17.03.1923
Efri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

74. mál, húsnæði fyrir opinberar skrifstofur í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Jeg vildi bæta örfáum orðum við.

Eins og öllum er kunnugt, þá hefir orðið mikill kostnaðarauki fyrir ríkið á síðustu árum við skrifstofur hjer í bæ. Skrifstofum hefir fjölgað og leiga hækkað mjög. Einnig hefir starfsmönnum við þessar skrifstofur fjölgað.

Þegar Landsbankahúsið er fullgert, þá getur það mist um eða yfir 20 herbergi. Taki ríkið þau á leigu, þarf að nota þau á sem heppilegastan hátt.

Vil jeg því beina þeirri áskorun til stjórnarinnar, ef ekki er hægt að koma þar fyrir öllum skrifstofum hins opinbera, þá að athuga það, hvar leigumáli er verstur, og haga sjer eftir því um valið.

Þá væri einnig rjett, að upplýst verði, hvort það er rjett, sem flogið hefir fyrir, að ríkissjóður hafi lagt 10000 kr. til að breyta húsi því, sem lögregluskrifstofan er í. Leiga fyrir þessa skrifstofu hefir verið 6000 kr. á ári.

Það má gera ráð fyrir því, að leiga í Landsbankanum verði fremur væg, því viðgerð á húsinu mun hafa orðið tiltölulega ódýr. Enn fremur má skjóta því til stjórnarinnar, hvort ekki megi haga svo skipun skrifstofanna, þegar þær flytjast í Landsbankahúsið, er mun verða um næstu áramót, að spara megi fólk á skrifstofunum með því, að skyldar skrifstofur, eins og húsagerðar-, vegamála- og vitamálaskrifstofumar, sjeu settar saman og noti að einhverju leyti sama starfsfólk.

Þá er það í öðru lagi hagræði fyrir menn, sem oft eiga erindi við fleiri en eina slíka skrifstofu í sama sinn, að þær sjeu saman.

Þá má minnast á eitt atriði, sem er það, að ríkið á timburhús hjer í vesturbænum. Þyrfti að athuga, hvort eigi mætti nota það fyrir eitthvað af skrifstofunum. Vildi jeg gera tillögu um það, þótt óformleg sje, til hæstv. stjórnar, að hún taki það atriði til athugunar.