ágóðanum til þess að koma upp nauðsynlegum alþýðuskólum til sveita og styrkja tvær íþróttastöðvar, aðra við Reykjavík, hina í snjóahjeruðum norðan- eða austanlands. Þetta er mjög stórt atriði. Unga fólkið sækir nú svo mjög úr sveitunum til Reykjavíkur, að til vandræða horfir, bæði með húsnæði og atvinnu. Þetta aðstreymi til Reykjavíkur er að miklu leyti fólgið í því, að unga fólkið á ekki í annað hús að venda til náms. Og þegar það er einu sinni komið til bæjarins, þá langar það meira til að ílengjast þar. Við þetta tapa sveitirnar starfskröftum, og auk þess legst mikill kostnaður á sveitabændur við að kosta börn sín til náms í Rvík. Því verður óhjákvæmilegt að byggja alþýðuskóla í sveitunum, til þess að unga fólkið geti aflað sjer þar hentugrar, ódýrrar mentunar. Við það skapast aflstöðvar út um hinar dreifðu bygðir landsins. Þess vegna er fje, sem varið er til slíkra hluta, engan veginn fleygt í sjóinn. Það hefir ekki verið hægt að ljúka við skólahúsbygginguna á Eiðum sökum fjeleysis, en það er góður skóli og ódýr. Á Suðurlandsundirlendinu vantar tilfinnanlega skóla fyrir um 100 manns. í Dalasýslu er góður skóli með ágætum kenslukröftum, en líður af fjárskorti. Á Vestfjörðum má nefna skólann á Núpi, sem hefir haft stórmikil áhrif vestra, en á við þröng kjör að búa. Í Suður-Þingeyjarsýslu hefir verið myndaður sjóður til skólastofnunar með frjálsum samskotum sýslubúa, og þar er ekkert kjördæmismál, sem fólki er hjartfólgnara en einmitt þetta. Nú hafa ill forlög hagað því svo til, að landið fær tje í ríkissjóð, sem það bjóst ekki við að fá, fje, sem safnast fyrir sölu á áfengi. Það kemur til vor eins og 30 silfurpeningarnir forðum til Gyðinganna, sem þeir vörðu til að kaupa fyrir grafreit handa erlendum mönnum. Nú ættum við að fara að dæmi hinna vísu Gyðinga, og festa ekki þetta Rínargull, sem hefir í sjer fólgið beiskt eitur, í almennum eyðslueyri, heldur verja því á þann hátt, sem í frv. segir, minnugir þess, hversu hinir vitru Gyðingar fóru að undir svipuðum kringumstæðum.

Þá er eftir einn liður, um íþróttastöðvarnar. Jeg hefi talað um íþróttastöð í Reykjavík í sambandi við annað mál, og þarf því ekki að endurtaka það hjer. En það er ekki nóg að hafa íþróttastöð í Reykjavík, heldur verður að hafa aðra í einhverjum af snjóahjeruðum landsins, þar sem lögð yrði stund á vetraríþróttir, svo sem skíðaferðir og skautahlaup.

Það er eitt atriði sameiginlegt um þá eyðslu, sem hjer er farið fram á, að hún fer öll í hluti, sem hafa varanlegt gildi, fasteignir til menningarbóta, skólahús, fræðibækur, listaverk og íþróttastöðvar. Það er líka sjálfsagt, þegar um svona tilviljunarfje er að ræða. Jeg býst við því, að eftir nokkur ár verði algert bann komið hjer á aftur. Hvar stöndum við þá, ef ágóðinn af vínversluninni er orðinn óhjákvæmilegur liður í fjárlögum landsins. En ef við verðum þá búnir að byggja 7–8 alþýðuskóla og íþróttastöðvar, þá er það varanleg eign, sem stendur og hefir fullkomið gildi, þó að fjáraflinn hætti með endurkomu bannlaganna.

Jeg hefi heyrt það talið lýti á þessu frv., að óheppilegt sje að kljúfa ríkissjóð í margar deildir. En þá má minnast þess, að nú förum við að njóta góðs af því, að þm. N.-Ísf. (SSt) kom því til leiðar fyrir nokkrum árum, að myndaður var sjóður nákvæmlega með sama fyrirkomulagi, landhelgissjóðurinn. Hann er myndaður af sektum, sem inn koma fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi, og á að verja honum til að byggja strandvarnarskip. Nú er bráðum hægt að fara að byggja skipið, og það er því að þakka, að fje þetta var lagt í sjerstakan sjóð, en ekki notað sem eyðslufje. Þetta hliðstæða dæmi ætti að ýta undir hv. þm. að fara eins að hjer.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni. Jeg legg til, að máli þessu verði vísað til mentmn., því að hjer er um menningarmál að ræða. Jeg legg þó ekki kapp á það, en hugsunarrjett er, að það á þar heima.